19.03.1937
Neðri deild: 22. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

41. mál, verkfræðingar, húsameistarar eða iðnfræðingar

Guðbrandur Ísberg:

Hv. þm. Hafnf., frsm. iðnn., hefir réttilega tekið það fram, að n. er sammála um höfuðtilgang þessa frv., en að um eitt atriði í frv. væri ágreiningur í n., og er það rétt. Hann vildi halda því fram, að það atriði væri mjög smávægilegt, en ég er þar á allt öðru máli. Hér er um að ræða talsvert marga menn, sem á að svipta rétti, er þeir hafa haft undanfarið óátalið, og það e. t. v. fleiri menn en þá, er fá sinn rétt verndaðan með þessum l. T. d. munu vera í arkitektafélaginu 20 menn, en af þeim hafa nú 4 eða 5 klofið sig út úr. Og samkv. frv. eiga nú þessir menn einir að fá rétt til þess að kalla sig húsagerðarmeistara og einnig rétt til að dæma um það, hverjir af hinum skuli fá að halda rétti til að kalla sig húsagerðarmeistara, er þeir hafa haft hingað til óátalið. Hv. þm. vildi bera þetta saman við þann rétt, sem gildir fyrir lækna og lögfræðinga hér á landi. En þetta er ekki sambærilegt, fyrst og fremst af því, að fyrir lækna er ekki til nema einn skóli, er með prófi gefur þeim réttindi, og hið sama gildir um lögfræðinga. Aftur á móti hafa verkfræðingarnir og hinir aðrir, sem hér er um að ræða, fjölmarga skóla, er veita misjafnlega mikla menntun, en veita rétt til sama heitis að námi loknu. Að ýmsu öðru leyti er þessi samanburður ekki réttur að því er lögfræðisstörf snertir. Að vísu er það svo um einstök lögfræðisstörf, að aðeins lögfræðingar mega inna þau af höndum, en hinsvegar mega allir, sem vilja, vinna fjölmörg slík störf. Ef á að leita að sambærilegum dæmum um það, hvernig fagréttindi eru ákveðin, þá höfum viðhaft þau til meðferðar hér á Alþingi fyrir skömmu, þar sem eru réttindi fyrir skipstjórnarmenn og vélfræðinga. Þingið hefir verið smátt og smátt með lögum að herða á ákvæðunum um réttindi þessara manna, en þar hefir ekki verið tekin sú leið, að gefa örfáum mönnum réttindi, en útiloka alla hina, heldur var sú leið tekin, að samtímis því, sem þessum mönnum voru gefin ákveðin réttindi, þá var hinum, er ekki höfðu hin lögskipuðu próf, gert mögulegt að halda þeim störf um, er þeir höfðu rækt, á svipaðan hátt og lagt er til í brtt. minni hl. n. Þar er ekki gengið lengra en það, að færa starfsaldurstakmarkið niður í 6 ár, en um það má náttúrlega deila, hvort það er ekki of hátt, en við teljum ekki nokkra leið að útiloka þessa menn með öllu. Það er líka langt frá, að þeir eigi að halda sínum réttindum skilyrðislaust, heldur á úrskurður ráðh. að koma til í hvert skipti. Við tókum það ráð vegna þess, að við töldum ekki, að þessum fáu stéttarbundnu mönnum væri alveg treystandi til þess að dæma óvilhallt um rétt hinna, sem útiloka á. Það liggur líka í augum uppi, að það er fjarstæða að leggja það t. d. í hendur 4 manna, sem hafa klofið sig út úr 20 manna stéttarfélagi, að dæma um, hverjir hinna eigi að halda sínum réttindum.

Þetta er nú aðalágreiningurinn í n., og það er „princip“-ágreiningur. Minni hl. n. telur, að leysa beri málið eins og gert var með skipstjórnarmennina og vélstjórana, en ekki þannig að taka fáa út úr hopnum, en svipta hina alla réttinum.

Ég legg svo þennan ágreining undir dóm hv. þdm. og vona, að þeir líti sanngjarnlega á málið og hrapi ekki að því að samþ. frv. breytingalaust eða eftir till. meiri hl. n.