19.03.1937
Neðri deild: 22. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

41. mál, verkfræðingar, húsameistarar eða iðnfræðingar

Guðbrandur Ísberg:

Það mun vera svo með þetta mál sem önnur, að bezt sé að vefja það í sem minnstar umbúðir. Dæmið liggur ákaflega ljóst fyrir. Ef hér væru til engir verkfræðingar, byggingameistarar eða iðnfræðingar, en þeirra væri von á næstunni, þá væri vitanlega enginn vandi á í þessu efni. Þá fengju þeir einir rétt til að kalla sig verkfræðinga o. s. frv., sem lokið hefðu tilteknum prófum, og aðrir ekki. En nú horfir svo við, að hér á landi eru hópar manna, sem hafa kallað sig þessum nöfnum, og það er því augljós réttarskerðing, ef á að svipta þá menn heimild til þess að kalla sig svo sem þeir hafa gert. Ég vil benda á, að hér eru m. a. verkfræðingar, sem starfað hafa með því nafni í 6 ár og lengur og eru orðnir þekktir sem slíkir. Þessa menn á nú að svipta því nafni. Þeir eiga nú ekki lengur að fá að kalla sig verkfræðinga, heldur verða þeir að kalla sig N. N. eða einhverju nafni, sem enginn þekkir. Hv. þdm. verða að gera sér ljóst, hver áhrif þessi réttarskerðing óhjákvæmilega hlýtur að hafa á atvinnu þeirra. — Ég hefi á það bent, og því hefir ekki verið mótmælt, að hliðstæðir þessum mönnum væru þeir, sem mega kalla sig skipstjórnarmenn og vélfræðinga, þótt þeir hafi til að bera mismunandi menntun, af því þeir voru komnir inn í störfin, þegar lögin um þessi sérfræðilegu störf gengu í gildi. Hér er um menn að ræða, sem skortir háskólapróf að vísu, en hafa minni próf og hafa starfað í sínum fögum af kunnáttu og með góðum árangri í 6 ár eða lengur, og af þessum mönnum á að taka réttindin. Ég vil benda á það, að þótt nokkrar þjóðir hafi sett lög, þar sem réttindi þessi eru eingöngu miðuð við ákveðin próf, þá hafa Norðurlandaþjóðirnar, sem okkur eru skyldastar og því eðlilegt, að við tökum öðrum þjóðum fremur okkur til fyrirmyndar, ekki sett svo ströng ákvæði í þessum efnum, þrátt fyrir harðvítugan áróður þeirra manna, sem háskólaprófin hafa, og sem einnig hefir vart orðið hér á landi, og við minni hl. n. höfum nú gengið svo langt til móts við meiri hluta iðnn. til samkomulags, að orkað getur tvímælis, hvort ekki er þar of langt gengið.