19.03.1937
Neðri deild: 22. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (667)

41. mál, verkfræðingar, húsameistarar eða iðnfræðingar

*Gunnar Thoroddsen:

Það er eitt atriði, sem mér virðist ekki hafa komið nógu glögglega fram. í umr. og kenndi nokkurs misskilnings um hjá hv. síðasta ræðumanni, og það er, að með þessu frv. sé verið að svipta þá menn, sem kalla sig verkfræðinga og húsameistara, réttindum. Hér er í rauninni tvennu ólíku blandað saman. Með þessu frv. er ekki verið að svipta þessa menn réttindum til þess að stunda atvinnu, sem þeir hafa áður stundað. Að því leyti gengur þetta frv. mikið skemmra heldur en lög, sem samþ. hafa verið í mörgum öðrum starfsgreinum, þannig að þeir, sem beztrar sérmenntunar njóta, hafi ekki aðeins einkarétt til að nefna sig sérnöfnum, heldur einkarétt til að stunda þessa atvinnu. Hér er ekki farið fram á að svipta þá, sem ekki hafa háskólamenntun, rétti til þessarar atvinnu, heldur að þeir, sem bezta menntun hafa, fái einkarétt til þess að kalla sig sérstökum sérfræðinöfnum. Það blandast engum hugur um, að það er réttlátt krafa af hendi þessara manna, sem hafa stundað langt háskólanám í þessum greinum, að þeir fái einkarétt til þess að nefna sig slíkum nöfnum, ekki aðeins frá sjónarmiði þessara manna, heldur er það einnig nauðsynlegt frá sjónarmiði almennings, svo að hann viti, til hverra hann á að snúa sér með tryggingu fyrir því, að sérmenntun sé fyrir hendi. Út frá sjónarmiði almennings, sem nota þarf starfskrafta þessara manna, er nauðsynlegt að hafa sérstök heiti yfir þá menn, sem beztrar þekkingar hafa aflað sér í þessum greinum. Það sem hér er farið fram á, er því ekki sambærilegt við það, sem gildir nú um lækna, lögfræðinga og ýmsa iðnaðarmenn, því að þeir hafa beinlínis einkarétt á að stunda viðkomandi atvinnu. Hér er aðeins farið fram á einkarétt til að nefna sig þessum heitum. Að því er snertir þá, sem stunda húsbyggingar, skal ég geta þess, að frv. fer aðeins fram á einkarétt fyrir þá háskólagengnu til að kalla sig húsameistara eða „arkitekta“, en flestir þeirra, sem ekki hafa háskólamenntun, hafa ekki kallað sig „arkitekta“, svo að þeir halda sínum réttindum, þó að þetta frv. verði samþ. Hv. síðasti ræðumaður sagði, að það væri óviðkunnanlegt að veita öðrum aðiljanum, sem hér um ræðir, sjálfdæmi yfir hinum. Hér er nokkuð málum blandað, því að ég veit ekki betur en að í flestum greinum og hjá flestum stofnunum sé það viðurkennd regla, að þegar veita á mönnum réttindi eða störf, þá er leitað till. þeirra stofnana, sem hafa bezta þekkingu í því efni, sem um er að ræða, og þeir háskólagengnu verkfræðingar og „arkitektar“ eru náttúrlega sá aðilinn, sem bezta hefir aðstöðu til þess að dæma um þetta. Hv. þm. sagði, að bezt væri að fela þetta óhlutdrægum aðilja, og vitnaði í því sambandi til ríkisstj. Ég verð að viðurkenna, að mér finnst einkennilegt að heyra þennan hv. þm. bera svo mikið traust til hæstv. ríkisstj., og ég get ekki skrifað undir, eins og ég hefi þegar tekið fram, að hér sé verið að selja, öðrum aðiljanum sjálfdæmi; það er sagt út í hött, og í raun og veru er það bara útúrsnúningur

Ef till. hv. minni hl. iðnn. verður samþ., þá er mjög mikið dregið úr þýðingu þessa frv., og það er í rauninni gert þýðingarlaust, ef allir þeir menn, sem að vísu eru margir góðir starfsmenn, en vantar háskólamenntunn, fá rétt til að kalla sig þessum nöfnum, ef þeir hafa starfað í 6 ár. Þá er einkaréttur þessara háskólagengnu manna þýðingarlaus orðinn. Ég vil svo að lokum geta þess, að þó að þessir hv. flm. brtt. hafi gert mikið úr þeim órétti, sem verið væri að baka mönnum með þessu frv., þá er farið fram á meira misrétti í brtt. þeirra heldur en í frv., vegna þess að samkv. frv. er gerður skýr greinarmunur á þeim sérfræðingum, sem notið hafa háskólamenntunar, og hinum. En samkv. brtt. á líka að veita mönnum rétt til að nefna sig þessum nöfnum, sem ekki hafa háskólamenntun, ef þeir hafa starfað við þetta 6 undanfarin ár, en ef þeir hafa startað 4–5 ár í sömu greinum, eiga þeir ekki að fá þennan rétt.