19.03.1937
Neðri deild: 22. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

41. mál, verkfræðingar, húsameistarar eða iðnfræðingar

Guðbrandur Ísberg:

Út af aths. hv. þm. V.-Sk. um orðalag brtt. okkar minnihlutamanna, þá vil ég fyrst taka fram, að á einum stað mun vera annaðhvort prentvilla eða ritvilla. Í annan stað, þar sem hann var að fetta fingur út í orðalag gr. „að undangengnu námi“, þá miðast það við það, að menn geti ekki gengið beint af götunni inn í fögin. Hitt var það, hve mikið skuli leggja undir úrskurð ráðherra. Fleira var það ekki, sem mér skildist, að væri athugavert við orðalag gr. Ég vil benda á það, út af margendurteknu tali um að veita réttindi, að það er ekki rétt. Hér er ekki talað um að veita ný réttindi. Þeir menn, sem hingað til hafa kallað sig verkfræðinga o. s. frv., hafa haft þann rétt, en nú er lagt til, að nokkrir fái að halda honum, en aðrir verði sviptir honum. Ágreiningurinn er um, hve langt eigi að ganga í því að svipta menn réttinum. Allir virðast sammála um að svipta þá réttinum, sem hafa starfað í faginu skemur en 6 ár. Lagt skal undir dóm ráðh. að meta kunnáttu þeirra og dugnað. Er það lagt undir dóm ráðh. sem óvilhalls manns eða a. m. k. óvilhallari en þeir eru, sem segja má, að séu fyrirfram ákveðnir í því að svipta aðra tilteknum réttindum.

Ég hjó eftir því hjá hv. 11. landsk., að hann hélt því fram, að ef till. minni hl. væri samþykkt, þá væri þetta frv. þýðingarlaust. Til hvers er þá allt þetta brölt, þegar 9/10 af till. fagfélaganna eru teknar til greina, ef sá litli hluti, sem undan er tekinn, gerir allt hitt þýðingarlaust? Ég vil ekki lengja þessar umr. með því að tala lengur, enda ekki ástæða til, því málið er tiltölulega einfalt og því auðveldara að átta sig á því sem minna er um það vafið.