19.03.1937
Neðri deild: 22. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

41. mál, verkfræðingar, húsameistarar eða iðnfræðingar

*Gunnar Thoroddsen:

Hv. 6. þm. Reykv. byrjaði ræðu sína á því að segja, að ég hefði auðsjáanlega ekki sett mig inn í málið. Raunar láðist honum að færa sönnur á það. Einnig hafði hann eftir mér, að þarna væri ekki verið að taka neinn rétt af mönnum, en þar er nokkuð málum blandað. Það verður að gera skýran greinarmun á rétti til að stunda einhverja atvinnu eða réttinum til að kalla sig vissu nafni, og þeir menn, sem fengið hafa rétt til að nefna sig slíku heiti, eiga að fá að halda honum. Á ég þar fyrst og fremst við sérfræðinga, sem fengið hafa lagavernd til að kalla sig vissum heitum, og þá um leið einkarétt til að stunda vissa atvinnu. Ég segi ekki, að till. minni hl. geri frv. þýðingarlaust, heldur að þær geri það þýðingarlaust í bili, þannig að hinar sjálfsögðu réttarbætur til handa þessum mönnum komi ekki til framkvæmda á næstu árum.

Hv. þm. Hafnf. lýsti réttilega, að ágreiningurinn er um, hvort þeir, sem eiga að dæma um rétt þessara manna, eiga að vera fagmenn eða ráðh. með aðstoð sérfræðinga. Ég álít, að fyrst svo oft muni þurfa að leita til sérfræðinga, sé eðlilegra að láta málin ganga beint til þeirra.