08.04.1937
Efri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

116. mál, jarðræktarlög

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég get ekki fallizt á þessar aths. hv. 4. landsk., og er það af ýmsum ástæðum. Hann talaði um það, að með 5. gr. frv. sleppi þingið nokkuð miklu af sínu valdi, og með þessu móti geti Búnaðarfél. skipað sínum kosningalögum á þann hatt, sem því þóknist. Ég get ekki verið á sömu skoðun og hv. þm. um þetta atriði af þeim ástæðum, að með þeim breyt., sem gerðar hafa verið á lögum Búnaðarfél., er bændum fenginn beinn kosningarréttur í staðinn fyrir óbeinan áður, þar sem hlutföllin í tölu kjósenda og hlutföllin á búnaðarþingi þurftu ekki að vera í neinu samræmi hvað við annað. En þegar kosningarrétturinn er rýmkaður á þann hátt, sem gert hefir verið í Búnaðarfél., þá er ég sannfærður um, að það er betur tryggt, að sá kosningarréttur verði ekki tekinn til baka aftur heldur en hægt er að gera með nokkrum l. frá Alþ. Það mun að mínu áliti þykja eins fjarstætt hér eftir að fara að breyta þessum kosningarrétti í óbeinan kosningarrétt eins og það þætti að breyta kosningarréttinum til Alþ. í óbeinan kosningarrétt. Þess vegna er ekki ástæða til að ætla, að þetta verði gert. En svo er auk þess önnur sterk ástæða fyrir því, að þessu verður ekki að líkindum breytt í annað horf en nú er, og það er sú, að það þarf mjög sterkan meiri hl. til þess, að lögum Búnaðarfél. Ísl. verði breytt, svo það má telja útilokað. Í þriðja lagi er það, ef farið væri að breyta lögum Búnaðarfél. Ísl., þá hefir Alþ. þó ekki afsalað sér neinum rétti, því það getur alltaf breytt jarðræktarlögunum.

Viðvíkjandi kosningarrétti þeirra manna, sem í kaupstöðum og kauptúnum búa og lifa af ræktun og búskap sem aukaatvinnu, þá skil ég vel, að hv. 4. landsk. beri hag þessara manna fyrir brjósti. Það er rétt hjá hv. þm., að þetta á að vera reglugerðaratriði, en á þann hátt er þó þessum mönnum betur tryggður þeirra atkvæðisréttur heldur en áður var, að mínu áliti. Ég álít, að sá sé aðalgalli á ákvæðum jarðræktarlaganna um beinar kosningar til búnaðarþings, að atkvæðisréttur þessara manna hafi verið helzt til þröngur, og ég get upplýst það, að á búnaðarþingi er mjög góður vilji fyrir því að rýmka þennan rétt. Hitt er erfitt, að koma þessu fyrir á heppilegan hátt. Hér er um margskonar tilfelli að ræða. Sumir þessara manna, sem kannske hafa ekki nema 3 ha. af landi, rækta það svo vel, að þeir hafa af þeirri atvinnu fullkomið framfæri, samtímis og aðrir, sem kannske hafa helmingi stærra land til umráða, hafa minni afnot síns lands. Það er ekki eðlilegt, að þessir menn hafi jafnmikinn atkvæðisrétt í Búnaðarfél. Ísl. og ekki samskonar rétt og bændur landsins. Þess vegna er eðlilegt, að nánari ákvæði um kosningarrétt þessara manna séu sett með reglugerð. Það reyndist erfitt á síðasta þingi að koma þessu fyrir í stuttu lagaákvæði, og það má segja að hafi mistekizt, en ég held, að ekkert sé að óttast fyrir hv. 4. landsk., þó þessu verði breytt til bóta.

Það hefir verið ágreiningur um það, hver ætti að ráða vali búnaðarmálastjóra. Því hefir verið haldið fram, að landbrh. ætti að skipa hann, en út í það mál ætla ég ekki að fara nú; um það hefir náttúrlega hver sína skoðun, en ég vil segja það, að eftir að búið er að breyta kosningarrétti í Búnaðarfél. Ísl., þannig að bændur landsins ráða fullkomlega vali búnaðarþingsfulltrúanna, sé ég enga ástæðu til að láta standa á þessu atriði um val búnaðarmálastjóra.

Hv. 4. landsk. sagði, að eðlilegast væri, að landbrh. veldi búnaðarmálastjóra, þar sem Búnaðarfél. Ísl. færi með svo mikið fé úr ríkissjóði; en ég vil geta þess, að þetta fé er veitt Búnaðarfél. frá ári til árs, svo valdið er alltaf hjá þinginu. Fyrst og fremst veitir þingið Búnaðarfél. féð, og svo hefir Alþingi eða umboðsmaður þess, landbrh., vald til þess að neita að samþ. fjárhagsáætlun félagsins, því sú áætlun er ógild nema samþ. ráðh. komi til. Þannig eru peningaráð Búnaðarfél. Íslands háð samþykki landbrh. á hverjum tíma, og aðalstarf Búnaðarfél. viðvíkjandi peningamálunum er að úthluta því fé, sem félaginu er veitt eftir lögum og reglum, sem þar um hafa verið sett. Ég held því, að samkomulagið sé eðlilegt, og ég er næstum fullviss um, að hefði Alþ. átt fulltrúa á búnaðarþingi, þá hefði hann verið með í þessu samkomulagi. Ég er sannfærður um, að hinn beini kosningarréttur í Búnaðarfél. Ísl. hefir stórkostlega eflt þá stofnun, og að bændur fá með þeim umbótum þá eðlilegu og nauðsynlegu stéttarsamkomu, sem þeir eiga að fá.

Ég er ekki í neinum vafa um það, að hv. 4. landsk. er mér sammála um, að þessi breyt. á Búnaðarfél. Ísl. er til stórra bóta, og að hún er langstærsta afmælisgjöfin, sem félagið fær á 100 ára afmæli sínu á komandi sumri, því það er sannfæring mín, að fyrir þessa breyt. verði Búnaðarfél. Ísl. nýtt félag.