08.04.1937
Efri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

116. mál, jarðræktarlög

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta atriði, kosningarréttinn. Ég vil þó benda þeim á, sem álíta rétt þessara manna illa tryggðan, að samkv. jarðræktarlögunum er kosningarréttur þeirra fremur lítill. Eftir þeim l. hafa 20 menn, sem hafa jarðarafnot af 2 ha. landi, hver til samans 1 atkv. Nú hefir ekki verið á það bent, á hvern hátt kosningarrétti þessara manna verði bezt fyrir komið, en um það þarf að setja ýtarlegar reglur. Þetta er ákaflega erfitt. T. d. á Akureyri hafa margir menn allmikla ræktun og verður að telja það þröngt, að 20 menn þar hafi ekki nema eitt atkvæði. Aftur á móti næði ekki neinni átt, að þessir menn, sem kannske skipta hundruðum í sumum kaupstöðum, hafi sama atkvæðisrétt og bændur í sveitunum, því með því móti gæti vel svo farið, að kaupstaðabúarnir fengju meiri hl. í heilu sýslufélagi.

Í Hornafirði er t. d. allt önnur aðstaða en víða annarsstaðar. Þar hafa einstakir menn tekið sér land til kartöfluræktunar og hafa kannske af þeirri atvinnu fullkomið lífsframfæri, þó landið sé lítið, sem þeir hafa hver um sig.

Ég átti mikið tal um þetta sérstaklega við einn búnaðarþingsfulltrúann, Kristin Guðlaugsson, sem hafði mikinn áhuga á að leysa þetta mál, og okkur kom saman um, að réttara mundi vera að miða atkvæðisréttinn að mestu eða öllu leyti við verðmæti þeirra afurða, er mennirnir framleiddu, heldur en við landstærð, eins og gert er í jarðræktarl. Ég held nú, að sú regla sé betri, þó ég væri með því á síðasta þingi að miða við landstærðina.

Ég held, að hv. 4. landsk. geti ekki neitað því, að kosningarréttur þessara manna getur ekki orðið þrengri heldur en hann er eftir jarðræktarlögunum frá síðasta þingi. (JBald: Jú, hann er enginn hér). Jú, þessum mönnum er heitið kosningarrétti, sem ákveðinn verði af búnaðarþingi með reglugerð. Það hefir verið á það bent, að slík ákvörðun kosningarréttar jafnist ekki á við ákvæði landslaga, en á það má þá benda, að hér er ekki verið að ræða um almenn borgaraleg réttindi, eins og t. d. um kosningarrétt til Alþingis, heldur um ákveðin félagsréttindi, og það er venjulegt, að félög ákveði sjálf réttindi sinna manna, eins og t. d. í Dagsbrún, þar sem félagið ákveður sjálft félagsleg réttindi sinna manna. Hér er því ekki um neina nýja aðferð að ræða, heldur er farið eftir hinni gömlu venju.

Að því er snertir fjölgun fulltrúanna, þá skal ég ekki deila um það atriði, en ég segi það sem mína skoðun, að ef þetta þjóðfélag hefir ekki efni á því að láta 27 bændur koma saman annaðhvert ár í tvo til þrjá vetur til þess að ræða áhugamál þeirrar stéttar, sem er fjölmennust af stéttum landsins, þá veit ég ekki, á hverju það hefir efni, því að annarsstaðar er það þannig, t. d. í nágrannalöndunum, að þar eru mörg slík félög, þar sem varið er stórfé til þess að bændur geti komið saman og rætt áhugamál sín. Það líður að því, að haldið verði búnaðarþing á hverju ári, og ég sé ekkert í þann kostnað, þó að fulltrúarnir yrðu 25 eða 27, og ég er viss um, að þessi hv. þm., sem hreyfði þessu atriði, verður á sömu skoðun við nánari athugun.