08.04.1937
Efri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

116. mál, jarðræktarlög

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Mér skilst á hæstv. forsrh. og líka á hv. 1. þm. Skagf., að þeir telji báðir, að það sé allskostar eðlilegt, að Búnaðarfél. setji sjálft í sín lög ákvæði um kosningarrétt manna og annað, sem að slíkum rétti lýtur, að slíkt væri yfirleitt réttur hvers félags, skildist mér hæstv. forsrh. halda fram, og hann tók til dæmis, að Dagsbrún setti sjálf reglur um kosningarrétt sinna manna, og svo væri um svo að segja öll félög. Fyrst er þess að geta í þessu sambandi, að mér er ekki kunnugt um neinn félagsskap, sem gerir mun á félögum sínum að því er snertir rétt til kosninga, en í þessu uppkasti að l. um kosningarrétt fyrir Búnaðarfél. Ísl. er það mjög greinilega gert, eins og sést á flokkun þeirri, sem liggur fyrir í 8. gr., en auk þess er hér alls ekki um venjulegt félag að ræða, því að Búnaðarfél. Ísl. er miklu fremur opinber stofnun en venjulegur félagsskapur áhugamanna, og ég hygg, að næstum 99% af því starfsfé, sem félagið hefir handa á milli, sé beinlínis lagt fram af opinberu fé, auk þess sem ríkisstj. felur Búnaðarfél. framkvæmd afarmikilsverðra mála, þannig að um hendur þess fara mörg hundruð þúsund krónur umfram það fé, sem sjálfu félaginu er lagt til sem starfsfé. Ákvæðin, sem nú eru í jarðræktarlögunum um það, að vissar reglur skuli gilda um kosningarrétt í Búnaðarfél., eru bein afleiðing af þessu fyrirkomulagi; það er skilyrði Alþingis fyrir því, að félaginu sé lagt fé, en alls ekki starf þess og meðferð þeirra opinberu mála, sem það nú fer með. Störf Búnaðarfél. eru að langmestu leyti bein framkvæmdarstörf fyrir það opinbera, og þess vegna er eðlilegt, að það opinbera vilji hlutast til um, hvernig félagið skipar málum sínum, m. a. að því er snertir kosningarréttinn, þannig að ekki sé gerður munur á mönnum. Ég er sammála hv. 4. landsk. og hv. 1. þm. Reykv. um það, að eins og uppkastið að lögun Búnaðarfél. er nú, er gert ráð fyrir, að sérstakar reglur gildi um þá menn, sem taldir eru í D-lið 8. gr., og að það sé a. m. k. nú full óvissa um, hver réttur þeirra verður. (MG: Það stendur, að þeir hafi kosningarrétt). Það má vera með þessari reglugerð, ef meiri hluti þess þings, sem hefir samið hana — sé það rétt hjá hv. 1. þm. Skagf., að búnaðarþing eigi að leggja smiðshöggið á það —, er þeirrar skoðunar að telja það heppilegt, en ég sé ekki, að þeir geti haft atkvæðisrétt í sumar til þess búnaðarþings, sem næst verður kvatt saman; a. m. k. er ekki hægt að samþ. reglugerðina áður en búnaðarþingið kemur saman. Ég vil vænta, að þetta liggi í augum uppi, þó að það sé meiningin, að í framtíðinni eigi Búnaðarfél. að samþ. þessa reglugerð, sem skapar þessum mönnum réttinn. Hinsvegar er ég sammála hæstv. forsrh. um það, að eðlilegt sé að miða kosningarrétt þessara manna í þeim reglum, sem settar verða, við það, hve mikinn hluta af lífsframfæri sínu þeir fá af framleiðslu landbúnaðarafurða, frekar en við landstærð, sem þeir nota. Þetta benti ég á í umr. um jarðræktarlögin á síðasta þingi, en þá var farin sú leið, sem gert var ráð fyrir í lögunum, en þó var gefið í skyn, að tillit yrði tekið til þessa í reglugerð, en þar sem svo er ástatt um Búnaðarfél., að það er beinlínis í raun og veru opinber stofnun, sem fer með opinber mál fyrir ríkisstj., þá er það eðlilegt og sjálfsagt, að Alþingi setji ákvæði um það, eftir hvaða starfsreglum það skuli fara, m. a. um rétt manna í félaginu, en eigi það ekki undir breytilegum meiri hluta á búnaðarþingi, hvernig reglurnar kunni að verða á hverjum tíma. Ef hæstv. forsrh. sýndist t. d. rétt að rýmka um ákvæði jarðræktarlaganna viðvíkjandi kosningarrétti þeirra manna, sem hafa smábýlabúskap í grennd við kaupstaði, þá væri auðvelt að gera það með einfaldri breyt. á þeirri gr. jarðræktarl., sem um það fjallar.