12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í B-deild Alþingistíðinda. (709)

116. mál, jarðræktarlög

*Héðinn Valdimarsson:

Ég vil ekki láta þetta frv. fara svo út úr hv. d., að ég láti ekki í ljós óánægju mína yfir því. Hæstv. forsrh. hefir samið við Bændafl. og Sjálfstfl. um lausn þessa máls, eins og þetta frv. ræðir um, og frá sjónarmiði okkar Alþfl.manna er þessum málum miklu verr skipað heldur en áður var.

Ég vil aðeins benda á örfá atriði í þessu máli. Í fyrsta lagi er það, að samþykki ráðh., sem heimtað var til þess að búnaðarmálastjóri yrði skipaður, er fellt niður, en í þess stað er stjórn Búnaðarfél. látin ákveða það. Það er því hægt á móti vilja ríkisstj. að setja mann til þess að hafa á hendi „administration“ á því mikla fé, sem veitt er úr ríkissjóði í þessa stofnun. Ég skil ekki í því, að Framsfl. skyldi ganga inn á að láta þetta vald ganga úr greipum stj.

Í öðru lagi er ákvæðum jarðræktarlaganna um það, hvernig skyldi háttað kosningarréttinum til búnaðarþings, sleppt, og sá beini kosningarréttur, sem settur var sem skilyrði í jarðræktarlögunum og barizt var um á öllu landinu, er nú eingöngu kominn undir geðþótta búnaðarþings á hverjum tíma, og það er hægt að fella það niður og breyta því í hverskonar annan kosningarétt, ef einhverju búnaðarþingi býður svo við að horfa. Ég veit ekki, til hvers þessi barátta hefir verið, ef það á að falla frá þessu þannig.

Loks vil ég taka það fram sem þriðja atriðið í þessu sambandi, að það eru ekki ákvæði í hinum nýju samþykktum Búnaðarfél. um atkvæðisrétt þeirra manna, sem búa í kaupstöðum og kauptúnum og hafa landbúnað sem aukastarf, heldur á þar eingöngu að fara eftir reglugerð. Með þessu móti er verr um atkvæðisrétt þessara manna búið en annara manna, sem hafa atkvæðisrétt um þessi mál, því að það á aðeins að fara eftir reglugerð, þar sem aftur á móti er farið eftir lögum Búnaðarfél. að því er atkvæðisrétt hinna snertir.

Ég mun greiða atkv. á móti þessu frv., og ég vil láta í ljós undrun mína á því samkomulagi, sem hér hefir orðið.