12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

116. mál, jarðræktarlög

Páll Zophóníasson:

Ég vil láta í ljós gleði mína yfir því samkomulagi, sem varð á búnaðarþinginu. Hv. 2. þm. Reykv. álítur, að þær breyt., sem gerðar hafa verið í þessu efni, séu til hins verra; ég hygg, að það sé sumpart af misskilningi og sumpart af því, að hv. þm. hefir ekki kynnt sér málið nógu vel, að hann segir þetta. Fyrst minntist hv. þm. á það, að úr l. hefði verið felld sú gr., sem gerði ráð fyrir, að landbrh. samþ. val búnaðarmálastjóra. Þetta er rétt, en l. mæla svo fyrir, að landbrh. hafi æðstu stjórn allra búnaðarmála á hendi. Og hvað þýðir það, að hafa æðstu stjórn allra búnaðarmála? Ætli það komi ekki þar inn undir að hafa áhrif á, hvaða menn fari með völd í þessum málum? (HV: Hvers vegna á þá að fella þetta ákvæði burt?). Af því að það var óþarft.

Í öðru lagi veit hv. 2. þm. Reykv., að Alþingi getur, ef það kærir sig um, verið aðhald í þessu efni gegnum fjárveitingu sína til Búnaðarfél., því að þá áætlun, sem Búnaðarfél. gerir, verður fjvn.samþ. áður en búnaðarþing fær það fé frá þinginu, sem því er ætlað á hverjum tíma.

Þá telur hv. þm., að það sé mjög illa farið, að úr jarðræktarlögunum hafi verið fellt ákvæðið um beinar kosningar, en í staðinn fært inn í lög Búnaðarfél. Ísl. Ég hygg, að það sé nokkuð sama, og ég held, að þegar það er komið inn í lög Búnaðarfél. Ísl., að hver einasti bóndi á landinu getur með beinum kosningum haft áhrif á val búnaðarþingsfulltrúanna og þar með fengið tryggingu fyrir því, að búnaðarþingið á hverjum tíma sé skipað eftir vilja bænda, þá sé alveg loku skotið fyrir það, að þeir sömu bændur, sem kjósa þessa fulltrúa, fari að gefa þeim umboð til þess að breyta þessu aftur í misjafnan kosningarrétt, eins og áður var, því að hann var svo misjafn, að kjósendur á aðalfundi búnaðarsambandanna fengu einn fulltrúa fyrir hvern hrepp, hvort sem liðlega 100 menn stóðu á bak við fulltrúann, eins og átti sér stað í fjölmennasta hreppnum, eða 6, eins og var í þeim hreppum, þar sem fæst var. Þegar búið er að fá búnaðarþingið til þess að viðurkenna, að bændur eigi allir að hafa jafnan rétt til þess að kjósa, þá er ekki hætta á því, að bændur sleppi þeim rétti og taki aftur upp hitt fyrirkomulagið.

Loks vildi hv. þm. halda því fram, að með þessum breyt. væri verr búið um rétt þeirra manna, sem hafa lítið land í nánd við kauptún og kaupstaði, en það var ætlazt til þess í jarðræktarlögunum, að þeir hefðu atkvæðismagn eftir landstærð, þannig að fyrir 20 ha. land fengju menn 1/5 úr atkv. Um þetta er ekkert sagt nú; það á að fara eftir reglugerð um það, en það þori ég að fullyrða, að þeir, sem stóðu að þessum breyt. búnaðarþingsins, munu ekki hafa þrengt meir að rétti þessara manna en gert var með sjálfum jarðræktanlögunum, svo að það er undir engum kringumstæðum breytt um til hins verra að því er þetta atriði snertir, svo að hv. þm. hefir enga. ástæðu til að kvarta undan þessu. Þess vegna held ég, að þessar breyt., sem hafa verið gerðar, hafi yfirleitt verið til hins betra. Það er viðurkennt af búnaðarþinginu, að það beri að kjósa beinum kosningum, og það var aðalatriði málsins. Að vísu hefir verið felld niður gr. um, búnaðarmálastjóra, sem fór inn í l. án þess að þurfa, að vera þar. Það gerir í sjálfu sér ekkert til, hvort hún stendur þar eða ekki, og er því engu sleppt, þótt hún falli niður.