12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

116. mál, jarðræktarlög

*Pétur Ottesen:

Aðeins örfá orð. Ég vildi, af því að ég kom nokkuð við þetta mál við umr. á síðasta þingi, láta í ljós ánægju mína yfir því samkomulagi, sem fengizt hefir um breyt. á þessum I. kafla jarðræktarl., að því er Búnaðarfél. Ísl. snertir. Mér virðist þar hafa orðið gott samkomulag um að tryggja sjálfræði og sjálfsákvörðunarrétt þessa aðalfélagsskapar bænda í landinu, Búnaðarfél. Ísl. Og það er vitanlega það, sem deilt var um á síðasta Alþ. að því er snertir þennan I. kafla jarðræktarl. Ég hygg því, að þetta mál hafi fengið mjög heppilega lausn. Og það er sýnt af því, sem fram hefir komið við þessa umr., hvernig hugir sósíalista eru stemmdir í þessu efni, sem sé þannig, að þeir álitu, að með þeirri breyt., sem gerð var á jarðræktarl. í þessu atriði á síðasta þingi, væri hægt að halda niðri sjálfræði og sjálfsákvörðunarrétti bænda í sínum eigin félagsskap. Til þess er nú ekki stofnað með þessari lagabreyt., heldur til hins, að tryggja þessari stofnun sjálfsákvörðunarrétt í sínum eigin málum — og af því er nú öll þessi reiði sósíalista, sem birzt hefir nú með allmiklum þyt hér í hv. d., sprottin.

Ég álít, að þetta mál hafi verið fært mjög til betri vegar og því beri að fagna af þeim mönnum, sem unna íslenzkri bændastétt sjálfræðis í hennar eigin málum.