09.04.1937
Efri deild: 35. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (739)

87. mál, skráning skipa

*Pétur Magnússon:

Mér finnst ekki rétt að segja, að skip Eimskipafél. heiti sameiginlegu nafni. Nöfnin mega ekki vera eins, svo það valdi ekki misskilningi. Nöfnin Gullfoss og Laxfoss valda ekki misskilningi, og því er engin hætta á ruglingi á þeim skipum. Ég er því alveg sammála um það, að Eimskipafélag Íslands ætti að hafa nöfn á sínum skipum, sem minna á foss. Bezta lausnin á þessum málum verður sú, að skipaeigendur, hvort sem það eru félög eða einstaklingar, gætu áskilið sér rétt til ýmsra heita, með því að tilkynna það skráningarstjóra, og skráningarstjórnin gæfi svo úrskurð um það, hvort það teljist skynsamlegt, og hún gæfi svo leyfi til þessarar skráningar, ef hún áliti það ekki koma í bága við skráningu annara skipa. Eitt félag getur því ekki áskilið sér rétt til allra fossanafna á landinu, en þar á ég við Eimskipafélag Íslands. En það gæti komið til mála með nöfn eins og Eimskipafél. Rvíkur hefir sín fjallanöfn, Hekla og Katla, og það félag ætlar að taka upp slík nöfn, ef það fjölgar skipum. Ég vildi beina því til þeirrar hv. n., sem tekur þetta mál til meðferðar, að athuga, hvort hún sæi ekki leið til að nota þessa aðferð, að eigendur skipa geti áskilið sér rétt til ýmsra heita, þó með samþykki skráningarstjórnar.

Ég álít, ef þetta frv. verður samþ. eins og það liggur fyrir, þá verði það í efa dregið, að skráningin á Laxfossi sé með öllu lögmæt. Því legg ég til, að n. athugi, hvort ekki sé unnt að nota þessa aðferð.