12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (760)

108. mál, bæjanöfn o. fl.

Páll Zóphóníasson:

Ég þarf ekki að tala langt mál fyrir þessari brtt. Það, sem hún fer fram á, er, að sú breyt. verði gerð, að í stað þess, að það þurfi að borga 25 kr. fyrir nöfn á öllum býlum, þá skuli það eingöngu gilda, þegar um er að ræða nafnbreytingar á eldri býlum, en þegar um nýbýli er að ræða, þá þurfi ekki að greiða nema 10 kr. Það er vitað, að á næstu árum verða væntanlega stofnuð mörg nýbýli á landinu, og þó að suma menn muni ekki mikið um þessa peninga, þá munar þá menn, sem hér eiga hlut að máli, talsvert um þá, því að þeir hafa flestir úr litlu að spila. Ég vil því vænta, að hv. þdm. lofi þessu að ganga fram.