30.03.1937
Efri deild: 28. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

65. mál, héraðsskólar

*Frsm. (Jónas Jónsson):

N. tók eins og við var að búast vel við frv. þessu, sem flutt er af hæstv. kennslumrh. En hún hefir flutt við það nokkrar brtt., sem fara í þá átt að styrkja það, að tilgangurinn með frv. náist. Við höfum ennfremur bætt inn í frv. einu orði, sem er fyrir Skagafjarðarsýslu.

Í þeim brtt., sem við berum fram, erum við að nokkru leyti ekki samdóma hæstv. ráðh., því hann gerir ráð fyrir, að Reykjanesskólinn fái þessa undanþágu, og hún sé sérstaklega miðuð við hann. Hann fær að vissu leyti réttindi héraðsskólanna án þess að hann sé gerður að héraðsskóla. En við leggjum til í n., að hann verði gerður að héraðsskóla, en fái hliðstæða undanþágu eins og gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum fékk 1930, þar sem tekið er tillit til þess, að Vestmannaeyingar hafa sína vertíð, þegar allir unglingar verða að vinna. Þess vegna hafa Vestmannaeyjar leyfi til þess að hafa styttra skólaár en aðrir, en námið stendur þá yfir í fleiri vetur. Þetta hefir gefizt vel í Vestmannaeyjum, og okkur fannst, að hægt væri að nota þetta fordæmi á Reykjanesinu; þó er ekki gert ráð fyrir, að þetta standi til lengdar, heldur á þessi undanþága að gilda fyrstu 5 árin. Það eina, sem stendur á fyrir þeim á Reykjanesinu, eru peningar til þess að auka við húsrúmið, því að aðsóknin er svo mikil, að þar eru núna 50 unglingar. Að þeir geta tekið á móti svo mörgum í 3 mán., eiga þeir að þakka Ísfirðingum, sem hafa byggt þar hús fyrir sitt skólafólk, sem stundar þar sund. Það, sem við í menntmn. leggjum til, er að Reykjanesskólinn sé strax tekinn í tölu héraðsskóla, en fái að hafa styttri skólatíma næstu 5 árin. Það ákvæði á svo að falla niður, þegar þeir eru búnir að koma sér upp húsrúmi, svo þeir geti staðið jafnfætis öðrum.

Það er mála sannast, enda var það tekið fram af hæstv. kennslumrh. við 1. umr. málsins, að þarna hefir vaxið upp blómlegur barnaskóli, sem var stofnaður fyrir 2 hreppa. Má búast við, að fleiri hreppar vilji bætast við, því börnunum þykir gott að vera þarna, og er mikið álit á kennurunum. Og foreldrunum þykir ekki nóg að fá að hafa börnin þarna 3 mán. á vetri, heldur vilja þeir fá aðstöðu til þess að mennta þau betur. Það er auðséð, að allir flokkar í sýslunni og á Ísafirði láta sér annt um, að þetta verði einn af þeim myndarlegustu héraðsskólum landsins. Og ég vona, að hæstv. atvmrh. geti fallizt á, að því sé betur farið, að við höfum farið djarfara í þetta en hann.

Þá höfum við lagt til að bæta Varmahlíð í Skagafirði inn í héraðsskólal. Verð ég að segja um það nokkur orð, því það mál er skemmra á veg komið en hjá þeim Ísfirðingunum. Varmahlíð heitir öðru nafni Reykhólar. Henni er einkar vel í sveit komið. Er hún rétt við héraðsveginn, sem liggur fram Skagafjörð og svo að segja á gatnamótum Akureyrar- og Sauðárkróksveganna. Þar er mikið heitt vatn, og landið keypti fyrir nokkrum árum 7 eða 8 ha. landsspildu þarna í kring. Þetta hefir svo legið ónotað síðan. En í fyrrasumar var stofnað félag í Skagafirði til þess að vinna upp Reykhólana, sem eiga að verða menningarstöð fyrir Skagfirðinga. Þetta félag bað ríkisstj. að fá mann til þess að skoða staðinn, af því að unga fólkið ætlaði að byggja sér þarna sundlaug. Og þetta félag vildi einmitt fá gerðan uppdrátt að væntanl. unglingaskóla, barnaskóla, garðrækt o. fl., til þess að geta tryggt það, að sundlaugin yrði ekki fyrir seinna meir. Það, sem Skagfirðingar hafa ákveðið, er að fá þarna sundlaug, síðan unglingaskóla, sem notaður verður sem gistihús á sumrin. Þetta mun taka mörg ár, en þeir óska eftir því, að verði héraðsskólal. breytt, þá verði þessi staður tekinn inn í þau. Svo verða framkvæmdirnar vitanl. að bíða, þar til þeir hafa peninga og þar til ríkið hefir peninga til þess að hefjast þar handa.

Því er eins háttað með þetta mál og hjá Ísfirðingum, að um það er ekki nein pólitísk deila. Í þessu fél. í Skagafirði eru menn úr öllum flokkum, og í þeirri deild, sem stofnuð var hér í Rvík til undirbúnings, eiga þeir sæti hv. 1. þm. Skagf. og búnaðarmálastj. Ég get um þetta til þess að sýna, að það er unnið að þessu máli á þann hátt, að það getur ekki verið flokksmál. Það má e. t. v. segja, að það sé of snemmt að taka þennan stað inn í héraðsskólal. En skilyrðin eru þarna svo góð, og get ég vísað til þess, sem ég sagði um Reykjanesið, um það, hvað staðurinn er heppilegur, og má þó segja, að Varmahlíð liggi enn betur en Reykjanes í Ísafjarðarsýslu. Vona ég, að d. geti séð sér fært að styðja þessa uppastungu nefndarinnar.