15.04.1937
Neðri deild: 39. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

65. mál, héraðsskólar

*Ásgeir Ásgeirsson:

Hv. frsm. menntmn. lýsti yfir því, að n. ætlaðist ekki til, að Núpsskólinn missti nokkurs í um lofuð stofnfjárframlög frá héraðinu við þessa breyt. á héraðsskólalögunum. Eftirstöðvar af lofuðu stofnfjárframlagi til skólans munu nú vera sem næst 5700 kr., sem n. beinir til kennslumrh. að sjá um, að verði greitt. Eftir því, sem 3. gr. frv. er orðuð, þá hefði ég ekki getað fylgt henni, nema það vekti fyrir með henni að gera héraðinu hægara um vik, eins og tekið hefir verið fram. Um þetta ætlaði ég að koma fram með brtt., en hvarf frá því, af því að meðnm. mínir töldu nægilegt, er það kom fram í nál. og umr., að til greiðslu þessarar væri ætlazt í þessu skyni.

Ég hefi ekki verið hvatamaður að breyt. þeirri, sem felst í 2. gr. frv., að 3 mán. námskeið við héraðsskólana skuli fullnægjandi fyrir styrknum til þeirra. Ég hefði talið réttara að gera skilgreiningu á unglingafræðslunni við héraðsskólana, greina á milli barnafræðslunnar og unglingafræðslunnar. Annars hefi ég hvatt ýms kauptún, eins og t. d. Vík, Keflavík, Sauðárkrók o. fl., að reyna að efla kennsluna við unglingaskóla sína svo, að þau geti orðið styrks aðnjótandi.

Ég minntist á það í n., að ég myndi jafnvel bera fram brtt. um það, að Núpsskóli nyti sama réttar og Reykjanesskóla er ætlað að njóta samkv. frv., ef hann hefði 3 mán. námskeið hjá sér, en ég hverf frá því, af því að það var einróma álit allrar n., að það væri svo sanngjarnt, að um það þyrfti enga frekari áréttingu en fordæmið, sem gefið væri í frv.

Hvað snertir skólann í Varmahlíð í Skagafirði, þá virðist mér fullsnemmt að taka hann upp í héraðsskólalögin, enda þótt um það verði ekki deilt, að skólastaðurinn sé vel valinn, því að það mun sýna sig, að hann kemur til með að verða hinum gamla fornfræga Hólaskóla hættulegur keppinautur. Að endingu vil ég svo leggja áherzlu á þau tilmæli menntmn., að þess sé vænzt, að Núpsskóli missi einskis í hvað stofafjárframlög eða annað snertir fyrir þessa breyt. á héraðsskólalögunum.