15.04.1937
Neðri deild: 39. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

65. mál, héraðsskólar

*Sigurður Einarsson:

Ég hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, og hv. þm. V.-Sk. hefir þegar gert grein fyrir því, í hverju sá fyrirvari liggur, svo ég hefi í raun og veru engu þar við að bæta. Mér var kunnugt um það áður en frv. þetta kom fram í þinginu, að rekstur Reykjanesskólans væri svo myndarlegur, að hann væri vel styrks verður eins og aðrir héraðsskólar.

Það er eins og hv. frsm. þessa máls komst svo neyðarlega að orði, að það er verið að taka inn í héraðsskólalögin — ekki skóla — heldur „staði“, til viðbótar þeim skólum, sem fyrir eru. Það er í fyrsta skiptið, sem staðir eru teknir inn í þessi lög. Það er að segja, að það er verið að koma fyrir í þeim hlutum, sem ekki eru skólar, og ég hefi ekki ennþá getað fengið neina skynsamlega ástæðu fyrir þessari ráðstöfun, aðra en þá, að á þessum umrædda stað sé mjög heppilegur skólastaður. Það getur vel verið, að svo sé, ég hefi einu sinni komið þarna, og mér leizt vel á staðinn, en það eru til margir aðrir ákaflega heppilegir skólastaðir á landinu, og verður langur halinn á héraðsskólalögunum, ef á að taka inn í þau alla æskilega skólastaði, því að það er sandur af slíkum stöðum á landinu, jafnvel svo tugum skiptir. En hitt mun sönnu nær, að þar er eigi alstaðar um að ræða þörf á skóla, og möguleikarnir ekki alstaðar til að koma upp svo góðum og svo vel útbúnum skólum, að geti orðið að verulegum notum og hafi nægilegan nemendafjölda og kennslukrafta til þess að starfa með.

Ég var að minnast á hina góðu „staði“. — Það virðast vissir menn á þessu þingi, sem hafa tekið ástfóstri við Varmahlíð. En ég ætla að koma með skrifl. brtt., sem fer fram á, að þessi staður verði felldur niður úr frv. Ef sú brtt. verður felld, mun ég við 3. umr. þessa máls — þegar þessi hv. d. er búin að samþ. þann vilja, að æskilegt sé og skynsamlegt, að skólastaðir eigi að koma inn á héraðsskólalögin — koma fram með brtt., þar sem tekinn er inn í héraðsskólalögin staður, sem að mínum dómi hefir öll skilyrði til jafns við Varmahlíð. Það eru Reykhólar í Barðastrandarsýslu. Ég fór þess á leit á síðasta Alþingi, að hið opinbera tryggði sér þessa stórfenglegu og yndislegu jörð með því að kaupa hana. Ef brtt. mín um að „staðurinn“ Varmahlíð verði felldur burt úr frv., verður felld, þá mun ég bera fram brtt. um, að „staðurinn“ Reykhólar verði tekinn inn á héraðsskólalögin, og þar með sé ákveðið, að þar skuli rísa upp héraðsskóli. Ég álít fullkomlega réttlátt, úr því að tekin er upp sú regla að taka „stað“ inn í héraðsskólalögin, að þeir verði fleiri. Ég er viss um, að mönnum við norðanverðan Breiðafjörð muni þykja fróðlegt að vita, hversvegna menn hugsa sér, að t. d. „staðurinn“ Varmahlíð í Skagafirði sé sjálfsagður héraðsskólastaður, en „staðurinn“ Reykhólar í Reykhólasveit eigi ekki að sæta sömu örlögum. — En það, sem ræður úrslitum, að ég get ekki gengið inn á þessa braut, er blátt áfram það, að mér þykir kenna mikils mismunar um það, hvernig er búið að þorpum og bæjum að því er snertir skóla, og hinsvegar hvernig er búið að sveitunum. Ég verð að segja, að á meðan Reykjaskóli í Hrútafirði er ekki vaxinn úr reifum — en það er fyrst í vetur, að hann hefir viðunanlega nemendafjölda — er ekki þörf á að bæta einum héraðsskóla til á Norðurlandi. Ég held, að skórinn kreppi meira að, að því er snertir gagnfræðaskóla í bæjunum. Hvernig er ástandið með ungmennaskólana í bæjunum? — Er kominn upp skóli í Hafnarfirði, myndarlega styrktur af ríkinu? Gagnfræðaskólinn í Reykjavík á ekkert þak yfir sig. Það þarf ekki orðum að því að eyða, hver nauðsyn það væri æskumönnum Reykjavíkurbæjar, að þessi skóli fengi hús yfir sig. Til gagnfræðaskólans á Ísafirði hefir verið lagt 12500 kr. til byggingar skólahúss, og í fjárlagafrv. nú er ekki gert ráð fyrir, að meira verði varið til þessa skóla. Gagnfræðaskólinn á Norðfirði hefir að vísu hús, en það þarf mikilla umbóta við. Á Akureyri vantar gagnfræðaskólann hús, a. m. k. er það mjög ófullnægjandi. Í Vestmannaeyjum vantar skólahús. Auk þess hefir hv. þm. V.-Ísf. bent á, að þegar eru til hér á landi skólar, sem eru einskonar millistig milli gagnfræða- og héraðsskólanna og barnaskólanna, sem eingöngu hefir verið haldið uppi fyrir ódrepandi dugnað og fórnfýsi þeirra, sem að þeim standa, en hafa algerlega verið vanræktir af ríkinu, eins og t. d. skólinn í Vík og skólinn á Húsavík. Og til eru aðrir staðir, þar sem slíkir skólar eru að vaxa upp, eins og t. d. skólinn í Keflavík og skólinn á Akranesi. Það verður ekki um það deilt, að í hinum stærri þorpum er mikil þörf á æskulýðsskólum, og það er stórkostlegt menningarspursmál, að æskulýðurinn í þorpunum eigi kost á að njóta skólavistar fram að vertíðinni, í stað þess að ganga iðjulaus.

Ég vil ekki á nokkurn hátt draga úr, að Skagfirðingar eignist sinn héraðsskóla, og ég vil ekki heldur bera brigður á, að Varmahlíð sé hentugur skólastaður, en ég vil bara segja það, að það verður að hafa einhverja yfirsýn yfir það, sem verið er að gera í þessu efni. Það kæmi mér ekki á óvart, ef skólinn á Reykjanesi verður gerður að héraðsskóla og „staðnum“ Varmahlíð bætt inn í héraðsskólalögin, þá komi fjöldi annara „staða“ á næstu árum, sem krafizt verður, að verði teknir inn á héraðsskólalögin. Afleiðingin verður svo sú, að ekki verður unnt að leggja þá rækt við þá milliskóla, sem þegar eru til, sem nauðsynleg er til þess að þeir geti aflað sér bæði viðunandi húsnæðis og kennslukrafta.

Það vita allir menn, sem eitthvað hafa sett sig inn í okkar skólamál, að það hefir ekki af Alþfl. verið nokkru sinni talið eftir, að tekið væri myndarlega á því að hrinda fram skólamálum sveitanna. Ég veit ekki til, að af hálfu Alþfl. hafi nokkurn tíma andað köldu í garð þeirrar starfsemi. Þvert á móti hefir hann léð lið sitt þeim málum eftir föngum.

Jafnvel þó einhverjir hafi tilhneigingu til að snúa orðum mínum á þá leið, að ég sé andvígur því, að Skagfirðingar fái á sínum tíma héraðsskóla, þá er það ekki rétt. Ég hefi eingöngu tekið þessa afstöðu vegna þess, að ef inn á þessa leið verður farið og brtt. mín felld, þá vil ég fá úr því skorið, hvort „staðurinn“ Reykhólar eigi ekki að njóta sömu réttinda og þessi umræddi staður.