15.04.1937
Neðri deild: 39. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

65. mál, héraðsskólar

*Sigfús Jónsson:

Ég ætla ekki að leggja út í nein „staðamál“ við hv. 9. landsk. En út af því, hvort einn staður er betri en annar til þess að byggja héraðsskóla á, vil ég upplýsa það, að í Skagafirði er þegar myndaður öflugur félagsskapur til þess að vinna að því, að í Varmahlíð verði byggður skóli, því að það er álit manna, að þar sé álitlegur staður fyrir héraðið til þeirra hluta, og ég efast um, að til sé heppilegri staður til þess að reisa héraðsskóla á. Mér finnst því ekki óeðlilegt, þó að þessi staður verði tekinn inn í héraðsskólalögin, þar sem þegar er myndaður félagsskapur um að koma þar upp skóla, og ég tel miklar líkur til, að sá félagsskapur verði orðinn svo öflugur innan fárra ára, að hægt verði að reisa þar skóla. Ég skal geta þess, að í Varmahlíð er barnaskóli í vetur, sem ég býst við, að verði haldið áfram með þangað til þar rís upp héraðsskóli. Mér finnst það því meðmæli, að þarna er barnaskóli fyrir, sem geti orðið upphaf að því, að héraðsskoli rísi þar upp, enda er mikill áhugi fyrir því í Skagafirði og þegar farið að safna fé til þess. Ég vænti því, að hv. d. verði því ekki andvíg, að „staðurinn“ Varmahlíð fái að standa í héraðsskólalögunum.