15.04.1937
Neðri deild: 39. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í B-deild Alþingistíðinda. (788)

65. mál, héraðsskólar

*Bjarni Bjarnason:

Ég held, að það sé ekki sérlega æskilegt að taka upp það fordæmi, sem frv. hæstv. atvmrh. gefur um það, að greiða einhverjum ákveðnum unglingaskóla styrk í hlutfalli við það, sem veitt er til héraðsskóla. Ég held, að það sé miklu hreinlegra að koma þá slíkum skólum, ef fyrir liggja óskir og viðurkenning um, að þeir séu þess virði, bæði að því er snertir legu og áhuga, sem þeim hefir verið sýndur, inn á héraðsskólalögin. Og breytingu þá, sem hv. Ed. gerði á þessu frv. að því er þetta snertir, tel ég því til bóta og í raun og veru sjálfsagða, svo framarlega sem á að sinna málinu.

Um hina breytinguna, sem gerð var á frv. í Ed., má að vísu deila, hvort rétt sé að lögfesta staði, er síðar eigi að vinna að að koma upp skólum á. Hv. 9. landsk. hefir nú talað á móti því, að Varmahlíð í Skagaf. verði lögfest þannig sem væntanlegur héraðsskólastaður, og ber hann það sérstaklega fyrir annarsvegar, að kaupstöðunum sé ekki samhliða sýndur sá áhugi í skólamálum, sem bæri að gera til þess að slíkt ætti rétt á sér í sveitunum, og hinsvegar, að til séu margir aðrir staðir, er vitanlega komi þá til greina sem heppilegir héraðsskólastaðir. Í þessu sambandi benti hv. 9. landsk. á, að hann yrði þá að tengja Reykhóla í Barðastrandarsýslu við Varmahlíð í Skagafirði. Nú vildi ég benda hv. 9. landsk. og öðrum hv. þm. á, að það er ákaflega auðvelt að finna sterk sjónarmið fyrir því að vera með Varmahlíð í Skagafirði sem héraðsskólasetri, en á móti Reykhólum. Skal ég strax benda á, að ef þetta frv., sem hér liggur fyrir, um Reykjanesskólann í Norður-Ísafjarðarsýslu, verður að lögum og fyrir er skóli í Vestur-Ísafjarðarsýslu, þá eru komnir tveir skólar á Vestfjarðakjálkann, þar sem eru 4 sýslur, og þriðji skólinn er rétt á mótunum, þ. e. a. s. í Hrútafirði. Ef við svo lítum á svæðið frá Reykjaskóla í Hrútafirði austur að Laugum í Þingeyjarsýslu, þá er þar enginn héraðsskóli. Þetta eitt út af fyrir sig réttlætir svo margfaldlega, að Varmahlíð í Skagafirði sé tekin fram yfir Reykhóla í Barðastrandarsýslu. Það hefir verið á það minnzt, að Skagfirðingar hefðu skóla, þar sem væru Hólar í Hjaltadal, en þá er um það að segja, að á undanförnum árum hefir þessi skóli verið starfræktur að nokkru leyti sem bændaskóli og að nokkru leyti sem unglingaskóli. Nú er farin að aukast aðsókn að bændaskólanum, og ef framþróun hans sem bændaskóla verður eins á næstu árum og hún hefir verið síðustu ár, þá verður ekki hægt að hafa þar nema bændaskóla.

Þá er hægt að taka Borgarfjörð til samanburðar. Þar er bæði bændaskóli og héraðsskóli, og heyrast ekki neinar raddir um, að það sé of mikið fyrir það, hérað, enda eru báðir skólarnir fullskipaðir.

Ef við lítum svo á þetta mál frá sjónarmiði alþýðumenntunarinnar, þá er það öllum vitanlegt, að eftir því sem skólarnir eru víðar og fólkið hefir þá meira fyrir sér, á það auðveldara með að sækja þá. Ef skólarnir eru innan héraðs, fjölgar þeim ungmennum, sem sækja þá. Þess vegna vildi ég vænta þess, að framhjá því atriði verði ekki gengið.

Um Varmahlíð í Skagafirði er það ennfremur að segja, að um þann stað sem skólasetur hefir þegar verið myndað áhugamannafélag, ekki eingöngu í héraðinu sjálfu, heldur einnig meðal Skagfirðinga og skólavina hér í Reykjavík. Þetta bætist því við aðrar þær ástæður, sem ég hefi fært fyrir því, að meiri ástæða sé til að styðja Varmahlíð í Skagafirði sem skólastað heldur en nokkurn annan stað, sem komið hefir fram í þessu sambandi.

Viðvíkjandi hinu atriðinu, sem hv. 9. landsk. færði fram í þessu máli, að sveitahéruðunum hefði verið gert hærra undir höfði en Reykjavík hvað skóla snertir, þá vil ég vænta þess, að slík rök verði ekki færð fram á Alþingi, að kaupstaðirnir standi að baki sveitahéruðunum að því er snertir fjárframlög til fræðslu. Við getum rakið hvaða skólaflokk sem er og alstaðar séð, að ungmennum bæjanna er miklu auðveldara með inngöngu í skóla en ungmennum sveitanna. Þetta er að vísu að lagast, en eingöngu fyrir héraðsskólana. Hv. 9. landsk. minntist sérstaklega á gagnfræðaskólana. Ég skal fúslega viðurkenna, að ég vildi, að við ættum auðveldara með að veita fé til byggingar gagnfræðaskóla. Það er lögfest, að í öllum bæjum á landinu skuli starfræktir gagnfræðaskólar, og í þeirri von, að smátt og smátt lagist með húsakost fyrir þessa skóla, þá er bjargazt við þau húsakynni, sem til eru í bæjunum. Nú er þegar lokið við mjög myndarlegt skólahús í Hafnarfirði, og varið hefir verið til skólabygginga í Reykjavík, Akureyri og Ísafirði, allverulegri fjárhæð til skólans í Reykjavík, en byrjunarupphæðum til skólanna á Ísafirði og Akureyri. Ég sé því ekki annað en að með þessu sé sýndur fullkominn þingvilji með að styðja byggingar gagnfræðaskóla í kaupstöðum landsins. Og ég hefi ekki heyrt eina einustu rödd um það, að það væri ekki gott mál og nauðsynlegt að leggja fé til þeirra bygginga, ef við aðeins gætum það fjárhagsins vegna.

Ég óska ekki eftir að lesa upp tölur um það, hvernig fjármagnið lendir í ýmsum héruðum landsins til fræðslu, en ég get fullvissað hv. 9. landsk. um það, að kauptúnin verða ekki útundan hvað snertir fjárframlög ríkissjóðs til skóla og fræðslu. Ég vil svo einnig benda á, hvort ekki muni auðveldara fyrir ungmenni bæjanna að komast í þá skóla, sem viss skilyrði þarf til að komast í, heldur en fyrir ungmenni sveitanna.

Ég vil svo taka undir þá ósk með hv. 2. þm. Skagf., að d. fallist á þetta frv. eins og það liggur fyrir og afgreiði það sem skjótast, því að það á ekki eftir nema eina umr., að þessari lokinni, og getur því aðeins náð afgreiðslu, að það verði ekki tafið mikið.