15.04.1937
Neðri deild: 39. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

65. mál, héraðsskólar

*Frsm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Ég skal ekki fjölyrða mikið um héraðsskólana yfirleitt. Ég hefi ekki talið mig neinn forsvarsmann þeirra, og er að ýmsu leyti ósamþykkur þeim lögum, sem eru um þær stofnanir. En nú eru þau lög til, og samkv. lögum frá 1929 hafa héraðsskólar risið upp hér og þar á þessum ákveðnu stöðum, sem allir þekkja. En það var engan veginn svo, eins og skilja mátti af máli hv. 9. landsk., að það hefðu verið fullkomnari skólar fyrir á þeim stöðum þegar lögin voru sett, eða það væri yfirleitt sjálfsagt og óhjákvæmilegt, ef ætti að hafa rétt við í þeim efnum, að hleypa ekki inn á þessi lög neinum öðrum skólum en þeim, sem þegar eru komnir, og ekki mætti nefna aðra staði. Ef hv. þm. kynnir sér l., gera þau einmitt ráð fyrir því, að héraðsskólar verði settir á þessum og þessum stöðum, sem ótakmarkað mega takast inn í l.

Ég vildi láta þess getið í framsöguræðu minni, að hér stæði ólíkt á um Reykjanesskólann, sem hefði sýnt ekki aðeins mikinn áhuga, heldur og lofsamlegar athafnir, og ég lét þess getið, að á hinum staðnum væri enginn skóli, aðeins ákjósanlegur staður, að dómi þeirra manna, sem að málinu standa. Út frá því sjónarmiði getur hv. þm. komið með hvaða staði, sem honum sýnist, en það er náttúrlega álitamál, hvort menn vilja taka þá staði upp í l.

Ég sagði, að skólinn á Reykjanesi verðskuldaði það að verða settur hærra en hann er nú vegna þess, sem fram er komið um þann skóla; og að dómi Ed. og menntmn. þessarar hv. d. er það talið réttmætt að upphefja hann nú hreinlega upp í héraðsskólaákvæðin. Á hinum staðnum, Varmahlíð, er ekki stofnaður neinn skóli ennþá, en það er kunnugt, að það er svo mikill áhugi fyrir þessu máli innan þings og utan, að það þótti rétt að láta hann fljóta með. Þar fyrir er ekki víst, að Reykhólar eða aðrir staðir fyndu sömu náð fyrir augum menntmn. þessarar hv. d.

Meiri hl. menntmn. vildi láta ákvæðin um Reykjanesskólann ná fram að ganga á þessu þingi, en það var ekki útlit fyrir, að svo yrði nema samkomulag yrði um að taka Varmahlíð nú þegar inn í l. Vegna þess áhuga, sem er fyrir þessu máli, má teljast líklegt, að skóli verði reistur þarna í náinni framtíð; þó munu allir héraðsbúar ekki vera á sama máli ennþá, en það gerir engan mun frá okkar sjónarmiði. Þeir geta kosið annan stað, ef þeir vilja, því að héraðsskólalögin ákveða ekkert, sem hindrar það. Þau mæla aðeins svo fyrir, að héraðsskóli skuli vera í þessu og þessu héraði, og ef héraðsbúar vilja heldur halda slíkan skóla að Hólum, eins og komið hefir til mála, þá er það kleift samanborið við það, sem sjálf héraðsskólalögin innihalda. Það er t. d. ákveðið í 1., að héraðsskóli skuli vera að Hvítárbakka, en Reykholt er þar ekki nefnt. Nú er enginn skóli að Hvítárbakka, heldur er skólinn kominn að Reykholti með samþykki allra stjórnarvalda, og er ekkert við því að segja; en ef ætti að binda sig við það, sem lögin ákveða, ætti sá skóli að vera á Hvítárbakka, en ekki í Reykholti. Hv. 9. landsk. gat þess um leið og hann bar fram sína brtt. — sem ég bjóst við, að myndi ekki koma fram, úr því að honum hefir ekki unnizt tími til að koma henni á prent —, að hann lofaði engu síður góðu, ef svo skyldi takast til, að Varmahlíð yrði ekki felld út úr frv. Nú má hv. þm. vita það, að engin minnstu líkindi eru til þess í þessari deild, að ég ætla, að frv. verði fellt né heldur að því verði breytt, svo að það liggur ekki annað fyrir eftir orðum hv. þm. en að hann komi með sínar brtt. við 3. umr. — Það má náttúrlega benda þessum áhugasama þm. á það, hvort ekki væri nægilegt fyrir hann að koma með þessar brtt. á næsta þingi. Þá gæti hann verið vel undirbúinn, og ekki vil ég draga það í efa, að hann vilji sigla á móti mér þá, svo að það er ekki nein nauðsyn að gera það nú.

Kunnugir menn telja, að þó að ýmislegt gott sé um Reykhóla að segja, þá sé þar svo háttað að öðru leyti, að skóli myndi vera þar mjög illa settur, og að þar væri óhæft skólasetur vegna óviðráðanlegra samgönguerfiðleika; ef hið opinbera eignaðist þennan stað, sem ég skal ekkert um segja, þá mætti kannske hafa þarna samkvæmt fortíð staðarins einhverskonar fangabúðir. Sessunautur minn gat þess, að þarna hefði að sínu áliti átt að vera letigarður, því að þar væri vel til fallið að framkvæma ýmislegt út af fyrir sig, og þar væri engin hætta á of örum samgöngum, eins og komið hafi í ljós þar sem letigarðurinn er nú, því að menn hafa kvartað yfir því, að of náin mök væru milli kauptúnsbúa og þeirrar stofnunar, sem óbótamenn fylla þar.

Ég vil leyfa mér að ætlast til þess að þetta nái fram að ganga og að á vegi þess verði ekki neinar hindranir. Mér finnst yfirleitt ekki taka því að gera hin almennu málefni skólanna að umræðuefni út af þessu frv. Ég tók það fram í frumræðu minni, að ýmsir aðrir unglingaskólar ættu það skilið að verða hærra settir en þeir eru nú, þó að ekki væri tímabært að gera, þá að héraðsskólum. Hér kemur margt til greina, t. d. hve margir skólar eigi að vera á hinum ýsmu tilteknu svæðum. Ég býst við, að sumum þyki vera komnir nógu margir skólar í Vestfirðingafjórðungi og á Austfjörðum, þar sem 2 skólar eru fyrir, þó að ekki sé verið að bæta þeim þriðja eða fjórða við; en ég held, að það sé engin nauðsyn að gera gangskör að því að koma fram með till. á Alþ. um að taka alla unglingaskólastaðina þegar í stað inn í l.