15.04.1937
Neðri deild: 39. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

65. mál, héraðsskólar

*Bjarni Bjarnason:

Ég þarf ekki að vera langorður, þar sem ég hefi áður fært fram þau rök á móti hv. 9. landsk., sem ég kæri mig um að koma með, því að ég læt hvorki hann né aðra hafa mig til þess að endurtaka ræðu mína. Annars verð ég að segja, að ég kannaðist tæplega við þennan hv. ræðumann, því að hann er að öllum jafnaði hógvær í ræðum sínum, en ég hygg, að þegar hann fer að líta yfir þessa ræðu sína, þá finnist honum, að margt megi falla burt úr hinum væntanlegu þingtíðindum af því, sem hann hefir talað hér í þessu máli, því að hann ber höfðinu við stein, þegar hann segir, að það séu engin rök fyrir því, að ekki sé fullgild ástæða til þess að fara fram á, að Reykhólar verði gerðir að skólasetri; en þetta stafar auðvitað ekki af öðru en því, að hv. þm. er þræll þeirrar hugsunar að sjá aðeins þann landshluta, sem hann helzt getur tengt framboð sitt við. Annars bera orð hv. 9. landsk. það með sér, að hv. þm. eigi fyrst og fremst að líta á hag heildarinnar, en hann hefir aldrei sýnt það hér í þinginu eins vel og nú, hver þræll hann er Barðastrandarsýslukjördæmis.

Það, sem sérstaklega kom fram í ræðu hv. 9. landsk., var það, hversu gersamlega þröngsýnn eða fjandsamlegur hann er að verða allri viðleitni, sem verið er að sýna sveitunum að því er snertir bætta aðstöðu þeirra til upplýsingar, og skyldum við þó ætla, að maður, sem er að reyna að vinna sér kjörfylgi í dreifbýlu sveitakjördæmi, hefði ánægju af að renna augunum til svipaðra staða annarsstaðar á landinu. Hv. þm. leyfir sér að halda því fram, að kaupstaðirnir séu settir til hliðar að því er snertir skólastarfsemi. Ég vil benda hv. þm. á það, að fram á okkar fullorðinsár, sem nú erum miðaldra menn, var ekki til nokkur skóli í sveit nema farskólar. Það er nú fyrst á síðustu árum, að tekizt hefir fyrir margra ára baráttu víðsýnna hugsjónarmanna að koma því í framkvæmd, að sveitirnar yrðu ekki settar hjá, þegar um það var að ræða að byggja skóla í landinu og dreifa menntuninni um það. Ef við lítum aðeins á fyrsta skólakerfið, barnaskólana, þá sjáum við, að í hverjum einasta kaupstað er skólahús, og víðast hvar eru þau mjög góð og að öllu leyti mjög vel við þau unandi, hér í Reykjavík er fyrst og fremst stór skólabygging í miðjum bænum og önnur enn stærri og fullkomnari í útjaðri bæjarins, samtímis því, sem fjölmargar sveitir landsins verða að búa við farskólafyrirkomulagið, þar sem börnin verða að ganga kvölds og morgna langa leið til þess að sækja nokkra klst. fræðslu á dag. Og meðan þetta ástand ríkir í sveitunum ætlar hv. 9. landsk. að leyfa sér að halda því fram, að það sé verið að byggja skóla í sveitunum á kostnað bæjanna. Það verður sama uppi á teningnum, ef við höldum lengra áfram með skólakerfið; það er að vísu rétt, að gagnfræðaskólarnir eru ekki enn búnir að fá það húsnæði, sem þeir eiga skilið. En hvernig dettur hv. þm. í hug, þar sem gagnfræðaskólalögin eru aðeins fárra ára gömul, að það sé eðlilegt, að komin séu fullkomin skólahús fyrir gagnfræðaskóla í öllum bæjum landsins? Hv. þm. sagði það ósatt, að Akureyrarkaupstaður væri ekki búinn að fá fjárveitingu til byggingar gagnfræðaskóla, og ætti hann þó að vita það, sem rétti þó upp hönd sína með því.

Það er ekki furða, þó að hv. 9. landsk. sjái ofsjónum yfir húsmæðraskólunum í landinu, sem eru 3, með 12 stúlkur hver. Það er ekki lítil ástæða til þess að eyða tíma hér á Alþingi til þess að telja þetta eftir! Ég veit ekki betur en að það sé hægt að koma upp námskeiðum fyrir húsmæðraefni í bæjum eins og í sveitum, enda hefir bæði Reykjavík og flestir aðrir bæir landsins gert töluvert að því að halda uppi námskeiðum til þess að undirbúa húsmæðraefni undir lífsstarf sitt, og hér í Reykjavík hefir verið til kvennaskóli, auk þess sem hér eru, sem kunnugt er, gagnfræðaskólar og barnaskólar, verzlunarskóli, iðnskóli, kennaraskóli og svo háskóli, og vitanlega enn fleiri skólar, svo að það er ekki eins og Reykjavík hafi verið sett hjá á neinn hátt að því er skólastarfsemi snertir. Skólarnir hafa yfirleitt undantekningarlítið safnazt saman í bæjunum, og sérstaklega í Reykjavík. Það hafa komið upp raddir um það nú, að Reykjavík sé að verða ofvaxin þjóðfélaginu, og væri þá ekki einmitt full ástæa til að dreifa skólunum meira en gert hefir verið út um sveitir landsins? Með tilliti til þessa sjónarmiðs hefi ég gengizt fyrir því, að Framsfl. fyrir sitt leyti samþ., að hinn væntanlegi kennaraskóli verði reistur í sveit, þegar búið er að auka hann og stækka og gera háskólamenntun að skilyrði fyrir kennarastarfi. Í fjárl. undanfarinna ára hafa verið veittar 30 þús. kr. til þess að bæta úr þörf sveita að því er snertir barnakennslu, en til gagnfræðaskóla í Reykjavík hafa verið veittar 30 þús. kr. Þarna hefi ég nefnt eitt dæmi til þess að sýna þeim, sem á mál mitt hlýða, hver firra það er að halda því fram, að Reykjavík og bæirnir séu settir til hliðar í þessu efni. En eins og gefur að skilja, er það eftirsótt bæði af sveitum og bæjum, að fá fé til þess að bæta úr skólakostinum, en það er erfiðleikum bundið að fá fjárveitingu til þess eins og annars, hvort sem beiðnin kemur frá hv. 9. landsk., mér eða einhverjum öðrum, vegna þess að það er ekki alltaf hægt að útvega það fé, sem æskilegt væri til þess að byggja skóla, sem við verðum að fá í framtíðinni og fáum, ef við eigum líf fyrir höndum.

Ég skal nú ekki hafa þessi orð miklu fleiri, með því að ég veit, að þegar hv. 9. landsk. athugar þau rök, sem ég hefi fært fram gegn því, að það væri nokkur minnsta ástæða til þess að samþ., að Reykhólar verði gerðir að skólasetri, þá sér hann, að þessi rök eru góð og gild. Á öllu svæðinu frá Reykjum við Hrútafjörð og austur að Laugum í S.-Þingeyjarsýslu er aðeins einn skóli í sveit, og það er 12 kvenna húsmæðraskóli að Laugalandi í Eyjafirði, sem ekki er einu sinni byrjaður að starfa, en gerir það vonandi innan skamms.