15.04.1937
Neðri deild: 39. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

65. mál, héraðsskólar

*Sigurður Einarsson:

Ég ætla litlu að svara hv. 2. þm. N.-M. Hann sagði, hv. þm., að hver maður hefði átt að geta áttað sig á þessu atriði, jafnvel þó að greind hans væri nokkuð fyrir neðan meðallag. Við þessu vil ég aðeins segja það eitt, að mér finnst hv. þm. nokkuð takmarkaður, að miða yfirleitt allt við sína eigin greind. Hv. 2. þm. Árn. sagði, að ég væri þræll Barðastrandarsýslu. Þessi ummæli hv. þm. tek ég mér til inntekta. Það var einmitt það, sem ég lofaði, þegar ég varð við þeim tilmælum að bjóða mig fram í Barðastrandarsýslu við síðustu kosningar, að vinna fyrir sýsluna. Annars er það misjafnt, hvað menn hafa gaman að. Ég vil heldur vinna fyrir málstað þess héraðs, sem hefir falið mér umboð sitt, en standa í ýmsu því, sem þessi hv. þm. hefir gert nú á síðari tímum, hvort sem hann hefir gert það af eigin hvötum eða fyrir tilstilli annara.