16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

65. mál, héraðsskólar

*Sigurður Einarsson:

Það kemur fram í þessum mótmælum hv. 2. þm. Árn. gegn brtt. minni nákvæmlega það sama og fram kom í gær við 2. umr. málsins, að það er ekki hægt, og því síður, sem málið er lengur rætt, að færa fram nein fullgild rök fyrir því, að það eigi að útiloka þennan stað, Reykhóla, frá því að geta orðið héraðsskólasetur, um leið og ákveðið er, að Varmahlíð í Skagafirði skuli koma til greina sem skólasetur og samþykkt er lögfest um það.

Þessi hv. þm., sem síðast talaði og sagðist ekki vilja beita sér á móti þessari till. minni um Reykhóla sem skólasetur, en gerir það þó í anda sinnar ræðu, fullyrti ekki annað en það, að hér væri með till. minni verið að fara í manngreinarálit um héruð og staði. Það er ekki til neins að telja skólana í Vestfirðingafjórðungi fleiri en svo, að hægt sé með fullri sanngirni að gera ráð fyrir skóla á þessum stað. Ég geri ráð fyrir, að bæði hv. 2. þm. Árn. og aðrir, sem stóðu að því að samþ. það, að Varmahlíð í Skagafirði yrði gerð að héraðsskólasetri, muni, þegar þeir skoða huga sinn um þetta mál, ekki láta neinar hugsanlegar ýfingar, sem orðið hafa við mig persónulega, bitna á íbúum þeirra héraða, sem heyja sína lífs- og menningarbaráttu þarna umhverfis þennan stað, þegar þeir ganga til atkv. um þetta mál.