16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

65. mál, héraðsskólar

*Bergur Jónsson:

Mér þykir leiðinlegt, að hv. 9. landsk. skuli ekki vera við. Ég vildi geta þess, út af bréfi, sem hann taldi, að hefði komið til mín, að sannleikurinn er sá, að ég fékk bréf frá ungmennasambandi Barðastrandarsýslu, og í því bréfi var þess getið, að Sig. Einarssyni væri sent samskonar bréf, og í því bréfi stóð, að mér hefði verið sent bréf sama efnis.

Mig langar til að upplýsa það, að hann þurfi ekki að vera hræddur um það, að ég muni ekki koma inn í þessa hv. d. meira. En það er hann, sem er hræddur, að einmitt sú ólukka hendi hann sjálfan. Hann hefir aldrei verið kosinn á þing, alstaðar fallið nema þegar hann sótti um prestsembætti vestur á Breiðafirði, og það var bara af því, að enginn annar en hann gaf kost á sér til að taka það embætti. Hann hefir boðið sig víða fram, en hefir hvergi verið þeginn.