22.02.1937
Neðri deild: 7. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Flm. (Jón Ólafsson):

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um mál þetta nú, því að flest það, sem máli skiptir því til réttlætingar, er tekið fram í grg., enda mun nú svo, að þeir eru alltaf að verða fleiri og fleiri, sem eru að verða sammála um, að greiða beri fyrir smábátaútveginum, eftir því sem föng eru til. Hver, sem lítur á mál þetta með skynsemi, hlýtur að sjá, að hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir fjölda manna, sem bezt má sjá á því, að það munu ekki hafa færri en 100 bátar stundað dragnótaveiði kringum landið síðastliðið ár, og það með góðum árangri, svo góðum, að ég býst ekki við, að það hafi verið margt, sem fært hafi landsmönnum öllu meiri björg í búið en þessi veiði, því að tilkostnaðurinn er svo lítill.

Ég þykist nú mega vænta þess, að andstæðingar þessa máls séu nú farnir að átta sig á því, að nú horfir allt öðruvísi við um mál þetta en t. d. 1928, þegar lögin voru sett. Nú er þegar búið að koma upp hraðfrystihúsum víðsvegar um land, sem geta tekið á móti veiði þessari og gert hana að peningum. Ég geri t. d. ráð fyrir, að það hefði þótt gott áður að geta fengið 40 aura fyrir hvert kg. upp úr sjónum, eins og átt hefir sér stað síðastl. ár.

Þá hefir og verið gerð tilraun með að flokka þennan fisk og selja hann beinlausan. Við það hefir svo skapazt nokkur atvinna, en jafnframt fengizt hærra verð fyrir hann. Þannig hefi ég fyrir satt, að fiskimálanefnd, sem byrjaði á þessu, hafi fullkomlega haft upp þá 40 aura, sem hún greiddi fyrir hvert kg. af fiskinum upp úr sjónum.

Það, sem ég benti á snertandi þetta mál á þinginu 1928, hefir allt komið á daginn. Ég taldi þá og tel ennþá bein landráð að hindra menn í því að afla sér þessarar bjargar úr sjónum. Þjóðin hefir og sannfærzt um, að það er hið mesta glapræði að banna Íslendingum þessa veiði samtímis og þeir verða að horfa á aðrar þjóðir, svo sem Dani, Þjóðverja o. fl. hirða hana. Það sýnist ekki mikil verndun í því fyrir þessar fisktegundir, þótt Íslendingum, sem ekki hafa nema 7% af þessari veiði hér við land, væri meinað að nota hana. Það mundi bersýnilega aðeins verða til þess, að útlendingar sætu einir að veiðinni.

Eins og ég tók fram í upphafi ræðu minnar, ætla ég ekki að fara langt út í þetta mál. Ég vona, að sjútvn. taki til greina upplýsingar þær frá Fiskifélaginu, sem fyrir liggja í málinu og byggðar eru á skýrslum frá bátum, er stundað hafa þessa veiði, og sýna, að veiðarfæri, sem notuð eru til dragnótaveiðanna, eru margfalt ódýrari í hlutfalli við verðmæti aflans, miðað við þau veiðarfæri, sem notuð eru við þorskveiðar.

Ég ætla svo ekki meira að segja um málið á þessu stigi, en óska, að því verði vísað til sjútvn. að lokinni þessari umr.