22.02.1937
Neðri deild: 7. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Jónas Guðmundsson: Ég ætla strax að lýsa ánægju minni yfir því, að frv. þetta er fram komið. Síðan ég kom á þing, hefi ég ýmist verið flm. eða stuðningsmaður þeirra frv., er komið hafa fram í þessa átt, og þar sem frv. er nú flutt af hv. þm. Sjálfstfl., mætti ætla, að það hefði nú meira fylgi í þeim flokki en verið hefir undanfarið. Ég vil því vona, að frv. sigli nú hraðbyri gegnum þingið, þrátt fyrir hrakspár hv. þm. Borgf. Þessi hv. þm. var að vitna í það, að frv. líks efnis hefði á síðasta þingi verið fellt með 18:7 atkv., en hann sagði ekki frá því, að frv., sem fyrri partinn í vetur sem leið var fellt með miklum atkvæðamun í þinginu, var aftur ca. 3 mánuðum síðar samþ. með miklum meiri hl. atkv. Það er enginn efi á því, að síðan þetta frv. var fyrir síðasta þingi, hafa ákaflega mörg og sterk, ný rök komið fram með málinu. Það hefir fyrst og fremst sýnt sig, að erfiðleikarnir á því að selja saltfisk hafa ákaflega mikið aukizt síðan í fyrra, og saltfiskmarkaðurinn sem undirstaða smáútgerðarinnar er að hverfa. Það virðist því ekki vera um annað ráð að gera til bjargar smáútveginum en að auka ísfiskveiðina fyrir erlendan markað. Og það vita allir, að því meira sem hægt er að selja á ísfiskmarkaðinn af flatfiski, því meiri von er um hærra verð.

Ég ætla ekki að fara ýtarlega út í frv. Það er svipað því frv., sem ég flutti í fyrra. En ég get sagt það, að allramikilsverðast tel ég að afnema héraðabönnin, svo að mikilsverð veiðisvæði séu ekki lokuð lengstan tíma ársins. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt og rétt að lengja veiðitímann, hvort sem rétt er að ganga eins langt í því og gert er með frv. Ég tel, ef lögunum verður breytt í það horf, að héraðabönnin verði afnumin og fastákveðinn veiðitími leyfður, þá eigi blátt áfram ekki að létta af sektarákvæðunum og ekki heimila, að eigendur veiðarfæranna fái þau keypt aftur með vægum kjörum, því að það verður að hegna fyrir þau brot, sem framkvæmd eru á þeim tíma, sem veiðarnar eru skaðlegar að áliti þjóðarinnar. Hitt væri annað mál, ef engu yrði breytt, að létta þá þessar sektir, því að þær eru í raun og veru ekkert annað en pappírssektir, sem undir fæstum kringumstæðum er beitt.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta, en vænti, að sjútvn., sem fær málið til meðferðar, taki bæði þetta, sem ég hefi sagt, og annað, sem fram kann að koma, til athugunar, þegar hún afgreiðir málið.