05.04.1937
Neðri deild: 31. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Sigurður Einarsson:

Ég hefi, síðan fundur hófst í dag, verið að gera tilraunir til þess að ná sambandi við menn, sem höfðu búið sig undir að láta í ljós álit sitt um þetta mál, sem hér liggur fyrir, en mér hefir ekki tekizt að ná því sambandi ennþá. Þess vegna verður það, sem ég segi, ekki mikið, með því að þessar upplýsingar skortir.

Ég verð að lýsa yfir því, að ég er fylgjandi í aðaldráttunum því frv., sem hér liggur fyrir, með þeim breytingum, sem sjútvn. leggur til, að gerðar verði á frv. — Þetta mál er búið að liggja fyrir svo mörgum þingum og búið að ræða það svo mjög, að mönnum er orðið það ljóst, að ýmislegt það, sem fært hefir verið fram gegn því að nota dragnætur, virðist ekki vera á eins traustum rökum byggt, eins og áður hefir verið látið í veðri vaka. Í öðru lagi eru frá þeim stöðum, sem bátaútvegur er mikill, og einkum frá þeim stöðum, þar sem búið er að koma upp hraðfrystihúsum, ákaflega háværar kröfur um það, að mönnum verði gert fært að hagnýta þessa veiði sér til bjargræðis.

Eins og þegar er tekið fram í þeim umr., sem um þetta mál hafa orðið, er það víst, að þótt verði látið sitja við þá löggjöf, sem verið hefir, er það engan veginn tryggt, að ekki sé nokkuð mikið veitt af kola og öðrum flatfiskum, sem veiddir eru í dragnætur. A. m. k. er það kunnugt frá Vestfjörðum, þar sem bönnuð eru mið og jafnvel heilir firðir, að þar veit almenningur, að læðzt er inn á bönnuðu svæðin, þegar vel þykir henta, og veitt þar af aðkomubátum og útlendum skipum. Ég er viss um, að sá hugur, sem í verstöðvunum hefir ríkt fyrir því að loka landhelginni fyrir dragnótaveiði, hefir byggzt á því, að hlutaðeigandi svæði hafa ekki aðstöðu til að hagnýta sér þennan afla. Að því er snertir það hérað, sem ég ber fyrir brjósti, sem er Bíldudalur og nærliggjandi kauptún, þá er með byggingu hraðfrystihússins þar þegar fyrir því séð, að hægt verði að hagnýta þennan afla.

Þó að ég hafi ekki nein gögn frá þeim stöðum, sem ég ætlaði að afla mér þeirra frá, þá er mér, af viðræðum við menn vestra og öðrum gögnum, þegar kunnugt um það, að almenning fýsir, að þetta frv. nái fram að ganga. Ég hefi ekki af ræðu hv. þm. Barð. getað sannfærzt um það, að rétt sé að láta veiðitímann fyrir Vestfjörðum byrja seinna en fyrir Suðurlandi. Mér er ekki kunnugt um, að síðan þetta frv. var borið fram, hafi komið nokkuð fram frá hlutaðeigendum eða því opinbera, sem færi sönnur á það, að þeim, sem að þessu máli standa, sé neinn hugur á þessu ákvæði, sem ég hér nefndi. Hitt er augljóst, að þegar komin eru upp frystihús og bátar til þess að hagnýta aflann, þá skiptir það miklu máli, að hægt sé að stunda þessar veiðar sem lengstan tíma af árinu. Að svo stöddu sé ég ekki frá mínu sjónarmiði annað nær hendi en að samþ. þetta frv. eins og það liggur fyrir með þeim breytingum, sem fyrir liggja, sem ég tel, að horfi til stórra bóta.