07.04.1937
Neðri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Jón Ólafsson:

Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þetta mál í heild, þar sem það hefir nú og eins á undanförnum þingum verið svo þrautrætt, og yfirleitt eru hv. þm. svo vel heima í málinu, að það hlýtur að vera komið á það stig, að mönnum leiðist mikil ræðuhöld um það ár eftir ár. Ég þakka sjútvn. fyrir þann hluta af málinu, sem ég á, og sérstaklega þakka ég n. fyrir hið greinargóða og skýra nál., sem ég geri ráð fyrir, að sannfæri jafnvel þá, sem forhertastir eru, enda er fyllsta ástæða til að ætla, að svo ýtarlegt nál. geri það að verkum, að þeir, sem hafa verið andvígir málinu, séu nú að nokkru leyti með því. Þó er það skuggi á nál., að tveir ágætir og mætir menn úr n., hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. Barð., hafa skrifað undir nál. með fyrirvara, en ég geri ráð fyrir, að þeir mætu menn láti það ekki standa fyrir framgangi málsins né horfi í það smáatriði, sem þeir gera að ágreiningsefni, svo mikið, að það valdi neinu um, hvort þeir eru með málinu eða ekki. Ég hefði nú viljað, að sjútvn. hefði tekið frv. eins og það lá fyrir frá upphafi. En það er svo með þetta mál eins og mörg önnur góð mál, sem hafa ýmsa hjátrú og mótstöðu, að það verður að mjaka þeim áfram skref fyrir skref, og þegar tekizt hefir að koma þeim þannig áfram, þá verður mönnum ljóst, að þau hefðu átt að vera komin í l. fyrir löngu.

Sjútvn. hefir nú tekið það sérstaklega til íhugunar, að það væri ekki gott að veiða kolann um hrygningartímann. Ég skal nú ekkert um það segja, hvort þessu er hægt að bjarga nokkuð eða ekki, eða hvort þetta verður til að halda fiskinum við eða ekki. Ég held annars, að það hafi litla þýðingu. Þetta er líka eini nytjafiskurinn, sem þannig á að vera ástatt með, að ekki sé á hann ráðizt, meðan hrygningartíminn stendur yfir. Það hefir engum dottið í hug að hlífa þorskinum. Ég geri ráð fyrir, að á sínum tíma verði þessu hindurvitni líka aflétt, svo að menn geti stundað þessar veiðar, þegar þeim sýnist. Það gengur æfinlega gegnum þessar umr. sú hugmynd, að stofninn hljóti að ganga til þurrðar, ef leyft er að fiska með dragnót í landhelgi. En þeir, sem kunnugastir eru þessu máli og fylgzt hafa með því, vita, að skarkolinn hefir ekki gengið til þurrðar, af því að við höfum veitt hann, heldur af því að útlendingar hafa setið að þessari veiði nær eingöngu. Við veiðum aðeins 3% til 5% af þeim skarkola, sem veiddur er kringum landið. Þegar litið er á þetta, þá hlýtur manni að blöskra, að ekki skuli meira hafa komið í hlut landsmanna. Nú er þó kominn sá skriður á þetta mál, að Íslendingar kunna með þetta veiðarfæri að fara, og þeir hafa, eins og vottorðin sýna, á síðustu árum gert meira áhlaup í því að vinna sér til hagnaðar þennan fisk en nokkru sinni áður. Þó sjá allir, að hér má ekki láta staðar numið. Hlutfallið milli þess, sem Íslendingar og útlendingar veiða, verður að hreyfast. Við verðum að fá meiri hlutann af kolaveiðunum kringum landið, enda er slælega sótt, ef það verður ekki hægt innan fárra ára, þegar menn eru búnir að læra að fara með veiðarfærið. Það er aðalskilyrðið fyrir þeim veiðum, sem nákvæmni þarf við, að menn þekki blettina og kunni að hagnýta sér þá. Útlendingar hafa hingað til setið að þessu, og er það til lítillar sæmdar fyrir okkur.

Nú er það svo, að þeim er alltaf að fækka, sem vilja hafa fordóma í þessum veiðiskap. Við munum eftir hinum hræðilega fordóm við Faxaflóa, þar sem samþykkt á samþykkt ofan bannaði mönnum að taka björgina, sem barst upp í landsteinana, aðeins af þrjózku og þröngsýni. Þá vildi svo til, að þegar leyfið var veitt, þá var fiskurinn farinn. En þá var ekki um það að ræða, að það mætti sleppa neinu af því, sem hægt var að hagnýta til lífsframfæris.

Mér virðist, að hv. þm. Borgf., sem ber manna bezt skyn á ýms mál, og þá ekki síður þetta mál, sem tilheyrir mjög hans kjördæmi, hafi núna farið vægar í sakirnar en að undanförnu, og hlýtur það að stafa af því, að það er ómögulegt annað en hann sannfærist um hvað hér græðist og hvað er í húfi. Hefðum við sett frjálslyndari löggjöf 1928, álíka og nú er borin fram af hv. sjútvn., er ekki nokkur vafi á því, að fiskimenn og landsmenn væru nokkru auðugri en þeir eru nú, vegna þess að ekki hefir verið leyft að hagnýta þessa fiskitegund.

Hv. þm. þótti Fiskifélag Íslands ganga nokkuð langt í þessum efnum; það hefði ýtt undir þessa veiði og fylgt þeim mönnum, sem vildu hagnýta þennan nytjafisk, og talaði hann um að krefja félagið reikningsskapar fyrir það, sem það hefði gert í þessu máli. Hér er engin breyt. á. Fiskifélagið, og sérstaklega forseti þess, hefir alla tíð verið þeirrar skoðunar, sem nú er fjölda manna, að sjómenn ættu ekki að láta þennan nytjafisk ónotaðan, sem er langsamlega nytjamestur að verðmæti allra þeirra fiska, sem við höfum veitt úr sjónum. Ég held, að það séu ekki margir sem vilji draga forseta Fiskifélagsins til reikningsskapar fyrir þetta frjálslyndi. Ég er sannfærður um, að allir þeir, sem dragnótaveiðar stunda og koma til með að stunda, munu muna eftir þeim mönnum, sem hafa haft víðsýni til þess að sjá, hvað það er, sem hér er að gerast.

Þá þótti hv. þm. það nokkuð hart, að vera að færa niður sektir fyrir landhelgisbrot þessara manna, en ef hv. þm. kynnir sér, hvernig ástandið er nú í þessum efnum, og spyr viðkomandi lögreglustjóra, hvernig það er, mun hann fá það svar, sem í raun og veru er alveg skýlaust, að þessi sektarákvæði séu svo langt fram yfir það, sem nokkur von sé að fá hjá þessum mönnum. Það hefir nú reynzt svo, að enginn þeirra 15 báta, sem brotlegir hafa orðið, hefir borgað eyrisvirði. Bátar og veiðarfæri hafa verið svo veðsett, að ekkert hefir verið af eigendum þeirra að hafa. Það sjá allir, hvað það þýðir, að hafa sektarákvæði, sem ómögulegt er að framfylgja; það er aðeins til þess, að menn gera gys að því, að verið sé að setja slíka löggjöf.

Þá fann hv. þm. að því, að gert er ráð fyrir, að þeir, sem verði fyrir sektum, gætu eins og aðrir menn átt kost á því að kaupa sín veiðarfæri, ef þau koma til uppboðs. Þetta er gert vegna þess, að það er margreynt, að það þýðir ekkert að hafa slíkt ákvæði, af því að jafnan er einhver á staðnum, sem býður í veiðarfærin og lætur þau aftur til þeirra, sem hafa misst þau. Mér er sem ég sjái fiskimenn fara að bjóða í þessi veiðarfæri til þess að hafa þau sjálfir, en láti ekki þessa menn fá þau aftur að afloknu uppboði. Það er algerlega þýðingarlaust að hugsa sér, að þetta bann nái tilætluðum árangri.

Ég er ekki ánægður með það að útiloka 35 smálesta báta og stærri frá veiðunum, þó að það sé ekki gert nema vissan tíma ársins; það eru rangindi, að þeir megi ekki veiða nema vissan tíma ársins með þessu veiðarfæri.

N. hefir yfirleitt farið vel með málið; þó gat ég ekki fallizt á þær ástæður, sem á bak við þessar brtt. liggja, hvorki að því er snertir 35 smálesta stærð bátanna né heldur hrygningartímann, sem þeir eru að bera fyrir brjósti.

Ég vil nú ekki hafa þetta miklu lengra, en það féllu einhver orð um það hjá hv. þm. Borgf., að ef við gengjum mjög á fiskstofninn, þá myndi það enda með því, að landið yrði óbyggilegt. Hann veit vel, um leið og hann setur þessa skoðun fram, að við erum allra mestu peð í fiskveiðum samanborið við allan þann útveg, sem útlendingar, sérstaklega Englendingar, hafa hér við land, svo að ef við ættum að fara að ýfast við því, að við sjálfir fiskuðum þá nytjafiska, sem okkur ríður mest á, þá er það í flestum tilfellum aðeins til þess að treina útlendingum þessa veiði. Þar fyrir er ég ekki mjög trúaður á það, að með þessum veiðum sé svo mjög gengið á nytjastofninn hér við land, en skyldi það koma á daginn, þá væri gremjulegt fyrir okkur að hafa ekki tekið þátt í því, á meðan aðrar þjóðir voru að ganga á okkar nytjafiskastofn. Ég óska þess, að menn skoði þetta mál alveg án nokkurs fordóms, og tel, að það verði nú þegar að gefa mönnum sem mest frjálsræði með þennan veiðiskap, sem sé skarkolaveiðina.