07.04.1937
Neðri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Það er í raun og veru slæmt að þurfa að tefja fyrir þessu máli með löngum ræðum, af því að málið er nauðsynlegt og þarf að ganga fram á þessu þingi. Hinsvegar verður ekki gengið fram hjá öllu, sem hv. þm. Borgf. sagði, og verð ég þess vegna að fara stuttlega yfir það helzta í hans ræðu. Ég vil samt aðeins minnast á aths. þeirra 2 manna í sjútvn., sem skrifað hafa undir nál. með fyrirvara. Þeir eru nú reyndar ekki viðstaddir, en ég verð að segja, að ég held, að hvorugur þeirra sé í hjarta sínu á móti aðaltilgangi málsins, þó að þeir hafi haft þennan fyrirvara, og ég vænti þess, að þeir láti ekki þær meira og minna léttvægu ástæður, sem komu þeim til þess að skrifa undir nál. með fyrirvara, standa málinu fyrir þrifum.

Hv. þm. Borgf. minntist á þann grundvöll, sem nú væri aðallega undir flutningi þessa máls, sem sé skýrslusöfnun Fiskifélags Íslands, og innti eftir, hver hefði fyrir því staðið, að Fiskifélagið hóf þessa skýrslusöfnun. Ég skal upplýsa það, að þessi skýrslusöfnun fór fram eftir tilmælum formanns sjávarútvegsnefndar, og ég veit ekki, hvað saknæmt er í því, eða til hvaða aðilja hefði verið réttara að snúa sér til þess að fá sjómenn til að segja álit sitt frá eigin brjósti, óháð áróðri annara manna um það, hvernig þeim líkaði við þetta veiðarfæri. Ég held, að formaður sjútvn. hafi í þessu máli ekki gert annað en það, sem rétt var, og ég fæ ekki skilið, að Fiskifélag Íslands sé ámælisvert, þó að það yrði við þessum tilmælum. Því er skylt að fylgjast með fiskveiðum landsmanna og ekki síður nýmælum í þeirri grein og benda á það, sem betur má fara í því efni, ef unnt er. — Þá fyrtist hv. þm. Borgf. út af því, að Fiskifélagið hefði eingöngu leitað álits dragnótaveiðimannanna sjálfra í þessum efnum. Það er augljóst, að álit dragnótaveiðimannanna sjálfra er það mikilsverðasta um gagnsemi sjálfrar dragnótarinnar; það þarf ekki að lýsa eftir áliti annarra manna, sem eru andvígir þessari rýmkun á l. vegna þess að það álit kemur aðallega fram í mismunandi formi, þó að það álit sé ekki alltaf á sama hátt rökstutt, alveg eins og mótmæli hv. þm. Borgf. gegn þessu máli eru rökstudd á ýmsan veg, eftir því sem honum hefir þótt bezt við horfa á hverju þingi.

Hv. þm. Borgf. talaði í þessu sambandi um blekkingar af hálfu Fiskifélagsins eða n. Ég vil mótmæla því alveg afdráttarlaust, að hér sé um nokkra blekkingartilraun að ræða, hvorki af hálfu Fiskifélagsins eða n. Fiskifélagið sendi prentuð spurningaform í hinar ýmsu veiðistöðvar og bað menn að segja álit sitt. Þeir eru þarna óháðir óróðri annarra manna og geta skrifað niður sínar aths., án þess að Fiskifélagið eða aðrir beiti sér fyrir því að fá nokkurn sérstakan blæ á þessar umsagnir fiskimannanna. Þá greip hv. þm. Borgf. í bunkann, sem hér liggur fyrir og í eru umsagnir fiskimanna víðsvegar af landinu um dragnótaveiðina. Um þessar umsagnir höfðum við leyft okkur að segja í nál., að þær væru mjög á einn veg. Hv. þm. Borgf. kallaði þetta falsað af hálfu n. og vitnaði í því efni til 2 umsagna, sem hann las upp, af þeim ca. 50, sem hér liggja fyrir. (PO: Miklu fleiri). Ég tók ekki eftir, að hann læsi nema 2, kannske 3. Það er nú svo í raun og veru, að í 2 af þeim 50 umsögnum, sem hér liggja fyrir, koma fram andmæli gegn dragnótaveiðunum beinlínis, og 2 álitin eru það óskýr, að það má finna út úr þeim bæði mótmæli og meðmæli. Öll hin álitin eru eindregið því í vil, að rýmkað sé um ákvæði dragnótalaganna. Til þess að rökstyðja þessi ummæli mín, vil ég benda á það, að hv. þm. Borgf. tók hér eitt dæmi, bréf Jörundar Jóhannessonar og Brynjólfs Jóhannessonar frá Hrísey, og taldi það mjög sínum málstað í vil. Þetta bréf er þannig, að það getur verið bæði með og móti. Hv. þm. Borgf. las það upp úr því, sem honum fannst styðja sinn málstað. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Það er réttmætt og sjálfsagt, að landhelgin sé lokuð fram á haust, eins og nú er, en síðan opin 2–3 mánuði minnst.“ — Í þessu sama bréfi segir líka, fyrr í bréfinu: „Að mínu áliti getur naumast verið um að ræða nema tvær ástæður, til að leggja þurfi hömlur á þetta veiðarfæri innan landhelgi. Önnur ástæðan er sú, að dragnótin „róti“ upp sjávarbotninum og eyðileggi þar með æti, sem fiskur kann að „liggja í“. Þessu er til að svara, að dragnót verður ekki komið við nema á hreinum sandbotni, þar sem aðeins kynni að vera skel, sem nótin setur á yfirborð botnsins, með því að draga sandinn ofan af henni og ef til vill brjóta hana, og gerir fiskinum á þann hátt auðveldara að ná sér í æti, og má því fremur telja kost en ókost“.

Þetta segir hann um fyrri ástæðuna.

„Hin ástæðan fyrir því, að banna eigi dragnótaveiði, er sú að sumra áliti, að hún eyðileggi ungviði fiskjarins, sem kynnu að halda sig á þeim stöðum, sem dragnótin er notuð. Þessi ástæða fellur einnig um sjálfa sig að mínu áliti. Möskvi dragnótarinnar er það stór, að öll smáseiði smjúga auðveldlega í gegnum hana, og auk þess verður dragnótin aldrei dregin svo hart, að sú straumiða myndist í nótinni, sem skaðleg gæti verið fyrir ungviði fiskjarins, en botnvarpan hlýtur aftur á móti að vera mjög eyðileggjandi fyrir ungviði, því að hún er venjulega dregin með 4–5 sm. hraða á klst.“.

Þetta segir nú höfuðvitni hv. þm. Borgf. í upphafi síns bréfs, þó að hann komi með hina setninguna, sem hv. þm. hafði upp eftir honum, í niðurlagi bréfsins. En svo eru 45 vitnisburðir, sem hér liggja fyrir öllum hv. þm. til sýnis, sem aftur á móti eru algerlega meðmæltir dragnótaveiðum í landhelgi. Ég skal ekki lengja þetta mjög með því að lesa upp alla þá vitnisburði, en vil aðeins benda á ummæli nokkurra manna. Hér eru ummæli eins manns úr Vestmannaeyjum: „Tel dragnótina hagkvæmasta og áhættuminnsta veiðarfærið, sem notað er hér. Þetta er 13 ára reynsla mín. Það hefir oft gefið mér góðan arð, en sjaldan tap“. Annar maður í Vestmannaeyjum, sem hefir ritað mjög ýtarlegt bréf, kemst svo að orði m. a.: „Samkvæmt minni reynslu hér á vertíðinni er ekki hægt að álíta, að dragnót skemmi neitt fyrir þorskfiskiríi, því að maður fær fyllilega eins góða ístöðu í net og lóð á dragnótasvæðunum eins og þar, sem dragnót er ekki notuð“. Og á hinum staðnum, hér við Faxaflóa, þar sem dragnótin hefir verið mest notuð að undanteknum Vestmannaeyjum, eru umsagnirnar allar á einn veg. Ég skal aðeins benda á eina þeirra því til sönnunar. Þar segir svo: „Álítum þetta veiðarfæri mjög gott og teljum enga ókosti á því, ef menn stunda það með gætni og kunna til þess vel. Óskum, að lögð sé niður öll hreppapólitík og allar hreppasamþykktir, sem hafa orðið öllum til stórskaða“.

Þessum upplestri skal nú vera lokið af minni hálfu, því að umsagnir þessar liggja hér fyrir hverjum manni í þessari hv. d. til sýnis. — En þetta sýnir ákaflega flausturslegan málflutning af hálfu hv. þm. Borgf., að halda því fram, að n. fari með falsanir, þegar hún réttilega segir, að álit fiskimannanna séu yfirleitt mjög á einn veg í þessum málum.

Þá minntist hv. þm. á það, að einn maður á Vestfjörðum héldi því fram, að bannið þyrfti að standa hæfilegan tíma. Þetta fer ekkert í bága við skoðun n. Skv. till. n. er banninu ætlað að standa 5½ mánuð sunnanlands og 6½ mánuð norðanlands.

Hv. þm. hefir á undanförnum árum haldið mörgu og margvíslegu fram í sambandi við þetta mál til þess að hnekkja því. Ein höfuðröksemdin á þingunum 1932 og 1934 var sú, að veiðarnar gæfu engan arð; þær væru öllum til tjóns, en engum til ábata. Þetta má finna í ræðum hv. þm. frá þeim tíma. Hér er skjalleg sönnun fyrir því, að síðastl. sumar hafi veiðarnar yfirleitt gefið góðan arð. Ég skal benda á það, að hjá einum bát, sem hér hefir gefið skýrslu, hefir hásetahlutur orðið 1360 kr. yfir sumarið. Sá bátur er frá Vestmannaeyjum; en bátur héðan frá Reykjavík, sem ég hefi nýlega frétt um, hefir sennilega skilað ennþá betri hásetahlut, og þar af leiðandi betri afkomu. Tíminn hefir leitt það greinilega í ljós, að sú mótbára hv. þm. Borgf., að veiðarnar verði engum til ágóða, hefir verið langt frá því að vera rétt, enda er hv. þm. að mestu horfinn frá því að halda þeirri firru fram.

Þá minntist hv. þm. Borgf. á reglugerðarákvæðið og taldi, að möskvastærðin hefði ekkert að þýða, og gerði gys að till. n. um lágmarksþyngd þess fiskjar, sem veiddur væri í dragnót og hafður til sölu. Í sömu andránni var hv. þm. að dást að þeim fundi vísindamanna, sem haldinn var í Lundúnaborg fyrir skemmstu, og áliti þeirra, sérstaklega með tilliti til friðunar Faxaflóa. Þó að hv. þm. Borgf. álíti, að ákvæði um möskvastærð sé algerlega þýðingarlaust að því er snertir dragnótaveiðar við Ísland, og þó að hann með hnittilegum orðum geri gys að því, að ákvæði séu hér lögleidd um lágmarksþyngd á fiski, þá þykir mér rétt að benda honum og hv. dm. á það, að þeir ágætu vísindamenn, sem komu saman í London, höfðu einvörðungu þau verkefni með höndum að ræða um nauðsyn á samþykkt um möskvastærð á veiðarfærum og lágmarksþyngd á fiski til þess að vernda fiskstofninn. Þetta ætti að nægja, jafnvel líka hv. þm. Borgf., til þess að sýna honum og sanna, að álit n., sem kemur fram í till. hennar, fer ekkert í bága við álit þeirra alþjóðlegu sérfræðinga, sem sátu fundinn í London. Jafnframt því sem hv. þm. Borgf. söng þeim verðugt lof, sem sátu Lundúnafundinn, hefir hann jafnan talið álit okkar íslenzku sérfræðinga harla léttvægt í þessum efnum. Það er sem sé kunnugt, að bæði Bjarni Sæmundsson og magister Árni Friðriksson hafa mælt með því, að Íslendingum yrði leyft að nota öll veiðisvæðin þann tímann a. m. k., sem ekki er hrygningartími. En hv. þm. Borgf. hefir alla jafnan litið niður á till. þessara sérfræðinga, af því að þær fóru í bága við þær skoðanir, sem hann vildi berjast fyrir. Ég álít, að við, sem ekki erum sérfræðingar, heldur leikmenn í þessu máli, en berjumst hinsvegar fyrir — ég vil segja — þeirri stefnu í málinu, sem er viturlegri, — fyrir því að íslenzkir fiskimenn fái að njóta þeirrar aðstöðu, sem þeir hafa, til þess að veiða þennan fisk, — því að það er vitanlegt, að þó að þeim sé bægt frá því, þá er fiskurinn að meira eða minna leyti gripinn úr höndum þeirra af útlendum veiðiskipum — ættum að taka hæfilegt tillit til álits sérfræðinganna, jafnvel þó að það fari í bága við okkar álit. En nú vill svo til, að álit þeirra sérfræðinga, sem við þekkjum bezt, fer saman við skoðun sjútvn. og okkar annara, sem viljum rýmka veiðirétt landsmanna.

Hv. þm. Borgf. er allra manna rökvissastur og allra manna fastheldnastur á sínum málstað. Það er mér vel kunnugt um. Hann beindi því, að því er mér helzt skildist, til mín, að ég hefði stundum verið nokkuð djarftækur á röksemdir í þessu máli, eins og öðrum. Ég kannast ekki við, að ég hafi verið djarftækari á röksemdir í þessu máli en lög stóðu til. Ég hefi greinilega afsannað þau ummæli hv. þm., sem hann viðhafði um nál., sem ég er ábyrgur fyrir ásamt öðrum nm. Ég hefi afsannað, að við hefðum þar farið með ógætileg orð, að ég ekki tali um falsanir í sambandi við skýrslur Fiskifélagsins, sem hér liggja fyrir. Ég get fúslega játað, að ég er ekki eins mikill bardagamaður til þess að bera fram þann málsstað, sem ég tala fyrir, eins og hv. þm. Borgf. og sjálfsagt ekki eins fimur að aka seglum eftir vindi hvað röksemdir snertir eins og hann. Hann hefir á undanförnum árum haldið ýmsu fram í sambandi við þetta, sem reynslan hefir hnekkt. En hið síðasta vígi, sem hann hefir tekið sér, er, eins og seinni partur ræðu hans leiddi í ljós, friðun Faxaflóa.

Þá minntist hann á Londonarfundinn og að þar hefði hugmyndin um friðun Faxaflóa verið tekið til athugunar. Þetta mun vera rétt. Það fékkst fyrir harðfylgi sendimanna Íslands að taka þessa ákvörðun, en þar með er ekki sannað, að þetta nái staðfestingu, án þess að ég vilji nokkru um það spá. En þó að við rýmkuðum fyrir dragnótaveiði okkar Íslendinga, jafnvel líka við Faxaflóa, þá stendur það öfugt í höfðinu á hv. þm. Borgf., að það þyrfti að vera þröskuldur í vegi fyrir því, að Faxaflói fáist friðaður seinna meir. Hvað það snertir, að menn hafi mikið álit á Faxaflóa sem klakstöð fyrir ungviði, þá skal ég ekki neita því. En ef til þess kemur, að Faxaflói fáist friðaður, þá geri ég ráð fyrir því, að útlendingar muni ekki gleyma að setja fram gagnkröfu. Og stöndum við þá ekki betur að vígi, ef við erum áður búnir að þrengja svo aðstöðu okkar fiskimanna, að hvergi er hægt á að slaka? Það er síður en svo, að það mundi gefa friðun Faxaflóa neinn byr í seglin, þó að við meinuðum bátunum við Ísland að fiska í dragnót á þessu svæði. Og það er síður en svo, að það mundi spilla fyrir því, að þessi hugmynd um friðun Faxaflóa verði að veruleika, því að ef við fáum samþykki útlendinga til þess, þá krefjast þeir áreiðanlega, að við fórnum einhverju verulegu í staðinn af veiðirétti. Nei, hér er ekki um annað að ræða en eina tilraun til þess að koma í veg fyrir, að þingið geri þær tilslakanir á l. sem þarf, til þess að landsmenn geti hagnýtt sér þessar veiðar.

Ástandið er hinsvegar þannig, að fiskimenn, bæði hér við flóann og annarsstaðar, eiga allra erfiðast með sína afkomu. Og þó að mikið sé rætt um viðreisn sjávarútvegsins og hjálp honum til handa, þá er minna í það varið, á meðan það er ekki nema aðeins skrifað niður sem hugmyndir manna í frv. og blöðum, heldur en þær lagfæringar, sem hægt er að gera þegar í stað til þess að opna mönnum aðgang að meiri veiðum og bættum atvinnuskilyrðum, en það fullyrði ég, að megi gera með því að samþ. brtt. þær, sem hér liggja fyrir frá flm. þessa frv. og hv. sjútvn. Hreppapólitíkin, sem fordæmir þessa veiðiaðferð, á að hverfa. Og fordómar manna, sem ekkert hafa fyrir sér annað en lausar umr. og órökstutt álit andstæðinga veiðanna, eiga líka að víkja fyrir þeirri nauðsyn, sem er á því, að bæta úr atvinnu fiskimannanna.

Hv. þm. Borgf. hefir undanfarin ár þráfaldlega vitnað í reynslu sjómanna á þessum sviðum. En sú reynsla sjómanna við dragnótaveiðarnar, sem frambærileg er hér á Alþingi, liggur fyrir í þeim skýrslum, sem ég hefi áður minnzt á og skrifaðar eru með eigin hendi þeirra sjómanna, sem hér eiga hlut að máli. Sú reynsla bendir í þá átt, að það sé rangt að standa í vegi fyrir því, að bátarnir geti hagnýtt sér dragnótaveiðar.

Ég skal viðurkenna, að tilslakanir á þessum l. og barátta mín og annara fyrir því að fá þeim framgengt átti minni rétt á sér fyrir 3 eða 4 árum síðan, meðan möguleikar ýmsra veiðistöðva voru mjög takmarkaðir, hvað snerti hagnýtingu aflans, og þá var miklu minni arður að þessum veiðum. En nú er, fyrir framtak einstakra manna og hjálp opinberra stofnana og fyrir atbeina löggjafarvaldsins, stefnt að því að gera þessa möguleika sem bezta með byggingu frystihúsa. Þess vegna horfir málið nú skýrar og ljósar við, hvað snertir hina fjárhagslegu afkomu, en nokkru sinni fyrr.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr. meira. Ég hefi ávallt barizt fyrir þessu máli, og að vísu teflt fram þeim rökum, sem mér hafa virzt sterkust, án þess þó að ég vilji viðurkenna, að ég hafi verið of djarftækur á þau. Mér virðist, að reynslan hafi leitt í ljós, að það hafi verið vel þess vert fyrir mig og aðra, sem hafa tekið á sig þung ámæli andstæðinga þessarar rýmkunar á l., þegar litið er á árangurinn af dragnótaveiðunum og þann arð, sem þær hafa gefið. Ég er því jafnfús til þess enn, að taka á mig ámæli í þessum efnum og berjast fyrir framgangi þessa máls, og nokkru sinni fyrr. Ég vona, að þeir, sem veitt hafa þessu andstöðu — andstöðu, sem ég vil leyfa mér að fullyrða, að sé að miklu leyti byggð á hreppapólitík og misskilningi — fari að sjá að sér, einkum með tilliti til þess, að ástæður ýmissa manna í veiðistöðvunum eru nú á þann veg, að bráðaðkallandi þörf er á því að bæta úr því eins og unnt er.