08.04.1937
Neðri deild: 33. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í B-deild Alþingistíðinda. (838)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Pétur Ottesen:

Ég held, að ég verði að byrja á að vekja athygli hæstv. forseta á því, að aðaldragnótamennirnir hafa nú horfið úr d., og vil ég skjóta því til hæstv. forseta, hvort hann vildi ekki grennslast eftir, hvernig ástatt er um þessa menn. (Forseti hringir).

Hv. þm. N.-Þ., sem síðast talaði, benti alveg réttilega á það, sem ekki hafði áður komið fram við þessa umr., hver stefnubreyt. hér er á ferðinni, þar sem Alþingi hefir talið ekki einu sinni rétt, heldur einnig sjálfsagt að viðurkenna sjálfsákvörðunarrétt héraðanna í landinu til að nota slíkt veiðarfæri sem dragnótin er, og hversu gersamlega þetta, sem nú kemur hér fram, brýtur í bága við þessa stefnu Alþingis, og jafnframt, hve varhugavert það er í raun og veru að stíga slík spor sem þessi án þess að leita í nokkru álits þessara aðilja, og án þess að nokkuð hafi komið fram um það, að þeir vilji slaka til á þessum rétti sínum. Þetta virðist því vera nokkuð mikil einræðiskennd og nokkur harðleikni, sem fram kemur af hálfu þessara manna, sem telja sig vera ákaflega mikla lýðræðissinna, sem vilji taka tillit til kjósendanna og fjöldans. Alstaðar þykjast þeir vilja láta almenning ráða. Allar reglur og öll l. skuli færast í það horf, að vilji fjöldans komi fram. En hvernig kemur svo þetta lýðræði þeirra fram í þessu máli? Jú, það kemur þannig fram, að hér á að takmarka svo geipilega sem unnt er einmitt þennan sjálfsákvörðunarrétt fjöldans, sem þeir eru að tala um, að eigi að vernda og verja og fara eftir í einu og öllu. Það er stundum svo, að orð og verk eru sitt hvað og rekast stundum allóþyrmilega á, og mér virðist það koma kannske einna átakanlegast fram í þessu frv. Þetta sýnir jafnframt það, hvað mikil alvara er á bak við allt þetta tal um, að einstaklingarnir í þjóðfél. eigi að ráða og þeirra álit og vilji að vera ráðandi í framkvæmd hlutanna. Og eins og hv. þm. N.-Þ, sagði, þá er þetta mál fullkomlega þess vert að athuga það atriði þessa frv., að felldur skuli niður þessi viðurkenndi sjálfsákvörðunarréttur héraðanna, í sambandi við þetta sífellda tal um, að það sé fjöldinn, sem eigi að fá að ráða.

Háttv. dragnótamenn vörðu hér miklum tíma í gærdag til þess að reyna að hnekkja því, sem ég hafði sagt, að ég kynni ekki við þessa aðferð, sem Fiskifélag Íslands sem opinber stofnun hefði beitt við þessa skýrslusöfnun, eða hvernig grundvöllurinn hefði verið lagður að þessari skýrslusöfnun. Þessir dragnótamenn og rányrkjumenn á sjónum og forstandsmenn að rányrkjunni í landhelgi þessa lands hafa reynt að hnekkja þessum orðum mínum. Ég benti á það allrækilega, að tilgangurinn með þessari skýrslusöfnun hefði átt að vera sá, að fá sem gleggsta hugmynd um, hvernig fiskimenn úti um allt land litu á dragnótaveiðina, og skapa þannig grundvöll í málinu, sem byggja mætti á. Þetta var fyrst og fremst tilgangurinn. Má því öllum vera ljóst, þar sem þetta var framkvæmt þannig, að eingöngu var snúið sér til þeirra manna, sem dragnótaveiðar stunda, en algerlega gengið framhjá hinum, hvernig með slíkum hætti er hægt að afla skýrslna, sem gefi til kynna almennan vilja sjómannanna í landinu. Í þessu kemur líka fram, ekki síður en því atriði, sem hv. þm. N.-Þ. minntist á, hvernig þessir menn, sem alltaf eru með það á vörunum, að fjöldinn eigi að ráða, vinna að því að láta vilja fjöldans koma sem bezt fram, að þarna taka þeir einungis til greina álit þeirra fáu manna, sem dragnótaveiðar stunda, en ganga alveg framhjá hinum, sem eru miklu fleiri. Út frá þessu vilja þeir svo draga almenna skoðun og álit fiskimanna í þessu efni. Hér hefir því Fiskifélag Íslands lagt algerlega rangan grundvöll og hlutdrægan, að því er snertir almennan vilja fiskimanna, og svo misnotar sjútvn. þetta í samræmi við þennan tilgang og dregur af þessu aðra ályktun, að þarna komi fram hinn almenni vilji fiskimanna landsins, sem er vitanlega algerlega rangt. Þessar skýrslur eru líka til komnar að tilhlutun sjútvn., og þeir hafa sjálfsagt stýrt pennanum, þegar þessum skýrslum var safnað, og þeir hafa haldið áfram að stýra pennanum eingöngu til þess að geta notað þetta sem blekkingaratriði gagnvart þinginu. Svona er nú undirstaðan undir þessari skýrslusöfnun, og svona eru þær notaðar hér á þingi. Þarna er þeim hlutum alveg rétt lýst. Það er því alveg tilgangslaust fyrir þessa háttv. dragnótamenn og rányrkjumenn á sjónum að reyna að hnekkja nokkru af því, sem hér hefir verið sagt um tilganginn með og meðferðina á þessum skýrslum.

Þá benti ég ennfremur á hitt, tilhneigingu n. til þess að fara ekki einu sinni rétt með það, sem í skýrslunum stendur, því að þau andmæli, sem þarna standa gegn dragnótinni, og lýsingar á skaðsemi þessa veiðarfæris fyrir allar fiskveiðar, sem fram koma í þessum skjölum og mér tókst að reka augun í á þeim örfáu mínútum, sem ég hafði þessi skjöl í höndum, því að þegar ég hafði lokið ræðu minni, voru þessar skýrslur á augabragði teknar af mér, svo að mér hefir enginn kostur gefizt á að gagnrýna þær og athuga sem vert væri. (Þm. Vestm. leggur mikinn skjalabunka á borðið fyrir framan þm. Borgf.). Já, nú eru mér afhentar skýrslurnar, þegar ég er með mína síðari ræðu og get ekki lesið þær fyrr en ég er dauður og má ekki tala oftar. Þarna kom nú alveg rétt og glögg lýsing á aðferðum og vinnubrögðum þessara hv. dragnótamanna. Þar með legg ég þessa göfugu speki við hliðina á mér, og ætla ég þá að ljúka við það, sem ég var að segja, þegar hv. þm. Vestm. rétti þetta dýrmæti að mér. Þeir reyna að verja þetta atriði með því að segja, að ég hafi ekki lesið nema tvö bréf, en þeir voru 6 staðirnir, sem ég vitnaði í. Hv. 3. landsk. sagði líka, að ég hefði lesið það fyrst, sem ég las síðast. Einnig þetta atriði, þótt smátt sé, sýnir, hvernig þessir hv. dragnótamenn og rányrkjumenn á sjónum hafa hausavíxl á öllu.

Til þess að reyna að hnekkja þessu var lesið upp úr bréfi frá Jörundi í Hrísey, þar sem átti að vera farið lofsamlegum orðum um dragnótaveiðina, og þótti forsvarsmönnum þessa máls þetta ekki koma vel heim við það, sem ég las, en gátu þó ekki hnekkt neinu, því að þetta stóð í bréfinu. En ég vil spyrja: Hvernig stendur á því, að Jörundur í Hrísey svo að segja endar sitt bréf á að segja, að hann sjái sér ekki fært að stunda þessa veiði, nema sem svarar 3 mánuðum á ári, og einmitt þann tíma, sem heimilt er að nota þessa vörpu. Ef ekki má byggja eitthvað á því, sem verður niðurstaðan hjá þessum hv. bréfritara, þá veit ég ekki, hvað það er, sem á að byggja á, því að þetta er ályktun, sem hann dregur af sinni reynslu sem dragnótamaður, að hann telur, að ekki sé rétt að leyfa neina rýmkun. Og svo taka þessir hv. dragnótamenn og rányrkjumenn á sjónum þetta sér til inntekta, sem eru hin kröftugustu mótmæli gegn þeirri dragnótaveiði, sem þeir fara fram á í sínu frv. En jafnvel þó að ég hefði lesið skakkt, þá væri það ekki nema vorkunnarmál, þar sem ég hefi ekki fengið að hafa skýrslurnar nema örstuttan tíma, en þeir hafa legið á þessum skjölum eins og ormar á gulli og sogið úr þeim allan merg og kraft, sem þeir hafa getað, og lagt í þetta nál. sitt og ræður um þetta mál.

Viðvíkjandi því, að þetta veiðarfæri sé ekki skaðlegt gagnvart öðrum fiskveiðum, þá liggur hér ekkert fyrir um það. Hér liggja engar skýrslur fyrir nema frá dragnótamönnum. Ef menn eiga að fá réttar ályktanir um þetta mál, hversu mikil raunveruleg gagnsemi sé af þessum dragnótaveiðum, sem þeir telja, að gefi útflutningsvöru fyrir 70 þús. kr., þá verða að liggja fyrir upplýsingar frá öllum, sem stunda fiskiveiðar hér við land og hvað mikið þær veiðar, sem stundaðar eru með öðrum veiðarfærum en dragnótinni, rýrna fyrir dragnótaveiðina. Og þegar sú rýrnun er dregin frá þeim tekjum, sem dragnótaveiðin gefur, þá fyrst er hægt að sjá, hvað miklar tekjur raunverulega fást af þessari veiði, og ég er sannfærður um, að hagnaðurinn verður enginn, heldur það gagnstæða. En framhjá þessu er algerlega gengið, og það er gert vitandi vits og að yfirlögðu ráði til þess að geta komið með fullkomlega hlutdrægan samanburð í þessu máli, og svo er það notað til að draga af því almenna ályktun.

Ég ætla ekki að fara langt út í það, er hv. forsvarsmenn þessa máls voru að tala um það fangaráð, sem þeir þóttust hafa fundið upp á, að stækka möskvana á dragnótunum, sem þeir nefna „ákvæði um lágmarksþyngd fiskjar, sem veiddur er í dragnót og hafður til sölu“. Ég hefi áður bent á, að þetta er fánýtt, nema ætti að setja eftirlit á sjávarbotni til að ekki færi í þetta veiðarfæri fiskar nema af vissri stærð. En það, sem þýðingu hefir í þessu efni, er það, að allt, sem í þessa vörpu fer, verður fyrir sömu tortímingunni, hvort sem það er nytjafiskur eða ungviði. Vitanlega tortímist þetta, og það er niðurskurður á þeim stofni, sem nytjafiskurinn vex upp af. Svo fíngert veiðarfæri sem dragnótin er, hefir þetta ákvæði því enga praktíska þýðingu, svo framarlega sem nótin er ekki þannig, að hún sleppi svo og svo miklu af nytjafiski í gegnum sig líka. Það getur verið, að gagnvart botnvörpunni hafi þetta meiri þýðingu, því að það veiðarfæri er allt miklu stórfelldara; það er ekki eins næmt og gengur ekki eins nærri. Þó held ég, að reynslan hafi sýnt, að það eina, sem verulega þýðingu hefir, til þess að sporna á móti eyðingu fiskstofnsins, þar sem botnvörpur og dragnætur eru notaðar, sé að koma á meiri friðun, þannig að landhelgin sé ekki fullnægjandi til þess að vernda ungviðið fyrir tortímingu þessara veiðarfæra, heldur þurfi að færa mikið út kvíarnar í þessu efni, ef ekki á að stefna út í beinan voða. Þetta ákvæði um möskvastærðina er því ekki í þessu sambandi til annars en að slá ryki í augu manna og til þess að friða vonda samvizku, sem virðist dálítið farið að bóla á hjá dragnótamönnum þessarar hv. deildar, þessum rányrkjumönnum sjávarbotnsins.

Forsvarsmenn þessa frv. hafa allmikið haft á oddinum fiskifræðinga þessa lands, bæði fyrr og síðar, og þó einkum og sérstaklega Árna Friðriksson. Hann hefir verið þeirra sverð og skjöldur, sem þeir hafa borið fyrir sig í tíma og ótíma, er þeir hafa verið að telja mönnum trú um, að fiskstofninum hér við strendur landsins stafaði ekki svo mikill háski af botnvörpu- og dragnótaveiðum eins og sjómenn og fleiri vildu láta í veðri vaka. Ég hefi áður bent á, að í skjali því, sem Árni Friðriksson sendi Alþingi um þetta efni, skaut því upp hjá honum, að hann byggist við, að afleiðingin af því að leyfa dragnótaveiðar, eins og lagt er til í þessu frv., miklu lengri tíma að sumrinu og afnema héraðabönnin, gæti orðið sú, að gera þyrfti sérstakar friðunarráðstafanir gagnvart kolanum, til þess að hann yrði ekki alveg uppurinn hér við strendur landsins. Svo að þessu leyti er álit Árna Friðrikssonar ekki ótvíræð heimild, eða öllu leyti innlegg fyrir málstað þessara manna, eins og þeir vilja vera láta. Það má öllum vera ljóst, hvaða þýðingu það hefði fyrir þjóðina, ef svo nærri væri gengið fiskstofninum við strendur landsins, að við gereyðingu lægi, jafnvel þó að hægt væri að bjarga honum við aftur með friðunarráðstöfunum. Það mundi koma tímabil, meðan fiskurinn fengi ráðrúm til að vaxa upp aftur, sem erfitt gæti orðið fyrir þjóðina að komast yfir. Ég skal í þessu sambandi, úr því að alltaf er verið að tala um Árna Friðriksson og nota álit hans sem meginröksemd í þessu máli, benda á nýleg ummæli eftir honum, sem dragnótamönnunum hefir ekki þótt ástæða til að láta koma fram við þessa umr. Þau ummæli komu fram á nýafstöðnu fiskiþingi og snerta nokkuð þetta mál. Á þessu fiskiþingi var meðal annars tekin til meðferðar þáltill., sem samþ. var á síðasta Alþingi og við hv. þm. G.-K. vorum flm. að. Í því sambandi var því hreyft, að einhver mistök mundu hafa orðið á því að koma þessu mikla nauðsynjamáli á framfæri á fundi, sem stóð til að halda í London. Þessum umræðum um það, hver nauðsyn væri fyrir okkur Íslendinga að fá frekari friðun á fiskimiðum vorum heldur en nú er, tók Árni Friðriksson m. a. þátt í, og upplýsti hann, að verið væri að draga saman gögn fyrir því, hver höfuðnauðsyn væri á því fyrir alla, sem fiskveiðar stunda við strendur Íslands, að fá meiri friðun á komið. Hann segist játa það, að fiskstofninn sé að ganga til þurrðar, og að því sé tímabært að taka til athugunar friðun á einstökum fiskisvæðum. Þetta segir Árni Friðriksson þarna á fiskiþinginu, að nú sé svo komið hjá okkur, að fullkomlega sé tímabært að fara að taka til athugunar friðun á ýmsum fiskisvæðum til þess að viðhalda fiskstofninum við strendur Íslands, og það er einmitt hann, sem fenginn er til að skrifa álitsskjal um viðhorfið í þessum efnum hér heima, sem átti að leggja fyrir þennan fund, sem haldinn var í London og hafði *hliðstæð málefni til meðferðar. Ég hefi séð eftirrit af þessu álitsskjali Árna Friðrikssonar, þar sem hann færir góð og gild rök fyrir því, að ef haldið verður áfram í sama horfi og verið hefir með botnvörpuveiðar hér við land — og á hann þá vitanlega við dragnótaveiðar ekki síður — þá stefni til þess, að stórkostleg fiskfækkun eigi sér stað, og því sé það hagsmunamál allra þeirra, sem fiskveiðar stunda við strendur Íslands, að fá landhelgina færða út. Er þá sérstaklega bent á Faxaflóa til friðunar, því að af fiskiveiðum hér við land innfjarða sé sá staður langsamlega bezt til þess fallinn að vera klakstöð. (JJós: Hann er að tala um botnvörpuveiðar). En það er nákvæmlega sama máli að gegna um dragnótaveiðarnar, nema hvað þær eru að því leyti hættulegri, að botnvarpan er notuð utan landhelgi, en með dragnótinni er hægt að sópa allar víkur og voga, þar sem ungviðið leitar skjóls við strendur landsins. (JJós: Segir Árni Friðriksson það?). Nei, en rannsóknirnar sýna það, sem gerðar hafa verið með Þór og fleiri skipum, að geysilegur munur er á því, hvað fiskmergðin er meiri innan landhelginnar en utan. Af hverju stafar það? Af því að afleiðingar botnvörpuveiðanna eru farnar að koma fram utan landhelginnar, en áhrif hinna hliðstæðu veiða með dragnótum inni á fjörðum og flóum hafa að undanförnu ekki verið farin að segja til sín nema í litlum mæli. Hitt er vitanlegt, að þegar þetta frv. er orðið að l., verða dragnótaveiðarnar ekki aðeins jafnskæðar, heldur miklu skæðari heldur en botnvörpuveiðarnar utan landhelgi.

Það væri vitanlega enginn grundvöllur undir okkar kröfum um aukningu á landhelginni, ef svo ætti ekki að verja landhelgina algerlega fyrir allri botnvörpu- og dragnótaveiði. Því hvað ætli útlendingar fari að gefa eftir rétt sinn til fiskveiða hér, ef við svo eyðileggjum þann árangur, sem af því gæti fengizt, með auknum dragnótaveiðum innan landhelgi? Slíkt nær vitanlega ekki nokkurri átt. Ef við nú, samtímis því að við leitum til Englendinga og annara stórþjóða, sem hér eiga hagsmuna að gæta, um rýmkun landhelginnar, ætlum að opna landhelgina upp á gátt fyrir dragnótaveiðum, ekki aðeins okkar, heldur einnig Dana og Færeyinga, þá er algerlega hruninn grundvöllurinn undan því, að við séum af friðunarástæðum að fara fram á þetta. Í augum hinna erlendu þjóða er þá ekki eftir önnur ástæða en sú, að okkur Íslendingum þyki gott að sitja einir að veiðunum inni á vissum svæðum og viljum þannig ganga á rétt þeirra, án þess að þær fái nokkurt öryggi á móti. Sá alvarlegi hlutur liggur því fyrir, að ef þetta spor er stigið, sem hér er farið fram á, þá er ekki aðeins frestað um ófyrirsjáanlega framtíð væntanlegum árangri af því, að við höfum nú fengið Englendinga til þess að líta á nauðsyn okkar og taka þetta mál fyrir til athugunar, heldur líklega loku skotið fyrir alla möguleika í því efni. Það er þetta, sem menn verða að gera hér upp við sig, hvort þeir vilja taka þá stundarhagsmuni, sem menn kunna að geta haft af dragnótaveiðum hér við land, fram yfir þá hagsmuni, sem í því felast að fá rétt til þess að færa út takmörk hins friðaða svæðis. Um þetta greiða menn atkv., svo framarlega sem menn líta á málið frá réttu sjónarmiði.

Ég býst alveg við því, að ef leitað væri álits sjómanna almennt um gagnsemi og skaðsemi dragnótaveiðanna, þá mundi útkoman verða sú, að það væri síður en svo ávinningur að dragnótaveiðunum, þegar á allt er litið, miðað við veiðileyfi núgildandi löggjafar, hvað þá ef opnað væri upp á gátt, eins og hér er farið fram á, og skapaðir möguleikar fyrir Dani og Færeyinga til þess að stunda þessar veiðar við hlið okkar sjálfra.

Það var einhver að tala um það hér í gær, því Danir hefðu ekki komið hingað upp undanfarin ár með sína minni báta og móðurskip. Þeim hefir bara ekki þótt taka því síðari hluta sumars, þegar allra veðra er von. Hinar þröngu takmarkanir laganna hafa þannig valdið því, að Danir hafa ekki enn komið hingað nema í smáum stíl til dragnótaveiða. En þegar þeir eiga að hafa fyrir sér alla sumarmánuðina, þá horfir málið öðruvísi við frá þeirra sjónarmiði. Það mun reynslan sýna, ef svo ógiftulega tekst til, að landhelgin verður opnuð svo upp á gátt sem ætlazt er til með þessu frv.

Hv. 1. þm. Rang. hefir ekki viljað viðurkenna mikið um það hér á Alþingi, að fiskstofninum væri hætta búin af hinum miklu veiðum. Það er því bezt að láta hann koma hér fram við hliðina á Árna Friðrikssyni með ummæli sín á fiskiþinginu. Það er hér birtur útdráttur úr ræðu hans, og segir þar m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ræðumaður kvaðst játa það, að sumar fiskitegundir væru að þverra hér við land, enda væri það eðlileg afleiðing af hinum stórfelldu botnvörpuveiðum, sem reknar væru hér við land.“

Hv. 1. þm. Rang, viðurkennir hér háskann, sem af botnvörpuveiðunum stafar, og ég ætla, að það verði haldlítið, þótt hv. þm. Vestm. vilji hér e. t. v. grípa í það hálmstrá að heimfæra þetta einungis yfir á þær botnvörpur, sem togararnir nota. Hv. þm. á hér vitanlega við hverskonar botnvörpuveiðar sem er, og dragnótin er ekki síður botnvarpa heldur en sú varpa, sem togararnir hafa í eftirdragi.

Það er sorgleg tilhugsun fyrir alla landsmenn, ef svo á hér til að ganga í þessum málum og að er stefnt með þessu frv. Á síðasta þingi er samþ. till. um að reyna að fá landhelgina færða út og friða þannig tiltekin fiskisvæði. Svo er fiskifræðingur fenginn til að skrifa langa ritgerð um nauðsyn þessarar kröfu okkar, sem er byggð á því, að fiskstofninum stafar mikil hætta af öllum botnvörpuveiðum. Þetta verður til þess, að það opnast augu ráðandi manna í þeim löndum, sem rétt telja sig hafa til fiskveiða hér við land utan hinnar viðurkenndu landhelgi, svo að þeir taka í fyrsta sinni vel í málið, þótt þeir vilji að vísu fá lagðar fram þær rannsóknir, sem vísindamenn okkar hafa gert á þessu sviði og allar staðfesta, að kröfur okkar eru á rökum reistar. En svo á næsta þingi eftir að þessi stóri sigur er unninn, á að opna landhelgina upp á gátt til botnvörpuveiða fyrir alla þegna hins gamla danska ríkis og kippa þar með grundvellinum undan kröfum okkar, einmitt þegar við erum að nálgast hið langþráða takmark. Ég vænti þess fullkomlega, að þetta verði fyrirbyggt. Það verður nógu erfitt fyrir okkur að verja það út á við, að slíkar till. hafa komið fram á Alþingi, þótt þær nái ekki samþykki. Það er þung ábyrgð, sem hvílir á hv. þm., sem hér eiga að leggja niður umboð sitt eftir nokkra daga, ef þeir láta það verða sitt síðasta verk að samþ. þetta frv. og eyðileggja þar með þá möguleika, sem virðast blasa við okkur, ef við högum okkur eins og skynsamir menn, til þess að fá viðurkenningu stórþjóðanna á rétti okkar til þess að friða stærra svæði en áður og tryggja þannig framtíð fiskveiðanna hér við land til hagsbóta fyrir alla, sem þær stunda.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál. Það hafa náttúrlega komið fram fjöldamörg minniháttar atriði í þessum umr., sem ástæða væri til að svara, en það, sem ég hefi gert að umtalsefni nú, virðist aðalatriðið eins og sakir standa, og því verður að leggja á það aðalþungann.