08.04.1937
Neðri deild: 33. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (840)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Þorbergur Þorleifsson:

Ég vil ekki láta þetta mál fara svo út úr d., að ég geri ekki grein fyrir atkv. mínu með örfáum orðum.

Þetta mál hefir nú legið fyrir þing eftir þing, og hafa að sjálfsögðu komið fram öll þau rök, sem færa má bæði með því og móti. En mér blandast ekki hugur um, að það hníga öll rök meir og meir í þá átt, að það beri að leyfa dragnótaveiðar frekar en nú er. Jafnvel þótt menn geti verið í dálitlum vafa um, hvort rétt sé að leyfa dragnótaveiðar að jafnaði, þá er það ekki vafa undirorpið, að eins og nú er háttað afkomu sjávarútvegsins og atvinnulífi í landinu, er full ástæða til að reyna þá rýmkun, sem hér er farið fram á, sem einskonar kreppuráðstöfun, bæði til þess að auka atvinnu í landinu og styðja smáútveginn. Auk þess má líta á það, þegar svo ákaflega mikil gjaldeyrisvandræði eru eins og á yfirstandandi tíma, að þær fisktegundir, sem með dragnótinni eru veiddar, eru mjög verðmætar og gefa því mikinn erlendan gjaldeyri.

Eins og áður er sagt, tel ég tvímælalaust ástæðu til, undir þeim kringumstæðum, sem nú ríkja, að leyfa dragnótaveiðar. En af því að ég hefi á undanförnum þingum verið frekar andstæður því, að þessi rýmkun á banni gegn dragnótaveiðum væri veitt, þá vildi ég gera grein fyrir, af hverju það stafaði, að ég hefi skipt um skoðun í þessu máli og tel réttmætt, að sú rýmkun, sem nú er farið fram á, sé veitt.

Hv. þm. Borgf. er einn af þeim mönnum, sem skeleggastir hafa verið á undanförnum þingum í baráttunni gegn því, að dragnótaveiðar væru leyfðar. En það blandast engum hugur um það, sem hlustað hefir á ræður hans á undanförnum þingum og aftur nú, að jafnvel hann er farinn að linast í þessu máli. Við vitum, að þessi hv. þm. er bæði skeleggur og nokkuð rökfastur í sínum ræðum, en það mun engum blandast hugur um, sem heyrði síðustu ræðu hans hér í hv. d., að hann er kominn í algert rökþrot við að verja skoðun sína í þessu máli. Ég hygg, að svo muni fara, að augun opnist á fleirum og fleirum fyrir því, að ekki sé rétt að bægja sjómönnunum lengur frá þessari dýrmætu veiði.

Ég vildi með þessum fáu orðum aðeins gera grein fyrir atkv. mínu.