08.04.1937
Neðri deild: 33. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Gísli Guðmundsson:

Út af því, sem hv. þm. Ísaf. sagði um samþykkt á flokksþingi Framsóknar í vetur í þessu máli, vil ég taka það fram, að það er mesti misskilningur, að þar væri gerð nokkur samþykkt um að opna landhelgina fyrir dragnótaveiði; heldur var þar aðeins farið fram á endurskoðun á gildandi löggjöf. Ég veit að vísu, að til eru í Framsfl. menn, sem fylgja hv. þm. Ísaf. í þessu máli, en ég vil mótmæla því, að flokksþing framsóknarmanna hafi tekið afstöðu með því. Ég lýsti líka yfir því á flokksþinginu, að ég liti svo á þessa samþykkt, að flokkurinn tæki ekki með henni neina afstöðu til málsins.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að andstaðan gegn þessu máli hefði minnkað síðan í fyrra, en mér virðist ljóst af gögnum, sem hér hafa verið lesin upp, og öðrum, sem ekki hafa komið hér fram, að þetta sé með öllu ósannað mál. Sumir vilja telja, að hraðfrysting geti ekki átt sér stað nema á kola, en mér virðist, að sú aðferð geti ekki átt mikla framtíð fyrir sér, ef þetta er rétt. — Ég mun greiða atkv. með brtt. sjútvn., en á móti frv. sjálfu.