12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (853)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Thor Thors:

Þessar brtt. virðast koma nokkuð illa við hv. þm. Vestm. Það er tvennt einkennilegt við þessar umr. Annað er það, þegar hv. þm. Vestm. er að tala um hreppapólitík. Það liggur við, að manni flökri við því að heyra þennan hv. þm. tala um hreppapólitík hjá öðrum, því að ef nokkur þm. miðar sitt starf við einstakt kjördæmi, þá er það hv. þm. Vestm. Það má segja honum það að nokkru leyti til hróss, en það er þó ekki eingöngu hrós, sem í því felst. Hitt er það, að hv. þm. Vestm. og hv. 3. landsk., sem annars standa alltaf upp í hárinu hvor á öðrum, falla nú í hin innilegustu faðmlög í þessu máli. Það hlýtur eitthvað einkennilegt að liggja þar á bak við, enda er það líka svo.

Hv. þm. var að segja, að ég væri að reyna að fleyga málið og koma því fyrir kattarnef, og ég vildi þannig eyðileggja bjargræðismöguleika margra sjómanna. Ég ber brtt. mína fram til þess að vernda hagsmuni kjósenda minna, og það var skylda mín að gera það. Ólafsvíkingar eru mjög aðþrengdir vegna undangengins aflaleysis, og þeirra eina von til bjargar er það, ef þeir geta náð sér í dragnætur og komið upp hraðfrystihúsi til þess að hagnýta kolamiðin, sem eru rétt við víkina. Nú vill hv. þm. Vestm. stofna til þess að eyðileggja þetta eina úrræði þessa bláfátæka fólks. Ég býst við, að sjómönnunum þarna vestra þætti fara að þrengjast á þessum litlu miðum, þegar Danir væru komnir þangað með stóran flota, auk annara aðkomandi sjóvíkinga, hvort sem þeir nú væru frá Vestmannaeyjum eða annarsstaðar að. Ég hugsa, að það kæmi nægilegur floti til þess að ausa upp af þessum miðum, þótt ekki sé farið lengra en að leyfa öllum bátum frá Faxaflóa og Breiðafirði að komast þar að.

Það er rangt hjá hv. þm. Vestm., að mér gangi nokkuð illt til að flytja þessa brtt. Ég er aðeins að reyna að vernda þann rétt, sem sjómenn á þessum stöðum hafa samkvæmt núgildandi lögum, einkum vegna þess að á honum byggist þeirra eina bjargarvon.

Ég verð að leggja á móti hinni skrifl. brtt. hv. þm. V.-Ísf., þar sem hann vill skipta Breiðafirði niður í 2 svæði, sunnanverðan og norðanverðan Breiðafjörð. Ég held það verði erfitt að draga markalínu milli þess, hvað er á sunnanverðum Breiðafirði og hvað á norðanverðum Breiðafirði og hafa eftirlit með því, að skipin veiði aðeins þeim megin við þau takmörk, sem þau eiga heima. — Ég vil mjög eindregið mælast til þess við hv. þm., að þeir fallist á brtt. mína, því að það er mikill fjöldi sjómanna og verkamanna, sem beinlínis eiga framtíð sína undir því, að hún verði samþ.