12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (866)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Það þýðir ekki að flytja langa ræðu um þetta mál. Ég vildi þó aðeins víkja nokkrum orðum að ræðu hv. þm. Snæf. Hann gerði ráð fyrir, að Danir kæmu hingað með stóran flota, ef þetta frv. yrði samþ. Það er ekki í fyrsta sinn, sem þessi danska grýla er dregin upp í þessu máli. Sannleikurinn er sá, að þar sem Danir hafa óhindraðan aðgang að landinu, hafa þeir hvorki komið með stóran eða lítinn flota. Það hefir varla sézt skip frá Danmörku. (PO: Þeir hafa ekki frjálsan nema lítinn tíma ársins). Hv. þm. Borgf. veit vel, hvaða ákvæði gilda um dragnótaveiðar. Hann veit, að Danir hafa á vissum svæðum við Suðurland óhindraðan aðgang. Hann ætti því ekki að vera að koma með neinar fullyrðingar í þessu efni. Hvað ætli það séu margar till., sem liggja fyrir þinginu um byggingu hraðfrystihúsa? Ég held, að það séu 3 frv. og ein þáltill. Áhugi manna fyrir byggingu hraðfrystihúsa virðist vera svo mikill, að nú er svo að sjá, að hraðfrystihús komi upp í hverri verstöð. Ég skal ekki lasta það, að þau verði sett upp svo víða sem þörf er á. En hvað ætla menn sér með því að reisa hraðfrystihús, en sjá ekki fyrir því, að þessi hús fái nægan afla? Hv. þm. verða að gera sér ljóst, að kolaveiðarnar eru ekki jafnar á sama tíma alstaðar við land. Það eru til vertíðir eftir landshlutum. Hugmynd okkar, sem fluttum þetta frv. í sambandi við fjölgun hraðfrystihúsanna víðsvegar um land, var sú, að rýmka svo fyrir dragnótaveiðunum, að bátaflotinn gæti flutt sig til, eftir því sem vertíðir væru. En það er útilokað með þeim brtt., sem fram eru fluttar til þess að skemma þetta frv. Það verður ekki stórvægilegur skaði, sem við, er flytjum þetta frv., getum gert þeim í Ólafsfirði og Sandi, eftir því, sem hv. 1. þm. Rang. upplýsti, þar sem þeir hafa ekki nema einn bát til þess að stunda þessar veiðar. (TT: Það er hægt að fjölga bátunum). Já, en það kemur ekki nema smátt og smátt, og reynslan hefir sýnt þar, sem dragnótaveiðar eru stundaðar, að sjómenn þurfa langan tíma, meira en eitt sumar, til þess að læra að hagnýta sér þetta veiðarfæri. Ég geri því ráð fyrir, að hraðfrystihúsin megi bíða nokkuð lengi eftir verkefni, ef einungis á að leyfa innanhéraðsmönnum að stunda þessar veiðar, og engir aðrir mega koma þar nærri.

Hér var einn hv. þm. að tala um friðun Faxaflóa. Ég var við 2. umr. þessa máls búinn að láta uppi álit mitt um það mál í sambandi við dragnótaveiðarnar. Það er ekki nema gott eitt um friðun Faxaflóa að segja. Og þegar að þeim tíma kemur, mun ekki standa á mér eða öðrum, sem bera hagsmuni bátaútvegsins fyrir brjósti, að ganga inn á það, að friða Faxaflóa fyrir dragnótaveiðum. En meðan svo er ekki, er ekkert unnið við að meina einhverjum hluta landsmanna að stunda þar dragnótaveiðar. Ég geri ráð fyrir, að Englendingar líti heldur stærra en svo á þessi mál, að það hafi nokkuð að segja í þeirra augum, hvort dragnótaveiðar á Faxaflóa eru eingöngu leyfðar sjómönnum, sem eiga búsetu við flóann, eða Íslendingum yfirleitt.

Verði þessar mörgu brtt. samþ., sem mér er ekki ljóst, hvað langt ganga, því að þær eru flestar skrifl., er sjáanlegt, að þetta mál er einskis virði fyrir bátaútveginn, þar sem engin tæki eru til né möguleikar til þess að hagnýta sér þessa veiði. En þar sem veiðiskipin, tækni og kunnáttumenn eru fyrir hendi, er hægt að fiska dragnótaveiðilagalaust eftir sem áður. Sannleikurinn er sá, að dragnótaveiðiskipin fara inn í landhelgina hvar sem er, það er orðin hefð. Og þó að verið sé að stofna til réttarhalda og dæma menn í sektir, þá er ekkert meint með því í framkvæmdinni frá hendi dómstólanna. Dómararnir og ráðh. vita það vel, að það þýðir ekkert að framlengja þessum dómum. Afleiðingin af þessu verður svo lögleysuástand, þar sem hver reynir að bjarga sér eins og bezt gengur. Við, sem fluttum þetta frv., vildum gera lögin þannig úr garði, að menn gætu stundað þessar veiðar sem heiðarlegir menn, en með þessum till. er stefnt til þess, að svo geti ekki orðið. Á því berum við ekki ábyrgð, heldur þeir, sem standa að því að skemma frv.