13.04.1937
Neðri deild: 37. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (876)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Sigurður Einarsson:

Það hefir nú verið talað margt og mikið um þetta mál, en þó get ég ekki neitað mér um að leggja nokkur orð í belg, enda þótt hv. þm. V.-Sk. hafi þegar tekið margt fram af því, sem ég vildi sagt hafa, og ég álít þyngra á metunum en það, sem andstæðingarnir hafa borið fram.

Hv. þm. Borgf. sagði, eins og hans var von og vísa, margt til að angra meðhaldsmenn frv. Hann talaði um það, að álits kjósendanna hefði ekki verið leitað, og sagði, að hér ætti að svipta fjöldann sjálfsákvörðunarrétti sínum. En það, sem verið er að gera með þessu frv., er einmitt það, að hjálpa sjálfsbjargarviðleitni fjöldans. Þetta mál stendur og í nánu sambandi við byggingu frystihúsa í verstöðvunum, sem menn virðast sammála um að styrkja hér í þinginu. Þeir, sem vilja láta banna dragnótaveiðar í landhelgi, kunna að hafa eitthvað til síns máls, en hinir þó miklu meira. Mér er líka kunnugt um það, að stórfelld stefnubreyting hefir orðið í þessu máli hjá sjómannastéttinni. Svo er það a. m. k. þar, sem ég er kunnugur, í Barðastrandarsýslu. Einn menntaður sjómaður þar vestra, sem er skólastjóri á sínum stað, sagði mér, að hann teldi það ekki verjandi lengur, að meina sjómönnum þessar veiðar. Hann kvaðst þess nú fullvís, að miklu minni háski stafaði af þeim en látið er. Ég tel það óverjandi, eins og ástandið er nú hjá sjómannastéttinni, að banna þessar veiðar, sagði hann. Ég talaði við hann um tímaákvarðanir þær, sem eru í frv., og taldi hann þær réttar. Ég átti einnig tal við annan mann úr þeim hreppi, sem staðið hefir að því að loka Arnarfirði. Hann sagði, að menn hefðu nú alveg skipt um skoðun í þessu efni. Og þar sem ég hefi orðið þess hvarvetna var, að skoðanir þeirra, sem falið hafa mér umboð sitt, hafa breytzt í þá átt, að opna beri landhelgina fyrir dragnótaveiði, tel ég mér einnig skylt að breyta nú afstöðu minni.

Hv. þm. Borgf. hefir hér talað um rányrkjumenn og friðunarmenn. Hann telur sjálfan sig friðunarmann, og hann er það. En það, sem hann er að friða hér, er lífsbjörgin fyrir þeim, sem þurfa að njóta hennar. Á slíkum tímum sem nú eru, er annað óafsakanlegt en að nota alla möguleika sjávarútvegsins til hins ýtrasta.

Ég skal segja það hreinskilnislega, að ég treysti mér alls ekki til þess að segja um það, hver áhrif opnun landhelginnar fyrir dragnótaveiðar kann að hafa á fiskstofninn til langframa, þar verða sérfræðingarnir og sjómennirnir sjálfir að haga sér eftir reynslunni, og þeim er vel treystandi til að gera það. Það er jafnfráleitt að segja, að fiskstofninum geti enginn háski stafað af þessum veiðum, og að rjúka upp eins og hv. þm. Borgf. og segja, að með þessu sé verið að eyðileggja fiskveiðarnar fyrir fullt og allt. Sérfræðingarnir og sjómennirnir sjálfir munu fljótt sjá, hvert stefnir í þessum efnum, sbr. hvalveiðarnar, þar sem lokað var fyrir, þó ef til vill heldur seint. En með nútímaþekkingu ætti að vera hægt að girða fyrir, að nokkurt varanlegt tjón hlytist af þessum veiðum.

Ég vil að lokum alveg mótmæla þeirri staðhæfingu hv. þm. Borgf., að það verði til þess að hindra friðun Faxaflóa fyrir botnvörpum, að samþ. þetta frv. En hér er tvennu alveg ólíku saman að jafna, enda er ávallt skýr greinarmunur gerður á dragnót og botnvörpu. Togarinn fer á gífurlegri ferð og sópar botninn með geysihraða og krafti. En litlu dragnótabátarnir fara svo hægt yfir, að nótin aðeins sniglast áfram. Ef Faxaflói verður friðaður fyrir okkar tilmæli, verður litið svo á, að við séum aðeins að biðja fyrir okkar eigin hagsmunum. En verði Faxaflói gerður að alþjóðlegri klakstöð, yrðu auðvitað þessar veiðar bannaðar þar líka. En þá hefðum við líka einhverju fórnað, svo að mér virðist, að samþykkt þessa máls ætti fremur að styrkja en veikja aðstöðu okkar. Annars er það álit mitt, að friðun Faxaflóa eigi því miður langt í land; þótt vel hafi verið tekið í þetta á einhverjum fundum, vita allir, að meginátakið er þó eftir.

Það er augljóst, ef því fylgir nokkur alvara, að koma upp hraðfrystihúsum í verstöðvum, hvílík fjarstæða það er, að banna þá veiðiaðferð, sem hlýtur að afla þeim mestra hráefna.

Ég vil að lokum mælast til þess, að allir þeir, sem komið hafa með brtt. þess efnis, að gera miðin út af kjördæmum sínum að einskonar einokunarsvæðum, vildu taka þær aftur, því að ef þær næðu samþykki, væri málið komið í verra horf en áður. Annars eiga þær að falla hver um aðra þvera og munu vonandi gera það.