13.04.1937
Neðri deild: 37. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Pétur Ottesen:

Það má nokkuð marka af því, að hv. 9. landsk. hefir mikið til brunns að bera í þessu máli, er hann finnur ástæðu til að þakka hv. þm. V.-Sk. fyrir ræðu hans. Þessi hv. þm. hefir algerlega staðið utan við þessar umræður og hefir ekki látið til sín heyra í þessu máli. En hv. 9. landsk. hefir hleypt æsingi í þetta mál, og hv. þm. V.-Sk. er vís með að þakka honum fyrir þá ræðu, sem hann hefir flutt. Það er einkennandi við hv. 9. landsk., að hann hefir fram til þessa fylgt mér að þessum málum, en hefir nú snúizt hugur, er hann talaði við þessa menn þar vestra. Og það fór fyrir honum eins og þeim mönnum, sem skyndilegum trúskiptum taka, því að slíkir menn eru jafnan mjög ofstækisfullir, er þeir fara að prédika hinn nýja átrúnað sinn. Hv. þm. talaði um það, að dragnæturnar væru ekki mjög skaðlegar, og bar þá veiðiaðferð saman við botnvörpuveiðarnar. Hann sagði, að togararnir færu mikið hraðara, þegar þeir væru að toga. Ég vil nú upplýsa þennan hv. þm. um það, að þegar búið er að kasta botnvörpu togaranna út, þá fara þeir mjög hægt, ekki hraðara en vélbátarnir með dragnótina. Hv. þm. er ber að því, að hann hefir ekkert vit á þessum málum, enda hefir hann víst aldrei séð þessar veiðiaðferðir eða hraða skipanna, aðeins séð þau dragast út úr höfninni.

Það er alveg víst, að dragnótin er mjög hættuleg smærri ungviðunum, sem eru að þroskast. Liggur það í því, að möskvar dragnótarinnar eru smærri en möskvar botnvörpunnar, og því verður dragnótin miklu hættulegri en botnvarpan. Á þessu sést, hversu mikið skyn hv. 9. landsk. ber á þessi mál. Ég vil í þessu sambandi endurtaka ummæli Árna Friðrikssonar á nýafstöðnu fiskiþingi. Hann sagðist játa, að það væri nauðsynlegt að friða flestöll mið fyrir dragnótinni, ekki aðeins fyrir Íslendingum, heldur og líka fyrir Dönum og Færeyingum.

Það er nú ekki ástæða til að vera að deila um þetta meira. Það hefir komið fram, að þeir, sem eru á móti dragnótaveiðinni, hafa snúizt og vilja nú sýna yfirbót. Eins og 9. landsk. talaði um, á friðun Faxaflóa harla langt í land. En ef Alþingi ber gæfu til að fella þetta frv. þá gætum við vonað, að þess yrði ekki langt að bíða, að við ættum friðað veiðisvæði hér við land. Og það veltur allt á Alþingi, hversu langt við verðum að bíða til að ná þessu takmarki.