13.04.1937
Neðri deild: 37. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (880)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Jakob Möller:

Það hefir mikið verið talað um þetta mál, og það hefir verið borið hér á andstæðinga þessa máls, að þeir fari með æsingar og blekkingar í þeirri von að fá því grandað. Það er bezt að láta allan sannleikann koma í ljós í þessu máli. Þá er fyrst að athuga, af hverju það er komið fram og af hvaða hvötum því hefir verið fylgt svo úr garði sem raun er á.

Höfuðbaráttan stendur nú um, hvaða svæði landhelginnar eigi að friða samfara þeim ráðstöfunum, sem nú er verið að gera, og þá sérstaklega byggingu hraðfrystihúsa. En ef við lítum aftur í tímann, þá verðum við fljótt varir við, að þetta er mikið eldra heldur en núverandi vandræði og hugmyndin um að byggja hraðfrystihús víðsvegar um landið, og því verður þessu tvennu ekki jafnað saman. Sósialistar báru einu sinni fram frv. um, að Danir skyldu hafa fullan rétt á þessu sviði sem öðrum eins og Íslendingar, og þetta fékkst, og Danir hafa því fullan rétt, meðan samningurinn er í gildi. Danir þurfa að leita víða og eru mjög þurfandi fyrir slík fiskimið, en eftir því sem meir þrengir að þeim, því harðari verður baráttan. Þetta eru aðaltildrögin að þeim deilum, sem standa um þessi mál, og að blanda hraðfrystihúsunum inn í þessi mál er algerlega nýtt og virðist vera byggt á skammsýni. Það hefir komið fram hér við þessar umræður, að það borgi sig alls ekki að flytja sig langt við dragnótaveiðar vegna þess, hve ferðakostnaður verður óeðlilega mikill, og það hygg ég að sé rétt. Þá hafa og verið bornar hér fram till. um, að héraðsbúum í hverjum flóa sé heimilt að nota sér landhelgina í sínu héraði, og það hygg ég, að verði bezta lausnin á þessu máli, til þess að gera landsmönnum kleift að nota þessa veiði. Hv. þm. V.-Sk. benti réttilega á, að bezt væri að skipta landinu niður í geisla, þannig að hver hafi rétt til veiða í landhelgi, þar sem hans land eða geisli næði að sjó. Hv. 9. landsk. var þessu sammála, en vildi, að hver einstaklingur ætti tilkall til þeirra fiskimiða, sem næst væru. Þetta er eina leiðin út úr þessum örðugleikum. Ef það á að fara t. d. að ákveða eitthvert visst svæði til fiskveiða fyrir allan skipaflotann, þá hljóta þau mið að tæmast á skömmum tíma, og þau kæmu aldrei að neinu gagni, því að þau myndu skiptast milli allt of margra manna. Með því verður aldrei réttum tilgangi náð, en það verður aðeins til að gera fiskimiðin ónýt fyrir alla. Ég hygg, að þær tillögur, sem komið hafa fram í þessu máli, sanni það, að það verður bezta úrlausnin, að hver maður hafi rétt til að veiða í sinni landhelgi, og það virðist vera í fullu samræmi við það, sem hv. 9. landsk. sagði, er hann gerði grein fyrir samtali sínu við þessa menn vestur í Barðastrandarsýslu. — Um rétt Dana vildi ég segja það, að mér þykir það fullforsvaranlegt, að þeir fái að hafa sama rétt til þessara veiða eins og Íslendingar, og það er sjálfsagt að takmarka þetta hjá þeim eins og það er takmarkað hjá Íslendingum. Og ástæðan fyrir því, að takmarkanirnar voru settar, voru ekki fyrst og fremst þær, að útiloka danska ríkisborgara frá að geta stundað þessar veiðar, heldur til þess að friða landhelgina. Hún er friðuð, ekki aðeins gegn dönskum ríkisborgurum, heldur líka gegn Íslendingum. Og nauðsynin er augljós. Hún er sú, að talið er, að þetta veiðarfæri sé skaðlegt fyrir annan veiðiskap og geti spillt annari fiskveiði landsmanna, og í öðru lagi vegna þess, að ótakmörkuð heimild allra til þess að veiða á öllum fjörðum og flóum myndi verða til þess að eyðileggja möguleikana til þessa atvinnurekstrar í framtíðinni. (MT: Eins og dæmin sanna). Já, eins og dæmin sanna. Það er vissulega mjög öflugur stuðningur í þessu máli, að Danir hafa tekið upp samskonar friðun eins og hér ræðir um, nefnilega héraðabönnin. Það er búið að hleypa svo miklum æsingi í þetta mál, ekki af hv. þm. Borgf. og þeim, sem eru honum sammála, heldur af hinum, sem með æsingi og gauragangi róa að því öllum árum að opna landhelgina fyrir öllum, sem í hana vilja sækja. Það eru þeir, sem fyrst og fremst hafa stofnað til æsinga í sambandi við þetta mál. Sannleikurinn er sá, að eftir þá málfærslu, sem þeir hafa haft í þessu máli, sem telja sig sjálfkjörna málsvara lítilmagnans á Alþ., þá þarf meiri kjark og karlmennsku til að standa á móti þessum kröfum heldur en að fylgjast með þeim. Ég býst við, að það sé of seint að koma vitinu fyrir hv. þm. í þessu máli, en því miður mun sá tími koma síðar, að þeir sjái, að þeir gera rangt með því að hleypa þessu máli í gegn núna.