15.04.1937
Efri deild: 41. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Bernharð Stefánsson:

Ég er ekki sérfræðingur í þessu máli og ætla því ekki að fara langt út í það. Það hefir mikið verið um það deilt í Nd., hvort rétt væri að setja þessi lög eða ekki, og skal ég ekki fara út í það. Ég vil aðeins taka það fram, að hvað sem má um þetta segja, þá finnst mér rétt, þegar eins er ástatt um atvinnuhætti og nú, að leyfa þennan bjargræðisveg, sem hér um ræðir. Það mætti þá alltaf, ef betur árar og svo virðist sem þetta myndi valda skaða í framtíðinni, afnema þetta aftur. En það er eitt atriði, sem ég óska eftir, að n. athugi fyrir 3. umr., og það er, að mér virðist samkv. 1. gr. frv., að gagnið af þessu verði ekki mikið fyrir nokkuð stóran part af landinu, sem sé Norðurland og mikinn hluta Austurlands. Dragnótaveiði er leyfð frá 15. maí á Suðurlandi og Vesturlandi, en ekki fyrr en 15. júní á Norðurlandi. Nú er það svo víða á Norðurlandi, að það myndi verða eitt helzta ráðið til þess að bátaútvegurinn gæti borið sig, að bátarnir gætu stundað kolaveiðar að vorinu, áður en þeir fara á síldveiðar. En einmitt um 15. júní eða rétt þar á eftir munu þeir flestir fara á síldveiðar, og þá er tækifærið úti. Þetta kann að vera byggt á vísindalegri rannsókn, og kolinn hrygni seinna fyrir norðan en hér fyrir sunnan, en ég vil samt, að þetta atriði verði athugað betur. Ég veit ekki, hvort það er svo óyggjandi rannsókn, sem liggur til grundvallar fyrir því, að það megi ekki byrja kolaveiðar fyrr en 15. júní norðanlands, ef það má byrja þær 15. maí sunnanlands. En ég vil sérstaklega vekja athygli á því, að ég tel, að einmitt með þessu ákvæði séu stórlega skertir þeir hagsmunir, sem annars gætu af þessu orðið fyrir norðan, með sérstöku tilliti til þeirra báta, sem eiga að fara á síldveiðar. Ef fróðir menn gefa mér upplýsingar um, að ekki sé hægt að breyta þessu, þá mun ég falla frá því að bera fram brtt. En ég óska eftir upplýsingum um þetta, og eins óska ég eftir því, ef n. sér sér fært að slaka eitthvað til í þessu efni, að þá geri hún það.