15.04.1937
Efri deild: 41. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (893)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Það er að taka upp gamlar deilur að fara nú að ræða um héraðabönnin. Það hefir sýnt sig, að síðan héraðabönnin á Skagaströnd og víðar féllu úr gildi, þá hefir enginn maður þar né annarsstaðar haldið því fram, að herpinótaveiðin gerði síldveiðunum tjón. Þannig mun líka fara um þetta veiðarfæri. Menn hafa fyrirfram andúð á veiðitækinu og vilja ekki sjálfir nota það, en mikla sér í augum, hvílíkan usla það geti gert, og eru svo á móti því. Þannig var þetta á Vestfjörðum, þangað til reynslan sýndi mönnum, að þetta veiðitæki hafði ekki skaðleg áhrif á aðrar veiðar.

Héraðabönnin eru ákaflega viðsjárverð, og eins og ég hefi bent á, þá hafa þau verið ákaflega misnotuð, til stórskaða fyrir sjávarútveginn. Ég verð að segja, að þó að einhver í n. hefði haft tilhneigingu til þess að koma með till. um, að veiði skyldi leyfð á sumum stöðum, en öðrum ekki, og að héraðsbúar einir mættu veiða innan síns héraðs, þá er það sýnt, að slíkar till. mættu ekki samúð meiri hl. þingsins, því að allar slíkar brtt. í Nd. voru felldar með 18–20 atkv. á móti 8–11 atkv. Að koma með slíkar brtt. hér væri því aðeins til að stuðla að því, að málið dagaði uppi eða það yrði fellt. En nauðsynin fyrir sjávarútveginn og gagnsemin, sem af þessu getur orðið, er svo mikil, að það er ekki forsvaranlegt á þessum tímum að meina sjómönnum, sem engar aðrar tekjur geta haft á þessum tíma árs, að stunda þessar veiðar.

N. leggur því eindregið til, að frv. verði samþ. óbreytt, og þótt sumir nm. hafi tilhneigingu til að fara í þá átt, sem hv. 1. þm. Skagf. benti á, þá yrði það einungis til að hindra framgang málsins.