03.03.1937
Efri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

16. mál, skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

*Jón Auðunn Jónsson:

Ég er sammála meðnefndarmönnum mínum um afgreiðslu þessa máls, en í sambandi við málið vil ég beina lítilsháttar fyrirspurn til hæstv. stjórnar.

Til þess að geta innt af hendi þær greiðslur, sem skuldaskil vélbátaeigenda hafa haft í för með sér, hefir stj. orðið að taka lán. Lánið hefir hún tekið í íslenzkum gjaldeyri, en það undarlega við þessa lántöku er það, að lánveitendum er tryggð greiðsla á láninu í erlendri mynt og yfirfærsluréttur, miðað við núverandi gengi á íslenzkri krónu. Með þessu er lánveitendum tryggt, að þó að gengisfall verði á íslenzku krónunni, þá þurfa þeir ekki að taka það á sig, þótt það hefði annars lent á þeim, eins og öllum öðrum erlendum mönnum, sem eiga hér fé. Ég hygg nú, að fá hefði mátt betra og hagkvæmara lán hjá ýmsum erlendum mönnum, sem hér eiga frosnar inni fleiri millj. kr., og vil því beina þeirri fyrirspurn til hæstv. stj., hvort hún hafi leitað fyrir sér um lán víðar en hjá stofnunum þeim, sem hún tók lánið hjá.