16.04.1937
Efri deild: 42. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (913)

79. mál, útrýming sels úr Húnaósi

*Jón Baldvinsson:

Það er sjálfsagt nauðsyn á þessu frv., að útrýma sel til að halda við laxveiðinni. En það er eitt, sem kemur fram í sambandi við þetta frv., og það er sú stefna, að ríkissjóður greiði þessar bætur fyrir að ýmsar jarðir hafa hlunnindi af selveiði. Þetta mál kemur sjálfsagt til greina víðar en þarna. T. d. hefir verið reynt að útrýma sel í Ölfusá. Ég man ekki, hvernig því er hagað, hvort ríkissjóður eða laxveiðieigendur greiða þær bætur.

Ég hefi ekkert við það að athuga, að ríkið greiði þetta, en mér finnst þá, að það ætti að slá því föstu, sem er meiningin með 2. gr. frv., að ríkið greiði bæturnar eins og þær eru metnar til heimatekna, og ætti þá eiginlega að bæta því inn í frv., til þess að enginn vafi leiki á því, enda er það ætlun hv. þm., en yrði til að gera frv. skýrara. Ég vil skjóta því til hans, hvort hann vill ekki koma með brtt. um það. Annars gæti skeð, að maður, sem yrði til þess að meta þetta fyrir blessaðan prestinn, áliti sem svo, að það gerði ekki mikið til, þótt ríkissjóður greiddi honum meira en sem svaraði tekjunum af þessari veiði, og kannske eru tekjurnar meiri en þær eru metnar til tekna. Ef þetta eru ekki nema 40 kr. á ári, þá er það ekki mikil fjárhæð fyrir ríkissjóð, og kæmi sjálfsagt margfaldlega aftur. Það er ekki að efa, að allur þessi sægur af sel, sem er við ármynnin, lifir á þessum verðmæta fiski, laxinum, sem sækir upp í árnar.

Ég vil svo beina þessu til frsm. n., hvort hann sjái ekki ástæðu til að bera fram þessa brtt.