26.02.1937
Neðri deild: 10. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

32. mál, hafnargerð á Þórshöfn

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Þetta frv. til l. um hafnargerð á Þórshöfn, sem hér liggur fyrir, hefi ég leyft mér að flytja eftir beiðni hreppsnefndarinnar í Sauðaneshreppi. Á þessum stað, Þórshöfn á Langanesi, hafa nýskeð verið framkvæmdar mælingar með tilliti til væntanlegra hafnarmannvirkja, sem áætlanir hafa verið gerðar um, og hreppsnefndin óskar nú eftir að sett verði um þennan stað sérstök hafnarlög, sem svo verður farið eftir við þær framkvæmdir, sem hún mun svo beita sér fyrir, eftir því, sem fé kann að vera fyrir hendi. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta mál og get að mestu látið nægja að vísa til grg., sem frv. fylgir, um þær athuganir, sem farið hafa fram, þau skilyrði, sem þessi staður hefir, hverjar framkvæmdir fyrirhugaðar eru og kostnaðinn við þær. Ég skal taka það fram, að þetta frv. er sniðið eftir þeim öðrum lögum um hliðstæð efni, sem samin hafa verið hér á Alþingi. Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.