08.04.1937
Neðri deild: 33. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (987)

112. mál, síldveiðar með botnvörpu

*Flm. (Jón Ólafsson):

Það er í rauninni ekki mikið um þetta litla frv. að segja, sem við höfum leyft okkur að bera hér fram. Þetta er algert nýmæli hér við Ísland, og var gerð tilraun með það í fyrrahaust hér í Faxaflóa, en sú tilraun varð vitanlega alveg árangurslaus. Það er hinsvegar víða farið að taka þessa aðferð upp erlendis, að veiða síld í botnvörpu, og virðist mér því ekki vera ástæða til að gefast upp við svo búið, heldur þvert á móti að reyna áframhaldandi. Það er kunnugt, að vissa tíma árs fyllast hér ýmsir firðir af síld, en hún hagar sér þannig, að ekki er hægt að veiða hana í nót. Er því hér um að ræða síld, sem liggur við botninn. Það geta verið hér mikil auðæfi á ferðinni, sem ekki hefir ennþá tekizt að hagnýta. Það virðist því full ástæða til, að þetta sé rannsakað og ekki lengur vaðið í villu um þessa hluti.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en vænti þess, að frv. verði vísað til sjútvn.