23.11.1937
Efri deild: 33. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (1010)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Hv. 1. landsk. taldi vanta ákvæði í frv., er kæmu í veg fyrir það, að af frv. leiddi hækkun húsaleigu. Ég er honum sammála um það, að gott væri að fyrirbyggja slíka hækkun, en ég býst við, að það sé ákaflega erfitt að setja ákvæði um það. Mér skilst, ef fasteignaskattur hvílir á húsum, sem leigð eru, þá hljóti eða a. m. k. sé hætt við því, að skatturinn hafi áhrif á húsaleiguna, en það er sjálfsagt að athuga þetta í n., hvort sem það verður fjhn. eða allshn., sem fær frv. til meðferðar.

Þá þótti þessum hv. þm. það ófrelsi, að í 22. gr. væri fjárforræði tekið af þeim sveitarfélögum, sem þyrftu á sérstakri hjálp að halda. Það má til sanns vegar færa, að þetta sé nokkur skerðing á frelsi, og hv. þm. vildi halda því fram, að þetta væri ekki í samræmi við lýðræði, en ég get ekki séð, að þegar bæjarfélag, sem ekki getur sjálft séð sér borgið og ríkisvaldið þarf að hlaupa undir bagga, að þetta sé annað en eðlilegt. Annars gæti farið mjög illa, eins og hugsunarháttur er nú á dögum. Ég hefi heyrt, að í einum hreppi t. d. hafi einn af þurfamönnum hreppsins verið kosinn oddviti. (BrB: Óttalegt er að heyra þetta). Þegar slíkt á sér stað, finnst mér, að full ástæða væri til eftirlits. Hv. 1. landsk. greip fram í á þá leið, að ekki væri athugavert, þó þurfamaður væri oddviti. Ég skal nú játa, að ég er svo gamaldags, að ég kann ekki víð það.

Ég get verið sammála hv. 9. landsk. um það, að hér sé um heldur lítið fé að ræða samkv. 2. kafla frv., en ég skil ekki, hvernig hann fær það út, að þetta séu ekki nema 400 þús. kr. Mér skilst, að nýtt fé verði 450 þús. kr., og þó það skerðist eitthvað við það, að manni í stjórnarráðinu verði falið eftirlit með bæjar- og sveitarfélögunum, þá kemur ekki til mála, að sá kostnaður nemi 50 þús. kr.

Hv. þm. benti á það, að ég stæði að öðru frv., sem veitti mínu bæjarfélagi miklar tekjur. Hann stendur einnig sjálfur að þessu frv., sem veitir fleiri sveitarfélögum nýjar tekjur, sem nema munu um 80 þús. kr. miðað við yfirstandandi ár. (MG: Eru það nema þrjú bæjarfélög?). Nei, en mér sýnist, að fleiri till. í líka átt vera að koma fram, sem e. t. v. verða samþ., og það verður að viðurkennast, að þó þessi upphæð mætti vera hærri, þá er hún miklu betri en ekki neitt, og ég vil fullyrða, að stærstu vandræðunum er afstýrt, þó ekki verði annað samþ. en þetta frv., því það eitt að fullur jöfnuður á fátækrakostnaði náist, hefir mikið að segja. Því ef vandræði bæjar- og sveitarfélaga stafa ekki af fátækraframfærinu eða þá einhverjum alveg sérstökum ástæðum, þá er venjulega um sjálfskaparviti að ræða. Ég þakka hv. 9. landsk., að hann ætlar að fara að launa mér illt með góðu og vona, að hann geri það í framtíðinni, ef ég skyldi einhverntíma gera honum eitthvað illt, en ég kannast ekki við að hafa gert það hingað til. (MG: Jú). Nei. Það er að vísu rétt, að ég var á móti því á framhaldsþinginu 1935, að sérstök l. yrðu sett um vörugjald á Sauðárkróki, þar sem ákveðið var á því sama þingi, að þessi mál yrðu athuguð í heild. Þá stóð til eins og varð, að skipuð yrði n. til að gera till. um nýja tekjustofna fyrir bæjar- og sveitarfélög. Vorum við hv. 9. landsk. skipaðir í þá n. ásamt þriðja manni. Okkar till. komu svo fyrir næsta þing tveim mánuðum síðar, og ef þær hefðu verið samþ., sé ég ekki, að Sauðárkrókur hefði nokkurs misst, þó gildistaka nýrra tekjustofna fyrir þorpið hefðu dregizt í tvo mánuði. Ég sé því ekki annað en að ég hafi gert allt, sem í mínu valdi stóð, til þess að fá lögfest það, sem hv. þm. fór fram á.

Út af aths. hv. þm. N.-M. um, að þessi eftirlitsmaður sé látinn sjá um, að bæjar- og sveitarfélög fullnoti tekjumöguleika sína áður en þau leita til ríkisins, skal ég taka það fram, að ég tel, að frv. ætlist til þess. Í 21. gr. frv. er tekið fram, að eftirlitsmaðurinn skuli veita sveitar- og bæjarfélögum aðstoð og ráðleggingar um fjármál þeirra og leiðbeina þeim um framfærslumál og önnur mikilsverð málefni. Þetta er kannske ekki fullnægjandi í þá átt, sem hv. þm. var að tala um, og er að sjálfsögðu rétt, að sú n., sem frv. fær til athugunar, fjalli um þetta atriði.