23.11.1937
Efri deild: 33. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (1011)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Atvmrh. (Haraldar Guðmundsson):

Ég get tekið undir það með nokkrum hv. þdm., að tillagið til jöfnunarsjóðs sé mjög skorið við nögl. En til þess að gera hv. þdm. hægara fyrir um athugun á þessu atriði, skal ég upplýsa það, að samkv. gildandi l. ættu 250 þús. kr. að nægja til að jafna fátækraframfærið. Eftir útreikningi hagstofunnar hefir það sýnt sig, að vantað hefir um 100 þús. kr. til þess að jafna samkv. l. fátækraframfærið fyrir árið 1935, og fyrir árið 1936 einnig, eða bæði árin verður þetta samtals 350 þús. kr., sem þyrfti til að jafna fátækraframfærið. Og ef farið verður eftir sömu reglum, sem eru líkar og gert er ráð fyrir í frv., þá svarar þetta tillag til jöfnunarsjóðs til þess, að hægt verður að jafna að fullu fátækraframfærið samkv. lögum, og verður þó eftir um helmingur tillagsins, sem úthlutað verður til jöfnunar á þeim tveimur útgjaldaliðum, ellilaununum og kennaralaununum, sem taka á tillit til samkv. frv.

Ég hygg, þó þetta fé sé ekki meira, að þá verði það til verulegrar hjálpar fyrir þau bæjar- og sveitarfélög, sem verst eru stödd, sérstaklega þar, sem örðugleikarnir stafa af atvinnuleysi, því þar hefir fátækraframfærið orðið mest, og yfirleitt er það fátækraframfærið, sem fyrst og fremst hefir valdið bæjar- og sveitarfélögunum örðugleikum.

Í þessu frv. er tekið tillit til tveggja annara atriða, ellilaunanna, sem í flestum tilfellum eru sama eðlis og fátækraframfærið, og í öðru lagi kennaralauna. Ég hefði talið eðlilegra, að í stað kennaralauna væri allur barnafræðslukostnaður lagður til grundvallar fyrir styrk úr jöfnunarsjóði, og vænti þess, að n. taki það til athugunar.

Í sambandi við það, sem hv. 1. þm. N.-M. sagði, vil ég taka þetta fram: Ég vil beina því til n., sem ég tel eðlilegra að verði allshn., að athuga, hvort ekki sé hægt að setja ákvæði í frv. um, að úthlutun úr jöfnunarsjóði kæmi ekki til greina fyrr en fullnotaðir hafa verið hinir eðlilegu tekjustofnar bæjar- og sveitarfélaga, t. d. einnig notuð sú heimild, sem felst í fyrsta kafla þessa frv., fasteignaskatturinn. Ég tel hann í sjálfu sér miklu eðlilegri tekjustofn heldur en jöfnunarsjóð, og væri því ástæða að nota fasteignaskattinn til fulls áður. Sömuleiðis með hliðsjón af því, sem hv. þm. drap á, tel ég eðlilegt, að viss upphæð væri áður tekin með útsvörum í hlutfalli t. d. við tekju- og eignarskatt, áður en til jöfnunarsjóð kæmi. Ég játa, að erfitt kunni að verða að finna form fyrir þessu, en þetta væru hinsvegar mjög nauðsynleg og eðlileg ákvæði, því 21. gr. nær á engan hátt þessum tilgangi.