03.12.1937
Efri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Ég ætla ekki að gera langar aths. við svör hv. frsm. og hv. 1. þm. Eyf. viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði um till. mína um að fella niður 20. gr., þar sem hann benti á, hversu mjög það hefði reynzt erfitt að innheimta skuldir bæjarfélaga, þá þarf ekki annað en benda á, að fyrir því liggja orsakir, að erfitt er að innheimta þessar skuldir, en það er vegna þess. að það hefir verið erfitt að greiða þær fyrir bæjarfélögin. Fyrir því liggja þessar einföldu ástæður, og það geta verið takmörk fyrir því, hve forsvaranlegt er gagnvart íbúum bæjarfélaga að innheimta slíkar skuldir. Ég álít, að ríkissjóður hafi að allmiklu leyti ráð þessara bæjar- og sveitarfélaga í hendi sér. Þau þurfa hjálpar ríkissjóðs, og það er nauðsynlegt fyrir þau að komast að samningum við hann.

Þetta var viðvíkjandi fyrstu aths. hv. þm. — Önnur aths. hans var við brtt. mína um að 22. gr. verði felld niður. Hv. 1. þm. Eyf. virtist vilja líta svo á, að það væri undir flestum kringumstæðum sjálfskaparvíti bæjar- og sveitarfélaga, þegar svo er komið, að þau þurfa sérstakrar hjálpar. En ég vil halda því fram að það séu undir flestum kringumstæðum óumflýjanlegar ástæður fyrir því, enda hljóta íbúar bæjar- og sveitarfélaga að hafi hug á því, að fjárstjórnin þar færi vel úr hendi.

Þá ætla ég að svara hv. frsm. allshn. Hann hélt því fram, að 1. brtt. mín, um að fella niður 3. lið 1. gr., en brtt. er um að breyta honum nokkuð, gerði þennan lið tilgangslítinn. Það kann að vera, að það verði ekki miklar tekjur af þessum lið, en ég tel brtt. mína nauðsynlega. Að því er snertir aths. hans um, að það geti verið stóreignamenn, sem eigi litlar lóðir, þá er hún rétt. En þrátt fyrir það eru þetta engin rök á móti brtt. minni, sem ég tel nauðsynlega. Það er svo um fasteignaskattinn, sem ekki er stighækkandi, að það geta verið stóreignamenn, sem eiga smáar lóðir, og svo verr stæðir menn, sem eiga stærri lóðir. En flokksmenn mínir í Nd. hafa, eins og hv. þm. er kunnugt, borið fram frv. um fasteignaskatt, sem lagður sé á með allt öðru móti, og sömuleiðis um verðhækkunarskatt.

Þá kem ég að aths. hv. frsm. allshn. viðvíkjandi 2. brtt., þar sem svo er ákveðið, að fasteignaskatturinn af húsum með smáum íbúðum skuli alltaf vera helmingi minni heldur en af verzlunarhúsum og öðrum slíkum byggingum. Þar vill hv. frsm. halda því fram, að þetta eigi algerlega að vera á valdi bæjarstjórna og sveitarstjórna, hvernig þessum mismun á fasteignaskattinum er hagað. Í minni brtt. eru fastar skorður settar við því, að skatturinn verði tiltölulega miklu minni á íbúðarhúsum með smáum íbúðum heldur en öðrum húsum, og tel ég það nauðsynlegt til þess að koma í veg fyrir, að þessu ákvæði verði misbeitt, því þar er aðeins um heimild að ræða til þess að hafa skattinn mismunandi. En það þarf ekki að vera. Það er hægt að framkvæma þetta þannig, að skatturinn á smáibúðarhúsum sé jafnhár og á öðrum húsum, eins og t. d. verzlunarhúsum. Þess vegna er rétt að setja þessar skorður. Það er eftir sem áður á valdi bæjarstjórna og hreppsnefnda að hafa skattinn mismunandi að öðru leyti.

Hv. frsm. allshn. sagði, að ef 20. gr. væri felld niður, þá væri það einskonar lögfesting á óskilseminni. Ef það er rétt, að slíkt væri lögfesting á óskilseminni, þá er líka óskilsemin lögfest á meðan þessi gr. er ekki orðin að lögum.