03.12.1937
Efri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Mér hefir skilizt, að n., sem hefir haft þetta mál til athugunar, muni ekki nema að nokkru leyti vera búin að ljúka sinum störfum. Mér skildist það á því, að hún hefir ekki haldið fund um málið, a. m. k. ekki með öllum nm. Ég hygg, að það stafi af því, að hún hefir ekki tekið tillit til bendinga minna við 1. umr. þessa máls, þar sem ég taldi, að í 3. kafla ætti að koma ákvæði, sem tryggði það, að sveitar- og bæjarfélögin fái ekki úr jöfnunarsjóði eftir 2. kafla nema þau noti til fulls þá tekjumöguleika, sem þau hafa heima fyrir. Ég vil mjög ákveðið biðja n. að athuga þetta fyrir 3. umr., enda skildist mér, að hún ætlaði þá að koma með brtt. Tekjumöguleikarnir eru notaðir svo misjafnlega í hinum ýmsu bæjarfélögum á landinu, að útsvar á 6000 kr. skattskyldar tekjur er allt frá 470 kr. og upp í 710 kr., og þau bæjarfélög, sem leggja hvað lægst á, kvarta mest og telja sig helzt þurfa að komast í jöfnunarsjóð. Þess vegna verður að búa svo um, að útsvarsmöguleikinn, sem er til staðar, sé notaður áður en komið er til ríkisins og sagt, að ekki sé hægt að ná nauðsynlegum tekjum með útsvarsálagningunum.

Í sambandi við það, sem hv. 1. þm. Reykv. var að tala um, þá vil ég benda honum á tvennt eða þrennt í því sambandi. Hann var hræddur við, að bráðabirgðaákvæðið yrði framlengt, ef það væri samþ. Hvaða gagn væri að því að framlengja það, þegar því er aðeins ætlað að gilda 1938 og það á því ári er framkvæmt? Það yrði að breyta því, ef ætti að framlengja það. Það myndi ekki vera hægt að framlengja það, sem búið er að fullnægja með bráðabirgðaákvæðum.

Í öðru lagi vil ég benda hv. þm. á, að í frv. því, sem fyrir liggur á þskj. 142 og er um bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga, er ætlazt til, að helmingurinn af skattauka þeim, sem leggja má á 6000 kr. skattskyldar tekjur, skuli renna í viðkomandi bæjar- eða sýslusjóð. Þegar þess er gætt, að 750 af um 800 mönnum, sem þarna koma til greina, eru í Rvík, þá er henni sköpuð þarna sérstaða, sem hinir hafa að l., en hafa í rauninni ekki í framkvæmdinni. Ég vil ennfremur benda honum á, að þegar litið er á eignir gjaldþegna Rvíkur og tekjur þeirra annarsvegar og borið saman við útsvarsálagninguna hinsvegar, þá er Rvík það af bæjarfélögunum, sem þarf að leggja hvað lægst útsvar á miðað við þær tekjur og eignir, sem til eru í bænum. Það er svo langt frá því, að Rvík sé eitt af þyngstu bæjarfélögunum á landinu, því hún er með þeim léttustu. Hvað kann að verða í framtíðinni, skal ég ekki segja um, en þá getur verið, að jöfnunarsjóðurinn komi til greina. Ég held því, að aths. hv. þm. gagnvart Rvík séu á misskilningi byggður, a. m. k. á meðan látið er standa ákvæðið í frv. um jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga, sem vafasamt er, hvort rétt er að standi, þar sem Rvík ein fær tekjur eftir frv., sem öll önnur bæjarfélög fá ekki.