06.12.1937
Efri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Magnús Jónsson:

Hv. flm. frv. hefir lýst þessari brtt. minni á þskj. 263. Hún er í sambandi víð brtt., sem ég hefi gert við annað frv., 98. mál þessarar deildar, og í samræmi við það álit, sem ég hefi látið í ljós um þetta frv. og þá aðstoð, sem það getur veitt sumum kaupstöðunum sérstaklega. Og þá hefi ég sem þm. Reykv. dregið það fram í umr., að í frv. er vandlega séð fyrir því, að Rvík fái engan stuðning af þessari löggjöf. Það er búið svo um, að hún er ekki aðeins útilokuð frá því að fá nokkurn skerf til framfærslukostnaðar, heldur eru sett um það svonefnd bráðabirgðaákvæði, að jöfnun framfærslukostnaðar gangi algerlega á undan jöfnun annars kostnaðar, svo að Rvík fái þar aldrei greiddan sinn réttmæta hluta. Jöfnun elli- og örorkutrygginga og kennaralauna verður vist mest á pappírnum.

Ég hefi þess vegna leyft mér að bera fram þessa brtt. um að lækka framlagið til jöfnunarsjóðs um 200 þús. Það er þó alltaf dálítil upphæð, sem sparast fyrir landið, og ætti að þurfa þeim mun minna af nýjum sköttum til ríkissjóðs. Ég þarf í raun og veru ekki að tala meira fyrir þessari brtt. Hún er í sambandi við aðrar brtt. mínar, og hv. þm. vita, í hvaða átt hún stefnir. Ég sé, að hv. 1. þm. N.-M. kveður sér hljóðs. Það mátti svo sem vænta hljóðs úr því horni. Við stöndum þarna á öndverðum meið. Ég tel sanngjarnt, að þessar ráðstafanir nál til allra, þar sem féð til þeirra er tekið af öllum landsmönnum. Ég vil ekki fullyrða, að þetta næðist algerlega, þó að mínar till. yrðu samþ., en þá færi þó miklu nær því heldur en hv. flm. þessa frv. ætlazt til.