06.12.1937
Efri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Guðrún Lárusdóttir:

Það er út af 4. gr. þessa frv. Ég sakna þess í þeirri gr., að það vantar í hana ýmislegt af því, sem ég tel, að þar ætti að standa, þar sem verið er að telja upp, hvað undan skuli þiggja skattinum. Í gr. eru taldar upp ýmsar mannúðarstofnanir, svo sem öll hæli og sjúkrahús, en þar þykir mér vanta í barnahæli. Barnahæli starfa nú hér á landi allan ársins hring, og sæmdi sízt að leggja í slík heimili aukaskatta. En það er fleira í gr., sem mér þykir vanta, t. d. finnst mér, að undanþiggja ætti skatti ýms félög, sem koma sér upp húsum til þess að hafa í fundi og uppbyggilegar samkomur til almenningsheilla. Þessi félög, sem oftast standa að slíkum húsum, reisa þau ekki í gróðaskyni fyrir sjálf félögin, heldur til þess að láta þjóðina græða á þeim. Mætti í því sambandi minnast á íþróttahúsin. Það er nú mál manna, að íþróttir séu ein helzta lyftistöngin undir menningu hverrar þjóðar. Okkar íþróttastarfsemi er ung, en hér er samt sem áður góður vísir til slíkrar starfsemi. Mér þykir því óeðlilegt, að farið verið að leggja skatta á þessa starfsemi og hefi ég því lagt til að undanþiggja hana þeim skatti, sem hér á að heimila. Ég afhendi hæstv. forseta hér með þessar brtt. og vænti þess, að hann leiti afbrigða fyrir þær.