06.12.1937
Efri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (1042)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Bjarni Snæbjörnsson:

Það voru aðeins nokkur orð til að andmæla því, sem hv. flm. þessa frv. sagði um brtt. mína við 16. gr. Hann áleit, að það mundi vera meiri hætta á því, að þetta embætti yrði dýrt og varanlegt, ef það yrði greitt úr ríkissjóði, og hann vildi halda því fram, að það mundi þá jafnvel geta orðið áframhaldandi embætti eftir að hætt væri að veita í fjárl. styrk til jöfnunarsjóðs. Ég álít nú, að um leið og hætt verður að veita styrk til jöfnunarsjóðs, þá muni þetta einnig falla niður, og það alveg jafnt hvort ríkið tekur þátt í því að nokkru leyti eða engu, því að eins og tekið er fram í frv., þá er það eingöngu atvmrh., sem ákveður laun þessa manns og hans meðstarfsmanna ef þeirra þykir þurfa. Og ég hygg, að það sé áreiðanlegt, að þetta starf geti ekki orðið aukastarf neins manns í stjórnarráðinu, því að það er ætlazt til þess, að auk þess sem hann safni skýrslum frá viðkomandi bæjum, þá á hann líka að vera þeim til aðstoðar, ef þeir eru komnir í vandræði. Ég get sem sagt ekki skilið annað en að í þetta starf verði ráðinn sérstakur maður. En þegar það er lagt í vald eins ráðh. að ákveða laun þessa manns, þá getur það vel farið svo, að þetta starf verði bara „bitlingur“ og að það hlaðist á þetta kostnaður án þess að viðkomandi bæjarstjórnir geti haft hönd í bagga með því. Bæði þessi hv. þm. og aðrir hafa gefið í skyn, að þessar 700 þús. kr. væri ekkert of mikið lagt til þessara mála. Mér fyndist því, að hann ætti að vera till. minni fylgjandi, þar eð hún gengur í þá átt að reyna að spara fyrir jöfnunarsjóðinn, enda voru rök hans á móti till. raunverulega meðmæli með henni, en ekki móti.