08.12.1937
Neðri deild: 44. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í B-deild Alþingistíðinda. (1052)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Einar Olgeirsson:

Ég álít, að þessi viðleitni, sem kemur fram í frv., sé alveg rétt, og að fasteignaskatturinn sé sjálfsagðasta tekjuöflunarleiðin. En það, sem ég álít aðallega gallað í frv., er, að ekki er ákveðið nákvæmar, hvernig bæjarfélögin mega leggja skattinn á. Það er gert of rúmt í 3. gr., þar sem bæjarstjórnum og hreppsnefndum er í sjálfsvald sett, hvernig skattstiga þær búa sér til, og hvernig þær mismuna húseignum eftir því, til hvers þær er notaðar. Þar eru engin fyrirmæli að binda sig við eða tryggja, að álagningin verði réttlát. Nú er gert ráð fyrir, að jafnt sé lagt á, hvort sem eignin er skuldlaus eða ekki. En framkvæmd þessara laga þarf að verða í sama anda og útsvarslöggjöfin. Til þess að tryggt sé, að bæjarstjórnir framkvæmi lögin á þann hátt, eins og ég tel víst, að allir vinstri menn ætlist til, þyrfti að setja nákvæmari ákvæði inn í 3. gr. frv. — Skatturinn af húsum, sem notuð eru til verzlunar, skrifstofuhalds og atvinnurekstrar og nokkrum öðrum t. d. skrauthúsum til íbúðar, ætti að vera hærri en af húsum, sem efnalitlir menn hafa eignazt til að hafa þak yfir höfuðið og lagt þar í allt sitt, eða meira. Ef lögin eiga að vera þannig úr garði gerð að þeim verði alstaðar beitt í sama anda og útsvarslögunum, verður að setja þarna ákvæði, sem tryggi það, að íhaldssamar bæjarstjórnir geti ekki komið á skatti, sem bitnar jafnþungt á verkamönnum, sem t. d. hafa brotizt í að byggja yfir sig, og á efnuðustu borgurunum. Þetta vildi ég biðja n. að taka til athugunar. — Samflokksmaður minn í Ed., hv. l. landsk. (BrB), bar fram brtt. við 3. gr., þegar frv. var til 2. umr. þar í deildinni. Þessi brtt. var því miður ekki samþ. En ég vildi mælast til þess við n., að hún athugi málið nákvæmlega og geri tillögur til umbóta. Ég álít alveg rangt að gefa íhaldssömum bæjarfélögum tekjustofna með fullu frelsi til að misbeita valdi sínu yfir þeim.

Ennfremur álít ég, að á 3. tölul. 1. gr. þurfi að gera breytingu. Það er verið að hvetja menn til þess að rækta jörðina kringum kaupstaði og sjávarþorp. Og þá er ekki eðlilegt né heppilegt að skattleggja viðleitni manna til þess. Ég álít hinsvegar rétt að leggja slíkan fasteignaskatt á þá, sem eiga stór tún, og þá, sem eiga byggingalóðir, — og alls ekki síður ónotaðar lóðir en notaðar. Í 1. gr., eins og öllum I. kafla, hlýtur að vera ætlazt til, að fylgt verði þeirri meginreglu, að skatturinn komi þyngra niður á þeim, sem eiga stóreignir, heldur en á fátækri alþýðu.

Ákvæðin um jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga ná yfir II. og III kafla. Það er gott að skapa þarna nokkurn bakhjarl fyrir bæjar- og sveitarfélög og meiri jöfnuð. En sé það tilgangurinn, eins og ráða má af grg. frv., að hjálpa þeim bæjarfélögum, sem verst eru stæð, þá verð ég að segja, að 20. og 22. gr. frv. brjóta beinlinis í bága við þann tilgang. Þar eru sett svo ströng skilyrði fyrir því, að eftirlitsmaður sveitarstjórnarmálefna megi greiða bæjar- eða sveitarfélagi það, sem því er úthlutað úr jöfnunarsjóði, og ríkisstjórn skapaður svo mikill réttur til íhlutunar, ef út af ber með greiðslur einhvers bæjarfélags til ríkis og ríkisstofnana, að það er ákaflega varhugavert. Ríkisstjórn getur þá algerlega haldið eftir greiðslum þeim úr jöfnunarsjóði, sem eiga að fara til bæjarfélagsins. Og þótt ríkisstjórn vilji greiða féð, getur hún eða atvmrh. látið umboðsmann sinn eða eftirlitsmann skammta hvern eyri, svo að ekkert megi greiða úr bæjarsjóði nema með samþykki hans. Ég hygg, að þetta séu of ströng skilyrði og of langt gengið í því að auka vald ríkisstjórnar. Ég vil sérstaklega benda vinstri flokkunum á það, að í höndum íhaldssamrar ríkisstj. mundi þetta verða mjög slæmt ákvæði gegn þeim bæjarfélögum, þar sem vinstri stjórn væri við völd, ef óhöpp eyðilegðu greiðslugetu þeirra um stundarsakir. Hér er ríkisstj. gefið meira vald en í núgildandi lögum, svo að hún getur framkvæmt harðstjórn gegn þessum sveitar- og bæjarfélögum með því móti, sem 20. og 22. gr. heimila. Ég vildi, að n. athugaði, hvort ekki er hægt að kippa slíkum göllum burt, þannig að fullnægt sé réttlætinu gagnvart öllum aðiljum.